Í dag er eitt ár frá því að hoppukastali við Skautahöllina á Akureyri tókst á loft með tugum barna innanborðs með þeim afleiðingum að líf einnar fjölskyldu breyttist til frambúðar.

Fréttablaðið hefur greint frá löngu endurhæfingarferli hinnar sjö ára gömlu Klöru sem slasaðist alvarlega í slysinu og fjölskyldu hennar.

Nú er ljóst að Klara mun þurfa að berjast út ævina við einhverja hreyfihömlun og málerfiðleika.

Á Facebook-síðunni Áfram Klara er greint frá þessu en þar segir jafnframt að Klara hafi staðið sig eins og hetja í endurhæfingu. Hún næði misstórum en jákvæðum framförum á hverjum degi og tækist á við lífið með æðruleysi og gleði að vopni.

Voru í sumarfríi

Klara og fjölskylda hennar var að njóta sumarfrísins á Akureyri í veðurblíðunni í fyrra þegar slysið varð og lenti Klara á gjörgæslu. Hún hefur verið í stífri endurhæfingu síðan sem hefur gengið hægt en með framförum að sögn móður hennar í samtali við Fréttablaðið í júní síðastliðnum.

Vinir og fjölskylda Klöru hafa frá því í vetur tekið þátt í Landvættum til styrktar Klöru og fjölskyldu hennar. Þau eru nú stödd á Akureyri á þessum tímamótum til að taka þátt í þraut númer þrjú í Landvættum, Þorvaldsskokkinu, sem fer fram um helgina.

Áhugasamir geta fylgst með áheita- og styrktarsíðu Klöru á Facebook undir nafninu, Áfram Klara. Þá mun hópurinn sem æfir og tekur þátt í Landvættum sýna frá ferlinu undir hastagginu #áframKlara. Þeir sem vilja geta styrkt Klöru og fjölskyldu hennar í gegnum eftirfarandi reikning:

Kennitala: 081114-2500

Banki: 0123-15-043225

Málið hjá ákærusviði

Lögreglan á Norðurlandi eystra lauk rannsókn á slysinu í byrjun júní síðastliðnum og var málið sent til ákærusviðs.

Eyþór Þorbergsson, aðstoðarsaksóknari og staðgengill lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, sagði í samtali við Fréttablaðið þá að ekki væri ljóst hvort ákæra yrði gefin út í málinu.

Eyþór taldi líklegt að næsta skref yrði að kalla til dómkvaddan matsmann til að skoða hvernig kastalinn hefði verið festur við jörðu. Hann sagði jafnframt að ljóst væri að kastalinn hafi ekki verið nægilega vel festur því hann losnaði.