„Þetta voru fordæmalausar aðgerðir á fordæmalausu ári.“ Þetta sagði Filippo Grandi, framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, í nýútgefinni ársskýrslu stofnunarinnar um stöðu flóttafólks í fyrra. Skýrslan er gefin út tveimur dögum fyrir alþjóðlega flóttamannadaginn, sem verður á sunnudaginn.

Um eitt prósent allrar heimsbyggðarinnar var á vergangi frá heimkynnum sínum árið 2020. Alls neyddust 11,2 milljónir manns til að flýja heimili sín á árinu en árið áður hafði talan verið ellefu milljónir. Flestir flóttmennirnir eru Sýrlendingar, um 6,8 milljón talsins. Þar á eftir koma Venesúelamenn (4,9 milljónir), Afganir (2,8 milljónir) og Suður-Súdanir (2,2 milljónir).

Í skýrslunni bendir Grandi á að Alþjóðabankinn og aðrar alþjóðlegar fjármálastofnanir hafi gripið til róttækra aðgerða til að bregðast við ástandinu í fyrra, meðal annars með því að veita ríkjum styrki í stað lána upp á um einn milljarð Bandaríkjadala fyrir að veita flóttamönnum hæli.

Tyrkland var það land sem hefur tekið við flestum flóttamönnum. Þar eru nú um 3,7 milljónir flóttamanna, aðallega Sýrlendingar. Kólumbía er í öðru sæti en landið hefur tekið við rúmlega 1,7 milljónum, mest frá Venesúela. Þýskaland er í þriðja sæti með 1,5 milljón flóttamanna en umsóknum um hæli í landinu hefur þó fækkað markvisst síðustu fjögur árin.

„Þrátt fyrir mörg afrek sem unnin voru árið 2020 er því miður fleira fólk á vergangi en nokkru sinni fyrr og þarfir þeirra enn meiri,“ sagði Grandi. „Þjáningar þeirra margfaldast vegna erfiðleikanna sem stafa af COVID-19, skorts á pólitískum framförum við úrlausnir hernaðarátaka og fjármagnsskorts Flóttamannastofnunarinnar og annarra mannréttindastofnana. Með endalokum stríða og uppbyggingu friðar væri hægt að uppfylla draum margra milljóna um að fá að snúa heim til sín. En jafnvel fullfjármögnuð gæti Flóttamannastofnunin aðeins komið til móts við brot af þessum þörfum og fjármagnsrammar í þágu mannúðarmála nægja ekki né eru þeir nógu fyrirsjáanlegir til að tryggja nauðsynleg viðbrögð.“