Eitt nýtt smit af kórónaveirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum greindist hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær og eru virk smit á landinu því orðin fjögur talsins. Manneskjan var utan sóttkvíar við greiningu.

Alls voru 355 sýni tekin hjá Íslenskri erfðagreiningu í gær og 86 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala. 1803 hafa nú smitast frá upphafi hér á landi.

Í gær voru 727 í sóttkví en þeim fjölgaði um 101 í dag og eru því 828 talsins. Alls hafa tæplega 58 þúsund sýni verið tekin og rúmlega 20 þúsund lokið sóttkvísaðgerðum.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir fara yfir stöðuna þegar kemur að COVID-19 á upplýsingafundi almannavarna klukkan 14 í dag.

57 prósent þeirra sem hafa greinst voru í sóttkví við greiningu.
Skjáskot/covid.is