Skýrslutökum af vitnum í Rauðagerðismálinu svokallaða lauk í vikunni en í heildina gáfu fjörutíu vitni skýrslu fyrir dómi á fjórum dögum. Fjögur eru ákærð í málinu, þau Angjelin Sterkaj, Claudia Sofia Coelho Carvahlo, Murat Selivrada, og Shpetim Qerimi en málflutningur í málinu fer fram þann 23. september næstkomandi.

Angjelin hefur játað að hafa skotið Armando Beqirai til bana fyrir utan heimili Armando í Rauðagerði en þegar hann mætti fyrir dóm á mánudag bar hann fyrir sig að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Sagði Angjelin að honum hafi verið hótað af Armando og vinum hans fyrr á árinu en hann sagði spjótin hafa beinst að sér eftir að hann neitaði að hjálpa Armando við að innheimta sekt frá Antoni Kristni Þórarinssyni, eða Tona eins og hann er kallaður. Um hafi verið að ræða 50 milljóna króna sekt.

Að sögn Angjelin hafði Armando ítrekað hótað honum og fjölskyldu hans lífláti. Greindi hann frá símtali fimmtudaginn 11. febrúar þar sem Armando hótaði að „ganga frá“ Angjelin. Því hafi Angjelin svarað með því að ef eitthvað kæmi fyrir hann, þá myndi hann „fylla maga [Armando] af byssukúlum.“

Laugardagskvöldið 13. febrúar fór hann að heimili Armando. Hafi hann ætlað að reyna að sættast við hann en ekki viljað að vinir Armando væru með í för. Angjelin sagðist hafa séð Armando taka haglabyssu úr skottinu á bíl þess síðar talda meðan hann var inni í bílskúr og þá hafi Angjelin skrúfað hljóðdeyfi á byssu sem hann hafði í fórum sínum. Það hafi aftur á móti ekki verið ætlun hans að skjóta Armando.

„Þegar hann kom út [úr bílskúrnum] ætlaði ég að spjalla við hann,“ sagði Angjelin fyrir dómi en hann sagði Armando hafa brugðist illa við þegar hann kallaði til hans. „Um leið og hann ætlaði að ráðast á mig byrjaði ég að skjóta.“

Angjelin hafði verið staddur í sumarbústað í Varmahlíð, ásamt þremur mönnum sem höfðu komið til landsins frá Spáni, frá því á fimmtudeginum en kom aftur til Reykjavíkur á laugardeginum. Eftir morðið fór hann aftur í umræddan bústað.

Unnusta Angjelin meðal ákærðra

Auk Angjelin eru þrjú ákærð fyrir samverknað. Claudiu, unnustu Angjelin, er gefið að sök að hafa fylgst með tveimur bílum í eigu Armando. Þá hafi hún sent Angjelin skilaboð þegar annar hvor bíllinn færðist úr stað.

Fyrir dómi sagðist Claudia ekki hafa spurt hver ætti umrædda bíla og af hverju hún ætti að fylgjast með þeim. „Ef hann segir mér að gera eitthvað þá geri ég það,“ sagði Claudia. Kvaðst hún vita af einhverjum deilum sem Angjelin stóð í en ekki hvað þær væru nákvæmlega um.

Claudia fór norður með Angjelin aðfaranótt laugardags og frétti hún af morðinu morguninn eftir. Hún hafi þá séð Angjelin vera að skemma skóna sína og spurt hvort hann hefði drepið Armando en ekki fengið nein svör. Þá hafi hún komist að þeirri niðurstöðu að Angjelin hafi myrt Armando en þar sem hún sagðist ekki vita hvað Angjelin gæti gert við sig ákvað hún að greina ekki frá því þegar hún var handtekin af lögreglu.

Angjelin og Claudia greindu bæði frá því fyrir dómi að þau hefðu séð grunsamlega einstaklinga fyrir utan heimili Angjelin í Brautarholti á laugardeginum og sagðist Angjelin óttast að vinir Armando myndu drepa sig þannig að hann ákvað að hitta Armando það kvöld einn.

Neitar að hafa bent á bíl Armando

Murat var í ákæru gefið að sök að hafa sýnt Claudiu umrædda bíla og gefið henni þau fyrirmæli að senda fyrir fram ákveðin skilaboð á Angjelin ef þeir væru á hreyfingu.

Bæði Claudia og Angjelin hafa þó sagt að Murat hafi aðeins sýnt Claudiu einn bíl í eigu Armando. Angjelin hafi aftur á móti sagt henni frá seinni bílnum og gefið henni fyrirmælin en þau stóðu við það að Murat hafi sýnt Claudiu fyrri bílinn. Fyrir dómi sagðist Murat ekki hafa sýnt Claudiu fyrri bílinn en það gæti verið að Claudia hafi spurt þegar þau voru á staðnum.

Aðspurður um hvort hann vissi af einhverjum deilum hjá Angjelin sagðist hann hafa heyrt af hótunum en ekki tekið því alvarlega. Þá hafi Angjelin ekki nefnt Armando á nafn í tengslum við málið. Var minni hans stopult um hvort hann hafi hitt eða talað við Angjelin kvöldið sem Armando lést en sagði hann að möguleg árás hafi aldrei komið til tals, hann hafi aðeins verið að ræða möguleg byggingaverkefni, þar á meðal á heimi Angjelin.

Murat sagðist síðan hafa frétt af morðinu um nóttina, skömmu eftir að Armando var drepinn.

Fór með Angjelin að Rauðagerði

Shpetim Qerimi er gefið að sök að hafa ekið með Angjelin að Rauðagerði rétt fyrir miðnætti nóttina sem Armando var drepinn og svo aftur af vettvangi skömmu eftir að Armando var skotinn.

Fyrir dómi lýsti Shpetim því að Angjelin hafi boðið honum í snjósleðaferð um kvöldið og var það þá sem þeir stoppuðu í Rauðagerði en Angjelin var þá undir stýri. Segir hann Angjelin hafa beðið sig um að fara undir stýri og bíða meðan hann fór út. Aðspurður um hvort Shpetim vissi hvað væri að fara að gerast sagðist hann halda að hann væri að kaupa fíkniefni eða annað slíkt.

Skömmu síðar hafi hann séð Angjelin gefa sér merki og tekið hann inn í bílinn. Angjelin sagði í sínum vitnisburði að hann hafi sagt; „hann mun ekki drepa neinn lengur“ en Shpetim sagðist ekki hafa munað eftir slíku. Hann hafi verið fullur og annars hugar. Þeir voru á leið í Varmahlíð þegar þeir stoppuðu í Kollafirði þar sem Shpetim kvaðst þurfa að pissa. Á sama tíma var Angjelin að losa sig við byssuna og kastaði henni út í sjó en Shpetim sagðist ekki hafa vitað af því.

Seinna kom síðan Claudia þangað sem þeir voru og sendi Angjelin þá Shpetim heim á bíl Claudiu. Shpetim komst að því morguninn eftir að Armando hefði verið myrtur og hringdi hann í Angjelin til að spyrja hvort hann hefði heyrt af málinu.

Angjelin hafi þá sagst vita af morðinu en sagt Shpetim að tala ekki um málið í síma. Angjelin og Claudia komu á mánudagskvöldinu heim til Shpetim og var þar morðið til umræðu. Að sögn Shpetim sagði Angjelin þá að fólk héldi að hann hefði verið að verki.

Angjelin hafði áður rætt við Shpetim um hótanir sem hann hafði fengið frá vinum Armando en degi fyrir morðið, þann 12. febrúar, keyrði Claudia með Shpetim til Borgarness þar sem þau hittu Angjelin. Þar hafi Angjelin beðið Shpetim um ráð og sagt honum að hótanirnar beindust einnig gegn fjölskyldu hans en Shpetim kvaðst hafa ráðlagt Angjelin að ná sáttum í málinu áður en það gengi lengra.

Hann hafi síðan farið aftur með Claudiu til Reykjavíkur og tekið með tösku í eigu Angjelin. Kvaðst hann ekki vita hvort það væri byssa í töskunni en Angjelin sótti töskuna daginn eftir.

Þau vitni sem voru með Claudiu, Murat og Shpetim dagana fyrir og eftir morðið, og daginn sjálfan, lýstu öll fyrir dómi að upplifun þeirra væri sú að það hefði komið þremenningunum á óvart að Armando var drepin.

Upptökur tímasettu árásina

Almar Þór Ingason aðstoðaði lögreglu við að taka saman myndefni í tengslum við árásina en hann lýsti því að Angjelin og Shpetim hafi verið nálægt Rauðagerði þegar Claudia sendi fyrir fram ákveðnu skilaboðin „hey sexy“ á Angjelin klukkan 23:45, þegar Armando var á leið frá Rauðarárstíg þar sem hún var að fylgjast með bíl hans.

Vél sem var beint að húsnæði FÍH náði spegilmynd af því þegar talið er að Armando hafi komið heim en klukkan 23:51 sást hreyfiskynjaraljós kvikna við bílskúrinn. Skömmu síðar slokknaði á ljósinu en klukkan 23:56 kviknaði það aftur og er það talið hafa verið þegar Armando kom út úr bílskúrnum.

Talið er að Angjelin hafi skotið Armando um 23:56 og að atburðarásin hafi tekið innan við mínútu en Angjelin og Shpetim sjást á Sogavegi að aka í burtu klukkan 23:57.

Í heildina var Armando skotinn níu sinnum í höfuð og búk en talið er að Armando hafi meðal annars verið skotinn í bakið. Björgvin Sigurðsson, sérfræðingur hjá tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði fatnað Armando eftir morðið en hann merkti ellefu göt á peysu Armando.

Eitt gatið reyndist vera eftir það að peysan var klippt utan af Armando en Björgvin greindi frá því fyrir dómi að allavega fimm skot hafi verið innskotsgöt, það er að kúlan hafi farið þar inn, en hann gat ekki sagt með vissu til um hin. Þá greindi hann frá því að eitt skotið hefði líklega komið í bak Armando.

Líklega skotinn fyrst í líkama

Réttarmeinarfræðingurinn Pétur Guðmann Guðmannsson var meðal sérfræðivitna sem kölluð voru til í vikunni en hann greindi frá því að hann hefði merkt níu sáragöng á líkama og höfði Armando. Flest skotin voru í líkama og handleggi Armando en tvö skot voru í höfuð.

Aðspurður um hvort hægt væri að draga ályktanir út frá sárunum um hvaða skot komu fyrst sagði Pétur það erfitt. Hann vísaði þó til þess að þar sem lítil vefjaviðbrögð voru við sárin í höfði hafi Armando líklega verið látinn þegar þau skot komu. Bæði skotin fóru í gegnum heila Armando.

Hann taldi fjögur skot hafa verið banvæn ein og sér, þar á meðal skotin í höfuð. Hin skotin fóru í gegnum lungu Armando, annað fór inn í gegnum brjóstkassa hans og eitt inn í síðu hans.

Pétur sagðist ekki geta sagt til um í hvaða stöðu Armando og Angjelin voru þegar skotunum var hleypt af en tók þó fram að Angjelin hafi ekki skotið af innan við metra færi.

Heyrðu hvell um miðnætti

Þóranna Helga Gunnarsdóttir, ekkja Armando, lýsti því fyrir dómi að hún hafi orðið vör við læti fyrir utan heimili þeirra í kringum miðnætti en hún sagði það hafa hljómað eins og einhver hefði dottið á hurðina á bílskúrnum.

Bjarki Hrafn Gunnarsson, bróðir Þórönnu, og Bjarnar Þór Jónsson bjuggu á neðri hæðinni og heyrðu þeir einnig hvelli eða skelli. Þeir sögðust þó ekki hafa heyrt öskur eða köll fyrir það. Bjarnar fór þá beint út og sá Armando liggja á jörðinni. Hann hljóp upp stigaganginn og kallaði á Þórönnu að hringja á sjúkrabíl.

Óljóst var í fyrstu hvað hafði átt sér stað að sögn Þórönnu, Bjarka og Bjarnars, og voru uppi vangaveltur um að Armando hefði mögulega verið laminn. Aðspurð um hvort að hún vissi af einhverjum deilum hjá Armando sagði Þóranna að hann hafi verið mikið í símanum daginn áður og þegar hún spurði hann út í málið sagðist hann hafa verið að reyna að ná sáttum í einhverju máli.

Eftir að Armando var fluttur af vettvangi hringdi hún í vini Armando til að láta þá vita.

Vissu ekki strax að um skotárás væri að ræða

Nokkrum mínútum eftir að Þóranna hringdi á neyðarlínuna komu sjúkrabílar á vettvang og var endurlífgun reynd á vettvangi. Þegar peysan var klippt utan af Armando minntist Þóranna þess að hafa verið spurð hvort hann hafi verið stunginn.

Eftir að Armando var kominn á sjúkrabörur sá lögregla skothylki og var þá spurt hvort hann hefði verið skotinn. Var það þá sem lögregla flutti Þórönnu inn í bílskúr og í kjölfarið inn í húsið. „Hann er örugglega dáinn og þau vilja ekki segja mér það,“ sagðist Þóranna hafa hugsað á þeim tímapunkti.

Lögregluþjónarnir sem voru fyrstir á vettvang lýstu því að þeir hefðu ekki vitað strax að um skotárás væri að ræða, þau hafi aðeins fengið tilkynningu um meðvitundarlausan mann. Þegar þau komu í Rauðagerði var þó ljóst að málið væri alvarlegt. Eftir að búið var að flytja Armando af vettvangi fundust skothylkin en þau voru alls níu talsins.

Að sögn lögreglu var ekki hægt að segja til um hvaðan skotunum var skotið þar sem hvasst var og skothylkin höfðu fokið til. Um leið og það var ljóst að um skotárás væri að ræða var unnið að því að ljósmynda og tryggja sönnunargögn auk þess sem bílskúrinn var innsiglaður. Aðspurðir um hvort skotvopn hafi fundist í bílskúrnum sögðust allir lögregluþjónarnir fyrir dómi ekki hafa séð vopn þar um nóttina og við frekari leit síðar meir hefði heldur ekkert fundist.

Þann 9. mars ákvað lögregla að leita í Kollafirði, við vegginn sem merktur er Flatus Lifir, og fannst þar byssa Angjelin, með hljóðdeyfinum á, í sjónum. Byssan lá mjög grunnt og sáu lögreglumenn hana því mjög fljótlega.

Skothylkin sem fundust á vettvangi voru samkennd við þá byssu en byssan var send til Danmerkur þar sem sýni voru tekin. Þrjú sýni, þar á meðal eitt sem tekið var af skefti byssunnar, reyndust innihalda mennskt erfðaefni frá fleiri en einum einstakling.

Johann Frederick Petersen, sérfræðingurinn sem fór yfir sýnin, greindi frá því fyrir dómi að um væri að ræða blönduð sýni og því ekki hægt að segja með fullri vissu hver hefði komið við byssuna. Nöfn Angjelin og Claudiu voru þó nefnd sérstaklega í skýrslunni með niðurstöðunum en að sögn Frederick var það þar sem ekki var hægt að útiloka þau algjörlega í sýnunum.

Tóku deilunum ekki alvarlega

Nánustu vinir Armando komust að því að ráðist hafði verið á Armando skömmu eftir miðnætti og mætti einn þeirra á staðinn meðan lögregla var enn að störfum. Að sögn lögreglu voru vinir Armando vissir um að Angjelin hefði verið að verki. Þeir hafi vitað af deilunum en aldrei búist við að til þessa myndi koma.

Fjórir þeirra, Goran, Rilind, Enesid og Vladimir, höfðu verið í bíl með Armando fimmtudaginn 11. febrúar þegar hringt var í Angjelin sem hafði haldið því fram að Armando hefði verið reiður og öskrað á sig í síma. Að sögn vinanna var það þó þannig að Enesid hefði hringt í Angjelin til að spyrja út í hótanir sem þeir höfðu frétt af og þegar Angjelin vildi tala við Armando hefði hann neitað.

Símtalið fór fram á albönsku og því skildu ekki allir í bílnum það sem sagt var í símtalinu en vildu þeir flestir meina að Armando hefði verið heldur rólegur, þótt hann hafi kannski verið reiður. Enesid sagði þó Armando hafa notað albanskt orð sem megi þýða sem „ég ætla að ganga frá þér“ eða annað því um líkt. Aðspurður um hvort það hafi verið þá sem Angjelin hótaði að „fylla maga [Armando] af kúlum“ sagði Enesid svo vera.

Daginn eftir fór síðan fram fundur milli nokkurra aðila til að ræða fullyrðingar sem Angjelin hafði komið með, um að Armando hefði tekið við bíl og fíkniefnum gegn því að drepa Anton Kristin og að hann væri á leiðinni með grímuklædda menn til að ráðast á Armando.

Anton Kristinn sagði fyrir dómi að það sem Angjelin hefði sagt væri lygi. Hann hafi rætt við Goran á föstudeginum og rætt það að funda saman á mánudeginum til að allir sættust. Óljóst er hverjir áttu nákvæmlega að vera á þeim fundi en ljóst er út frá vitnisburðum að sá fundur var allavega á dagskrá.

Óljóst um þátt Antons Kristins

Við skýrslutökurnar var vísað til samskipta á Messenger milli Armando, Goran, Vladimir og Rilind þar sem Angjelin kom meðal annars til tals. Var þar birt mynd af bíl Angjelin og talað um að kveikja í honum. Þá var talað um einhvers konar greiðslu og að einhverjir hefðu tvo daga til að sættast.

Vladimir og Goran gerðu lítið úr samtalinu fyrir dómi og sögðu umrædd skilaboð aðeins grín. Goran hélt því ennfremur fram að þannig væru bara samskipti Albana, að þau gætu litið út eins og hótanir en væru í raun eðlileg samskipti. „Einhver gæti sent skilaboð um að ætla að drepa móður eða föður þinn en hálftíma seinna eru þau bestu vinir,“ sagði Goran.

Aðspurðir um hvort samtalið um einhvers konar greiðslu hafi snúið að „meintri sekt“ á Anton Kristin sögðu þeir flestir svo ekki vera. Rilind sagði þó að þeir hefðu verið að ræða um Anton, að Armando vildi sekta Anton vegna „þess kjaftæðis sem kom.“ Sjálfur neitaði Anton því alfarið að slík sekt hefði verið sett á hann.

Vinir Armando voru allir sammála um það að Armando virtist hafa jafnað sig á deilunum á laugardag en hann mætti til vinnu frá kl. 19 til 23 á laugardagskvöldinu sem dyravörður á skemmtistað í miðbænum. Rilind minntist þó á það við skýrslutökur að Armando hafi verið ólíkur sjálfum sér mánuðinn fyrir morðið og meðal annars hóta sér lífláti en sagði hann Armando ekki óeðlilegan á laugardag.

Enginn þeirra vildi kannast við að hafa farið að heimili Angjelin það kvöld.

Angjelin órólegur um kvöldið

Þeir sem þekktu til Angjelin, þar á meðal nágrannar hans sem sáu Angjelin um kvöldið, voru þó sammála um að Angjelin hafi verið ólíkur sjálfum sér. Hann hafi verið stressaður og „nojaður“ og minntust þess að hafa séð Angjelin áður með byssu.

Mennirnir þrír, sem höfðu nýverið komið frá Spáni, fóru með Angjelin í sumarbústaðinn þar sem Anton Kristinn var meðal annars og gáfu þeir skýrslu fyrir dómi. Sögðust þeir allir hafa komið til Íslands til að vinna og vísuðu því á bug að þeir hafi verið fluttir inn til að ráðast á Armando.

Tveir þeirra sem voru með í för þegar Angjelin hélt til Reykjavíkur á laugardeginum, Yuri og Romas, sögðust lítið þekkja Angjelin og minntust þess ekki að hafa séð hann með byssu. Þá urðu þeir ekki varir við skrýtna hegðun hjá Angjelin.

Þriðji maðurinn, Eduardo, sagði ferðina norður aftur á móti hafa verið skrýtna þar sem Angjelin var alltaf að þvælast á milli, fara norður og svo aftur suður og svo aftur norður. Þegar þeir komu aftur í Varmahlíð daginn eftir morðið sagðist Eduardo hafa falið sig fyrir Angjelin en hann hafði þá heyrt af morðinu og sagðist viss um að Angjelin hafi verið sá sem drap Armando.

Samantekt lögreglu gagnrýnd

Farið var um víðan völl í skýrslutökunum en verjendurnir beindu meðal annars spjótum sínum að lögreglu vegna greinagerðar sem lögregla skrifaði um málið. Lögregluþjónninn sem stýrði rannsókninni sá um að skrifa skýrslu um málið og er hún dagsett 30. apríl 2021.

Verjendurnir bentu á að í umræddri skýrslu væri að finna alls kyns ályktanir um málið og var það gagnrýnt harðlega. Þegar lögregluþjónninn sem stýrði rannsókninni var beðin um að skýra málið sagði hún vera um að ræða mat lögreglu.

Var meðal annars bent á að þrátt fyrir að bæði Angjelin og Claudia hafi sagt í mars, mánuði áður en skýrslan var birt, að það hafi verið Angjelin sem sagði Claudiu frá seinni bílnum og gefið henni fyrirmæli, hafi það áfram staðið í ályktun um þátt Murat í málinu að hann hafi sýnt bílana og gefið fyrirmælin.

Þá kallaði verjandi Claudiu skýrsluna „málflutning“ en hann sagði víða fullyrt að hitt og þetta hefði gerst, til að mynda að Claudia hafi mátt vita að eitthvað stæði til þetta kvöld og því ætti að ákæra hana. „Er í lagi að segja bara svona og leggja fyrir dóm? Má lögregla segja að menn hafi gerst sekir um manndráp?“

Þá benti dómari málsins einnig á að á einni síðu væri að finna „kenningu lögreglu óháð framburði sakborninga“ en hann sagði grundvallaratriðið vera framburð sakborninga „Það er bara litið fram hjá framburði sakborninga og fabúlerað eitthvað allt annað upp úr gögnunum,“ sagði dómarinn. „Það alla vega leikur verulegur vafi á því þarna hvort lögregla hafi gegnt hlutverki sínu.“

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn miðlægrar rannsóknardeildar ríkislögreglustjóra, var næst síðasta vitnið sem kallað var til en þar var hann einnig látinn svara fyrir skýrsluna. Hann lýsti því að samantektin hafi verið gerð af starfsmanni í hans deild og aðspurður um hvort lögfræðingur hafi komið að gerð skýrslunnar, í ljósi lögfræðilegra ályktana sem finna mætti í skýrslunni, sagði Margeir svo vera. Gat hann lítið svarað fyrir skýrsluna að öðru leiti.

Líkt og áður segir er um að ræða gríðarlega umfangsmikið mál þar sem 40 manns gáfu skýrslu í heildina og um þrjú þúsund blaðsíður af gögnum voru lögð fram fyrir dómi. Málið er nú á lokametrunum og í næstu viku munu saksóknarar og verjendur flytja mál sitt í einu umfangsmesta sakamáli Íslandssögunnar.

Hin ákærðu ásamt verjendum þeirra.
Fréttablaðið/Anton Brink