Eitt innanlandssmit af kórónaveirunni greindist hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala í gær en alls voru 315 sýni tekin til greiningar. Sá sem greindist var ekki í sóttkví við greiningu.

Átta smit greindust við landamæraskimun í gær en tæp 2500 sýni voru tekin við landamærin. Beðið er mótefnamælingar úr þeim sýnum. Frá upphafi hafa 157 manns greinst við landamæraskimun.

Nú eru alls 112 í einangrun með virkt smit en 646 manns eru í sóttkví. Aðeins einn er á sjúkrahúsi með COVID-19 en enginn á gjörgæslu.

Ræða næstu skref þegar kemur að landamæraskimun

Ríkisstjórnin hefur boðað til upplýsingafundar klukkan 14:00 í dag en meginefni fundarins eru næstu skref þegar kemur að skimun á landamærum. Kynnt verður hvaða tillögur sóttvarnalæknis stjórnvöld munu fallast á.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, skilaði inn minnisblaði til Svandísar Svavarsóttur, heilbrigðisráðherra, á þriðjudag þar sem hann leggur fram níu útfærslur sem snúa að aðgerðum á landamærunum.