Nokkuð var að gera hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Í hverfi 108 var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem tjónvaldur yfirgaf vettvang.
Hann sagðist hafa ekið á kyrrstæða bifreið á bifreiðastæði við vínbúð, farið svo inn í verslunina og svo ekið af vettvangi skömmu síðar. Stuttu síðar voru höfð afskipti af honum og hann handtekinn og vistaður í fangageymslu.
Þá var tilkynnt um umferðaróhapp í Hafnarfirði en þar var bíl ekið á ljósastaur. Í dagbók lögreglu kemur fram að HS veitur hafi mætt á vettvang vegna ljósastaursins og slökkviliðið hafi mætt vegna olíuleka. Farþegi í bifreiðinni ætlaði að leita sér aðstoða á bráðadeild vegna eymsla í fæti.
Rétt eftir miðnætti var tilkynnt um þjófnað í verslun í Kópavogi. Lögregla hafði þá afskipti af tveimur mönnum sem eru grunaðir um þjófnað, vörslu fíkniefna og brot á vopnalögum.
Þá voru einnig höfð afskipti af ökumönnum sem voru grunaðir um akstur undir áhrifum eða höfðu ekki ökuréttindi.