Eitt COVID-19 smit greindist innanlands í gær og var viðkomandi í sóttkví. Fjögur smit greindust við landamærin.

Alls eru nú 64 einstaklingar í einangrun og 128 í sóttkví en 843 eru í skimunarsóttkví.

Nýgengi innanlandssmita, það er fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa, undanfarnar tvær vikur er nú 9,3 en var 12,3 á föstudaginn. Nýgengi landamærasmita er nú 15,0 og var 18,8 á föstudaginn.

Frá upphafi faraldursins í febrúar hafa 5.990 manns greinst með kórónuveiruna hérlendis og hafa 29 dauðsföll verið rakin til COVID-19 á Íslandi.

Lokið er að bólusetja 4.546 einstaklinga og er bólusetning hafin hjá 3.703 til viðbótar.