Íbúar á Íslandi voru 381.370 í lok annars ársfjórðungs og er það í fyrsta skipti sem mannfjöldinn fer yfir 380 þúsund. Landsmönnum hafði þá fjölgað um rétt ríflega fjögur þúsund frá lokum fyrsta ársfjórðungs.

Ástæðu fjölgunarinnar má rekja til þess að mun fleiri flytja nú til landsins en frá því, að því er fram kemur í nýjum mannfjöldatölum Hagstofunnar.

Fleiri karlar búa á landinu en konur, tæplega 196 þúsund á móts við ríflega 185 þúsund konur. Hundrað manns skrá sig nú kynsegin eða annað í þjóðskrá.

Flestir aðfluttir íslenskir ríkisborgarar komu frá Danmörku, en Pólland var upprunaland flestra erlendra ríkisborgara. Þaðan fluttust 1.170 til landsins, Úkraína kom næst, en þaðan fluttu 980.

Erlendir ríkisborgarar eru nú 15,6 prósent af heildarmannfjöldanum á Íslandi, eða tæplega 60 þúsund.