Sveitarfélagið Tjörneshreppur er eina sveitarfélagið sem hefur samþykkt að greiða félagsmönnum Starfsgreinasambandsins (SGS) þær eingreiðslur sem sambandið fór fram á. Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) sendi sveitarfélögunum póst nýlega þar sem ítrekað var að þeim væri með öllu óheimilt að greiða þessar greiðslur til félagsmanna SGS. Félagsmennirnir sem starfa hjá sveitarfélaginu eru þó ekki nema þrír.

Ólíklegt að bréfið breyti áætlunum hreppsins

Stéttarfélagið Framsýn, sem er aðildarfélag SGS, sendi erindi á Norðurþing, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp þar sem skorað var á sveitarstjórnirnar að mismuna ekki starfsmönnum varðandi launahækkanir eftir stéttarfélögum. Var þannig ákveðið að stéttarfélögin leituðu til sveitarfélaganna sjálfra varðandi eingreiðslurnar eftir að SÍS neitaði að ræða slíka greiðslu á meðan kjaradeilurnar væru hjá ríkissáttasemjara.

Bæði Norðurþing og Þingeyjarsveit neituðu að gangast við greiðslunum og vísuðu bæði á SÍS. Þau einfaldlega gætu ekkert gert vegna þess að sambandið færi með fullt samningsumboð í kjaradeilum fyrir hönd sveitarfélaganna. Framsýn hefur lýst yfir vonbrigðum sínum með ákvörðun sveitarfélaganna.

Tjörneshreppur er afar fámennt sveitarfélag. Aðeins er um að ræða greiðslur til um þriggja starfsmanna.

„Með sinni afstöðu skrifa þau upp á að það sé eðlilegt að þeir sem eru á lægstu laununum hjá sveitarfélögunum sitji einir eftir og fái ekki eingreiðslu í ágúst upp á kr. 105.000 meðan ósamið er,“ segir í tilkynningu frá Framsýn. Eitt sveitarfélagið stendur hins vegar upp úr.

Tjörneshreppur svaraði þannig áskoruninni á þessa leið: „Hér með staðfestist að Tjörneshreppur mun greiða til meðlima SGS sambærilega eingreiðslu/innágreiðslu í ágúst og starfsmenn annarra stéttarfélaga/sambanda sem eru með lausa samninga eiga að fá í ágúst.“ Þetta kvittar Aðalsteinn J. Halldórsson Oddviti Tjörneshrepps upp á.

Í samtali við Fréttablaðið staðfesti Aðalsteinn þetta. Hann kvaðst þó ekki hafa séð póstinn frá SÍS, sem Fréttablaðið greindi frá í gær, þar sem sveitarfélögunum var bannað að greiða eingreiðslurnar til félagsmanna SGS. Aðspurður hvort það myndi hafa áhrif á gefið loforð hreppsins taldi Aðalsteinn það ólíklegt en vildi þó ekkert staðfesta fyrr en hann væri búinn að lesa póstinn sjálfan.

Hugarfarið sem skipti máli

Formaður Framsýnar, og nafni oddvita Tjörneshrepps, Aðalsteinn Á. Baldursson, fagnar þá ákvörðun Tjörneshrepps. „Þó að þetta sé lítill hreppur með örfáa starfsmenn þá eru þetta ákveðin skilaboð sem þeir eru að senda og við virðum mjög,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið. Þannig eru þeir ekki margir starfsmennirnir hjá hreppnum. „Ég held þetta séu svona þrír starfsmenn. En það er ekki fjöldinn sem skiptir máli heldur hugarfarið.“

Aðalsteinn fagnar ákvörðun Aðalsteins um að greiða félagsmönnum Framsýnar greiðslurnar.

„Þessi vinnubrögð hjá hinum sveitarfélögunum eru með svo miklum ólíkindum. Við, aðildarfélög SGS, erum að gera allt rétt; við förum í kjaraviðræður, þær ganga ekki og þá ber okkur að vísa þeim til ríkissáttasemjara til þess að finna lausn á málunum. Svo er það samninganefnd sveitarfélaga í landinu sem ætlar að verðlauna þá sem bíða á kantinum með því að veita þeirra félagsmönnum þessa eingreiðslu á meðan okkar fólk fær ekki krónu,“ heldur hann áfram.

Hann kveðst þá vita til þess að fjölmargir sveitarstjórnarmenn séu ósáttir og skammist sín fyrir að þurfa að hlýta þessum stóra dómi SÍS. „Ég hef heyrt í sveitarstjórnarmönnum sem eiga ekki til orð yfir þessu. En þeir segjast bara ekki geta rofið samstöðuna hjá sveitarfélögunum,“ útskýrir hann.

Hann vil þá biðla til sveitarfélaga landsins að „bakka út úr þessu rugli“. „Þetta eru kaldar kveðjur sem þau eru að senda starfsmönnum sínum um allt land. Það er algjörlega til skammar mismuna félögum sínum svona því þetta er lægst launaða fólkið sem stendur þarna eftir,“ segir hann að lokum.

Ætla ekki að eiga viðræðurnar í gegnum fjölmiðla

Framkvæmdastjóri SÍS, Karl Björnsson, sagðist þá ekki vilja tjá sig frekar um málið. Kjaradeilunum hefði verið vísað til ríkissáttasemjara af SGS og þar gilti trúnaður um viðræðurnar. „Við bara lútum þeim leikreglum sem þar eru settar. Ef að stéttarfélögin kjósa að reyna að halda uppi viðræðum í gegnum fjölmiðla þá er það þeirra val,“ segir Karl en það ætli SÍS sér ekki að gera.

Karl segir SÍS ætla að lúta hefðbundnum leikreglum kjaraviðræðna.

Aðspurður hvort það hefði einvherjar afleiðingar fyrir Tjörneshrepp að hunsa bannið við eingreiðslunum svaraði hann: „Það verður bara skoðað.“