Í gær greindist eitt COVID-19 smit innanlands og var hinn smitaði í sóttkví. Í fyrradag greindust þrjú smit innanlands og voru þau öll utan sóttkvíar.
Eitt smit greindist á landamærunum og greindist það í seinni landamæraskimun. Daginn áður greindust fjögur COVID-19 smit á landamærunum og voru þrír með mótefni.
Nú eru 28.056 eru fullbólusettir hér á landi og bólusetning hafin hjá 33.078 til viðbótar.
Þeim sem eru á sjúkrahúsi vegna COVID-19 fjölgar um einn milli daga og eru nú tveir inniliggjandi af þeim sökum. Talsverð fjölgun er í hópi þeirra sem eru í sóttkví og eru þeir nú 199 en voru 147. Tíu færri eru í einangrun, alls 83. Nú eru 1130 í skimunarsóttkví.
Tekin voru 763 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær. Þá voru 743 sýni tekin á landamærunum eða í seinni landamæraskimun. Þá voru tekin 210 sýni í svokallaðri sóttkvíar- og handahófsskimun.
Reglugerð um tilslakir í sóttvanaðgerðum á að taka gildi á morgun en Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í gær að ekki væri útilokað að því yrði breytt ef mörg smit greindust áfram utan sóttkvíar. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði til við ráðherra að reglugerðin tæki gildi á föstudaginn.
Samkvæmt henni mega 20 koma saman, íþróttastarf verður heimilað og sundlaugar og líkamsrækt opna með leyfi fyrir helmingi gesta.
Fréttin hefur verið uppfærð.