„Þetta var algerlega síðasta úrræði,“ segir Snorri Sigurðsson, líffræðingur hjá Reykjavíkurborg, um þá ákvörðun að eitra fyrir risahvönn, öðru nafni bjarnarkló, í Laugarnesi í fyrra.

Að sögn Snorra hefur stórlega dregið úr bjarnarkló í Laugarnesi eftir aðgerðirnar í fyrra. „Við tókum þá ákvörðun að prófa eiturblöndur og fengum verktaka í það. Það virðist hafa virkað mjög vel,“ segir Snorri sem aðspurður kveðst vona að eitrunin hafi ekki haft skaðlega áhrif á vistkerfið að öðru leyti.

„Þetta var ekki ákvörðun sem var létt að taka en mér sýnist hafa gengið vel því það eru stór svæði þar sem við virðumst að mestu vera laus við plöntuna. Við höfum þurft að eyða miklu minni tíma í Laugarnesi í sumar heldur en alla jafna,“ segir Snorri.

Að sögn Snorri hefur barátta borgarinnar gegn bjarnarkló staðið í um fimm ár. Töluverðar aðgerðir hafi verið í sumar. Víða séu stakar plöntur hér og þar. Þær geti orðið þriggja metra háar og nánast eins og tré að umfangi.

„Sums staðar eru þær til friðs en annars staðar eru þær að dreifa úr sér. Ef þær eru á borgarlandi þá reynum við að fjarlæga þær, að minnsta kosti halda þeim í skefjum þannig að þær dreifi ekki úr sér meira,“ útskýrir Snorri. Ekki sé verið að elta uppi bjarnarkló á einkalóðum, eins og til dæmis í Laugarnesi þar sem mikið er af tegundinni umhverfis hús og lóð Hrafns Gunnlaugssonar kvikmyndaleikstjóra. „Við erum ekki að fara inn á lóðir fólks nema þess sé óskað.“

Snorri segir mikilvægt að halda bjarnarkló í skefjum. „Plantan er þekkt erlendis fyrir að vaða yfir annan gróður og vera vistfræðileg ógn sem skiptir mestu máli þegar um er að ræða villt svæði. En síðan er þetta einfaldlega öryggismál. Plöntusafinn brennir ef hann lendir á húð og það skín sól á hann. Og af því að þetta eru stórar plöntur þá geta verstu tilfellin verið mjög alvarleg,“ segir hann.

Ekki er lagt til atlögu við bjarnarkló nema menn séu í heilgalla og á dögum þegar skýjað er að sögn Snorra.

„Í sjálfu sér gerir hún ekki neitt nema verið sé að slíta af stöngla eða blöð. Það er ekki nóg að rekast bara í hana. En auðvitað viljum við alls ekki að hún sé þar sem börn eru mikið á ferli þannig að það eru alltaf forgangssvæði.“

Svo er reyndar skyld planta sem heitir húnakló sem er miklu minni en getur valdið bruna líka og hún er að dreifa sér hratt svo við eigum fullt í fangi með hana,“ segir Snorri. Húnaklóin sé í byggðinni. „Það hefur verið töluvert af henni í Vesturbænum. Við höfum líka séð hana uppi í Grafarvogi. Hún er staðbundnari en oft í miklum mæli.“

Húnaklóin er erfiðari við að eiga en bjarnarklóin. „Þannig að það er stanslaust viðhald; að slá hana og halda henni niðri. Við höfum aukið sláttutíðnina á svæðum þar sem við vitum að hún er komin út í gras.“