Ekið var inn í Mosfellsbakarí við Háaleitisbraut rétt eftir klukkan eitt í dag. Hafliði Ragnarsson konfektmeistari og framleiðslustjóri bakarísins, segir í samtali við Fréttablaðið að um hafi verið að ræða slys og að sem betur fer hafi enginn slasast.

„Þetta gerðist um eittleytið. Það var keyrt á rúðu og stólpa og það brotnuðu tvær stórar rúður,“ segir Hafliði.

„Það er smá sjokk hjá fólki en þetta eru sem betur bara dauðir hlutir sem þarf að græja,“ segir Hafliði.

Hafliði gerir ráð fyrir því að viðgerðir hefjist í dag eða á morgun.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Hann segir að allar vörurnar hafi verið fjarlægðar úr bakaríinu til að taka enga sjénsa en á von á því að það verði hægt að opna aftur á morgun.

„Núna er bara opið til að fá sér kaffi. Vörurnar voru teknar en það verður opnað á morgun og þetta lagað á næstu dögum,“ segir Hafliði að lokum en hann gerir ráð fyrir því að tryggingar muni greiða fyrir skemmdirnar.

Allar vörur voru fjarlægðar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari