Kostnaður við að greina eitt sýni í leit að kórónu­veiru­smiti er að jafnaði um tíu þúsund krónur við nú­verandi að­stæður á sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítala. Verið er að skoða leiðir til fá tækja­búnað til landsins sem gæti greint fleiri sýni í einu og myndi notkun hans lækka kostnaðinn við greininguna.

Stjórn­völd stefna nú að því að bjóða þeim sem koma til landsins eftir 15. júní að sleppa við að fara í tveggja vikna sótt­kví. Í staðin þyrftu þeir að fram­vísa viður­kenndu heil­brigðis­vott­orði upp á að þeir séu ekki með kórónu­veiru­smit eða þá að fara í sýna­töku á Kefla­víkur­flug­velli, fara svo leiðar sinnar og fá niður­stöðu greiningarinnar senda í smitrakningarappið sem þeim er gert skylt að hala niður. Mark­miðið er að ná að greina sýnin sama dag og þau eru tekin.


Til að það yrði ger­legt er ljóst að margt þarf að breytast á sýkla- og veiru­fræði­deild Land­spítala. Yfir­læknir deildarinnar, Karl Gústaf Kristins­son, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að deildin hafi fengið beiðni um að skoða leiðir til að auka af­kasta­getu. Hann segir þau tæki sem deildin hafi nú til af­nota ekki sér­lega af­kasta­mikil og dýrari í notkun en tæki sem geti greint mörg sýni í einu.

Þurfa betri búnað

Af­kasta­geta veiru­fræði­deildar er nú um 1.200 sýni á sólar­hring að sögn Karls. Það gæti verið nóg til að sinna þeim hópum sem kæmu til landsins í fyrstu því ó­lík­legt er að straumur fólks til landsins verði stríður strax um miðjan júní. Ljóst er þó að komi hingað margar flug­vélar til landsins á næstunni verður að vera hægt að greina fleiri sýni dag­lega.


Kostnaður myndi þá sparast við kaup á hvarf­efni því tæki sem greinir mörg sýni í einu notar hlut­falls­lega minna af hvarf­efni. „Við erum búin að á­ætla að kostnaðurinn núa sé að jafnaði eitt­hvað um tíu þúsund krónur kannski á sýni,“ segir Karl. Hann tekur þó fram að verið sé að miða við gjald­skrá sem hentar ekki full­kom­lega þeim að­stæðum sem deildin hefur unnið við í far­aldrinum. Enn hefur ekki gefist tæki­færi til að kostnaðar­greina prófin full­kom­lega.

Karl Gústaf segir að verið sé að reyna að fá afkastameiri tæki til landsins. Þau myndu eflaust lækka kostnaðinn við sýnatökuna.
Háskóli Íslands

Ó­víst er hver stæði straum af kostnaði við sýna­tökuna í Kefla­vík. For­sætis­ráð­herra sagði á blaða­manna­fundi í gær að verið væri að skoða leiðir; hvort ríkið tæki á sig kostnaðinn eða hvort þeir sem kæmu til landsins þyrftu að greiða fyrir eigið sýni. Hún sagði að það kæmi til greina að ríkið greiddi sýnin í fyrstu en með tímanum yrði kostnaðurinn færður yfir á ferða­menn.


Sam­kvæmt far­þega­tölum Isavia komu 268.799 ferða­menn til landsins í gegnum Kefla­víkur­flug­völl í júní í fyrra. Ef 10% þeirra ferða­manna sem komu til landsins í þeim mánuði kæmu hingað eftir af­léttingar ferða­tak­markana, þann 15. júní, væri kostnaðurinn við sýna­tökuna við nú­verandi að­stæður því um 269 milljónir. Ef von er á að­eins 5% þeirra ferða­manna sem komu í júní í fyrra, sem þýðir að hingað kæmu tæp­lega 13.500 til landsins eftir 15. júní, væri kostnaðurinn um 135 milljónir miðað við gjald­skrána sem Karl vitnaði til.

Eins og fyrr segir er verið að reyna að ná kostnaðinum niður með því að koma höndum yfir tækja­búnað sem er bæði sjálf­virkari og af­kasta­meiri. Karl segir þó marga þætti í þessu og margt ó­ljóst við fram­kvæmdina á Kefla­víkur­flug­velli. „Það á eftir að út­færa þetta allt. Á til dæmis að vinna á vöktum allan sólar­hringinn við að greina sýnin? Eða á bara að vinna fram á kvöld eða til mið­nættis? Það eru ýmsir mögu­leikar í þessu,“ segir hann en kostnaðurinn gæti auð­vitað hækkað ef borga þarf starfs­fólki yfir­vinnu og fyrir fleiri kvöld- eða nætur­vaktir.