Einn greindist með Covid-19 hér á landi síðastliðinn sólarhring og var sá í sóttkví við greiningu. Um er að ræða fjölgun frá því í gær þegar enginn greindist með veiruna en telst það þó gleðiefni að enginn hafi greinst utan sóttkvíar hér á landi í heila viku.

Alls eru nú 43 í einangrun með virkt smit á landinu. Verulega fækkar í sóttkví milli daga og eru nú aðeins 104 í sóttkví og losnuðu því rúmlega hundrað manns úr sóttkví í gær. 3.125 eru í skimunarsóttkví.

Tveir farþegar greindust með veiruna á landamærunum en reyndust síðar báðir vera með mótefni. Alls voru tekin 2.108 sýni á landamærunum.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, greindi frá því í dag að eins metra regla tæki við tveggja metra reglunni þann 15. júní næstkomandi. Þá munu samkomutakmarkanir miðast við 300 manns.

Stefnt verður að því að allir fullorðnir verði búnir að fá boð í bólusetningu 25. júní næstkomandi og að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt um næstu mánaðamót.