Nokkrir tugir Framsóknarmanna funduðu með Einari Þorsteinssyni, oddvita borgarstjórnarflokks Framsóknar í húsakynnum flokksins við Hverfisgötu í kvöld. Ekkert liggur þó enn fyrir um þátttöku flokksins í meirihlutaviðræðum.
„Það stóð aldrei til að taka ákvörðun um viðræður á þessum fundi,“ segir Einar.
Oddvitar Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar hafa lýst áhuga á að hefja meirihlutaviðræður við Framsókn en flokkarnir þrír hafa gert með sér bandalag um að halda saman í viðræðum um myndun meirihluta. Viðreisn hefur þannig hafnað því að taka þátt í mögulegum viðræðum við Framsókn og Sjálfstæðisflokk.
„Þetta var í rauninni bara samráðsfundur og upplýsingafundur í ljósi þeirrar stöðu að valkostunum hefur fækkað talsvert, eftir að flokkar eru að útiloka samstarf við aðra,“ segir Einar.
Um fyrsta félagsfundinn eftir kosningar var að ræða og Einar segir mikla gleði hafa ríkt á fundinum.
Einar segist hafa fullt umboð flokksins til viðræðna um myndun meirihluta í samvinnu við borgarstjórnarflokk sinn og næsta skref segir Einar vera fund borgarfulltrúa flokksins.
„Við hittumst á morgun og ræðum hvaða skref okkur langar að taka í framhaldinu.
Samfylkingin, Píratar og Viðreisn hafa samtals tíu borgarfulltrúa og vantar tvo til að mynda meirihluta. Framsókn er með fjóra fulltrúa og meirihluti þessara flokka yrði því skipaður fjórtán fulltrúum.