Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Föstudagur 9. september 2022
22.50 GMT

Þegar Svava Magnúsdóttir gekk út af heimili sínu og fjölskyldu sinnar í Kársnesinu við dagrenningu í byrjun september á síðasta ári óraði hana ekki fyrir því að þangað kæmi hún ekki inn aftur.

Hún var á leið í vikuferð ásamt vinkvennahópnum úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ. Eftir að börnin fóru að koma í heiminn eitt af öðru tóku vinkonurnar fimm upp þann sið að fara saman erlendis annað hvert ár, var þetta í fyrsta sinn sem ferðin var meira en helgarferð. Ætlunin var að njóta góða veðursins sem eyjan hefur upp á að bjóða og það tókst þeim svo sannarlega, fyrstu fimm dagana.


Nýtt heimili fjölskyldunnar


Við hittumst á nýju heimili fjölskyldunnar í Urriðaholti en breyttar aðstæður Svövu kölluðu á nýtt húsnæði.

„Eftir tæplega 19 ár í Kársnesinu hélt ég að það yrði erfitt að flytja en svo fann ég að ég tengi ekki við steinsteypuna. Hér er allt mitt og hér eru þeir,“ segir Svava og á þá við sambýlismann sinn, Björn Sveinbjörnsson, og synina tvo, Daníel Frey og Róbert Aron sem eru 18 og 22 ára.

Svava er menntaður ferðamálafræðingur og starfar hjá Icelandair í viðskiptaþjónustu. „Þar þjónusta ég fyrirtæki varðandi flugmiða fyrir starfsfólk og slíkt.“

Aðspurð hvort ferðalög séu stórt áhugamál hlær Svava og jánkar því. Útivist og fjallgöngur hafa einnig verið plássfrekt áhugamál hin síðari ár.

„Eftir að strákarnir stækkuðu fór ég að hugsa: Hvað langar mig að gera? Árið sem ég varð 35 ára sagði Maja vinkona mín, sem var að æfa með mér í Sporthúsinu, að hún ætlaði á Hvannadalshnjúk áður en hún yrði 35 ára og bauð mér að koma með.“

Svava var mjög virk í fjallgöngum fyrir slysið.
Mynd/Aðsend

Ætlaði aftur á Hvannadalshnjúk


Svava hugsaði sig ekki tvisvar um áður en hún tók tilboðinu og þar með kynntist hún fjallgöngum sem áttu eftir að taka sitt pláss næstu árin.

„Ég hafði varla kynnst fjallgöngum áður en við undirbjuggum okkur allan veturinn og náðum á Hnjúkinn í lok maí 2009 í snarvitlausu veðri þar sem við sáum ekki neitt. Þetta var virkilega langur dagur.

Upp frá þessu hugsaði ég alltaf: Þarna verð ég að fara aftur! En það verður nú ekki úr þessu,“ segir Svava og lítur niður á hreyfingarlausa fótleggina í hjólastólnum.

„Aftur á móti hef ég gengið á Snæfellsjökul, Eyjafjallajökul tvisvar, Eiríksjökul og farið í margar aðrar skemmtilegar fjallgöngur. Ég var í nokkur ár með Ferðafélagi Íslands í fjallaverkefni þar sem gengið er eitt til tvö fjöll á mánuði.

Ég plataði svo Sillu, Sigurbjörgu Jódísi vinkonu mína, með mér í gönguhóp með fjallafélaginu Veseni og vergangi og það var alveg frábær félagsskapur. Við gengum þá alla þriðjudaga og fimmtudaga og einn laugardag í mánuði. Við vorum komnar með ísöxi og brodda og fannst við æðislega vígalegar,“ segir hún og hlær.

„Og á meðan á Covid stóð var ég dugleg að fara út að leika, ég fór í fjallgöngur, hjólaði í vinnuna og fór út að hlaupa,“ segir Svava sem fór fyrir gönguhóp á vinnustað sínum.


„Upp frá þessu hugsaði ég alltaf: Þarna verð ég að fara aftur! En það verður nú ekki úr þessu,“


Svava og Silla í síðustu ferðinni með Vesen og vergangi í Landmannalaugar.
Mynd/Aðsend

Eins og heyra má var Svava mjög virk í hreyfingu og segir gott líkamlegt form líklega hafa hjálpað henni í endurhæfingu.

„Við Silla vorum mikið í þessu tvær saman og hún hefur ekki treyst sér í að halda áfram ein. Hún hefur sagt við mig að hún vilji ekki fara án mín, því þetta var svona okkar.“


Ferðuðust saman annað hvert ár


Vinkvennahópurinn úr fjölbraut fór í fyrstu utanlandsferðina saman árið 2008 og hefur haldið þeim sið að leggja alltaf fyrir mánaðarlega og fara svo saman í ferð annað hvert ár.

„Þessi Tenerife-ferð var í fyrsta sinn sem við ætluðum að vera í heila viku og hafa þetta svolítið grand. Við höfðum alltaf farið í helgarferðir en nú ætluðum við á sólarströnd og njóta okkar, en hún endaði aðeins öðruvísi en hún átti að gera,“ segir hún alvarleg.

Vinkonurnar á Tenerife daginn fyrir slysið, Íris Huld, Sif, Svava, Silla og Guðbjörg.
Mynd/Aðsend

Hópurinn kom til Tenerife á miðvikudegi, fór í göngu á vegum Tenerife ferða á fimmtudeginum frá Santiago del Teide yfir í Masca. „Sú ganga var frábær þó heitt væri.“

Á föstudag slökuðu vinkonurnar á í hótelgarðinum við sundlaugina og fóru svo í aðra ferð á vegum ferðaskrifstofunnar á laugardeginum.


Af hverju get ég ekki andað?


„Á sunnudeginum ákváðum við svo að taka rölt meðfram ströndinni, fórum í fótanudd og fiska-spa, vorum bara í sundfötum og kjólum yfir. Við ákváðum svo að kíkja inn á þennan stað sem stendur við ströndina, við völdum hann því hann heitir Moli eins og hundur Guðbjargar, okkur fannst það bara voða skemmtileg tilviljun.

Vinkvennahópurinn ferðast erlendis annað hvert ár.
Mynd/Aðsend

Okkur var vísað til sætis og ég sat við hliðina á Sif og Silla var á endanum og Guðbjörg og Íris sátu á móti okkur. Við vorum nýbúnar að leggja frá okkur símana eftir að hafa skoðað matseðlana þar, þegar ég skyndilega gat ekki andað.

Allt í einu var ég bara í keng og hugsaði bara með mér: Af hverju get ég ekki andað? Hvað í fjandanum er í gangi?“ segir Svava sem gerði sér illa grein fyrir því hvað hafði gerst en toppur af sex til átta metra háu pálmatré hafði brotnað af og fallið niður þar sem vinkonurnar sátu og gerðu sig tilbúnar til að panta.


„Allt í einu var ég bara í keng og hugsaði bara með mér: Af hverju get ég ekki andað? Hvað í fjandanum er í gangi?“


Pálmatrés toppurinn sem féll ofan á Svövu og vinkonur hennar.
Mynd/Aðsend

„Tréð féll á mig og Sif, blöðin féllu yfir borðið og skrámuðu þær sem sátu móti okkur.

Ég heyrði bara stelpurnar öskra upp yfir sig: „Guð minn góður, Svava!“ og Silla kom að mér, hélt í höndina á mér þegar ég sagði við hana: „Ég finn ekki fyrir fótunum.“ Ég var í sandölum og horfði á fætur mína líflausa og endurtók að ég gæti ekki hreyft þá.

Ég heyrði hana þá garga „She can’t feel her legs!“ Þjónninn hélt svo stólnum til að reyna að halda mér uppi. Silla hefur sagt mér að hún hafi séð þetta augnablik ljóslifandi lengi á eftir þegar hún lokaði augunum: Andlit mitt og hræðsluna.“

Svava lýsir því hvernig hún hafi líklega skollið á borðið enda var hún með áverka í andliti en þegar hún man eftir sér sat hún í keng, gat sig hvergi hreyft og átti mjög erfitt með andardrátt.

„Það voru Íslendingar á veitingastaðnum sem heyrðu í okkur og komu strax yfir, fengu einhvern fítonskraft og drösluðu þessu tré í burtu.“


„Ég heyrði bara stelpurnar öskra upp yfir sig: „Guð minn góður, Svava!“ og Silla kom að mér, hélt í höndina á mér þegar ég sagði við hana: „Ég finn ekki fyrir fótunum.“


Toppurinn féll ofan af trénu sem var sex til átta metra hátt.
Mynd/Aðsend

Kvalirnar voru sturlaðar


Svava man eftir að hafa heyrt í sírenunum nálgast og Írisi vinkonu sína kalla að einhver yrði að hugsa um Sif sem væri orðin grá í framan enda fékk hún líka tréð yfir sig og síðar kom í ljós að hún hafði líka hryggbrotnað og hlotið áverka á öxl.

„Ég man þessar setningar en geri mér enga grein fyrir tímanum sem fyrir mér var heil eilífð. Ég bað Sillu að fara ekki frá mér og lét hana lofa að koma með mér í sjúkrabílinn.“

Lungu Svövu höfðu fallið saman og níu rifbein brotnað vinstra megin auk þess að varanlegur skaði hafði orðið á mænu.

„Kvalirnar voru sturlaðar og ég átti mjög erfitt með andardrátt þegar ég var sett á sjúkrabörurnar. Silla sagði mér svo eftir á að ekki hefði átt að leyfa henni að fara með mér vegna Covid-ráðstafana. En eitthvað hef ég tekið tryllingskastið því þeir komu svo og náðu í hana. Ég man ekkert eftir þessu.“

Silla fór með Svövu í sjúkrabílinn og Sif ein í annan sjúkrabíl á meðan Guðbjörg og Íris tóku leigubíl í snarhasti sem leið lá á sjúkrahúsið.

Verið að undirbúa flutning Svövu á sjúkrahús en hún áttaði sig strax á því að hún finndi ekki fyrir fótunum.
Mynd/Aðsend

„Svo man ég bara eftir að við vorum þarna allar og þær fengu fyrir náð og miskunn að kveðja okkur áður en til stóð að gera aðgerð á okkur sem var svo ekki gerð fyrr en daginn eftir.

Ég gerði mér þó ekki grein fyrir alvarleikanum á þessum tímapunkti. Ég var látin skrifa undir að ég væri með allar tryggingar, öðruvísi færi ég ekki í aðgerð.“

Hálftíma heimsóknartími


Stelpurnar létu aðstandendur vita af slysinu en Svava, Sif og Guðbjörg voru símalausar enda hafði símum þeirra verið rænt á slysstað á meðan á öllum ósköpunum stóð.

„Bjössi, maðurinn minn, fór strax að leita leiða til að komast út til mín sem var ekki auðvelt á þessum Covid-tímum. Hann komst ekki út fyrr en á þriðjudeginum og heimsóknartími sjúkrahússins var í 30 mínútur, frá klukkan hálf tólf til tólf.

Stelpurnar voru þó búnar að biðja um að þeir fengju undanþágu til að koma beint af flugvellinum seinnipartinn. Það var dásamlegt að fá hann,“ segir Svava.

„Þetta var bara ógeðslega erfitt.

Við vissum ekkert hversu lengi okkur yrði haldið úti og á tímabili voru foreldrar mínir að spá í hvort þau ættu að koma líka út.

Við áttuðum okkur svo á því að á meðan við værum á gjörgæslu væri aðeins leyfilegt að heimsækja okkur í hálftíma á dag. En ef við yrðum færðar á almenna deild væru engar heimsóknir leyfðar sem hljómar mjög öfugt miðað við allt.


„Bjössi, maðurinn minn, fór strax að leita leiða til að komast út til mín sem var ekki auðvelt á þessum Covid-tímum."


Svava lá í átta daga á gjörgæsludeild á Tenerife og segir heyrnartólin hafa bjargað miklu enda ekkert við að vera og stöðug píp í tækjunum.
Mynd/Aðsend

Svava segist aldrei fyrr hafa legið á sjúkrahúsi og því ekki endilega vitað hvernig slík dvöl ætti að ganga fyrir sig.

„Ég vissi því ekki að það væri æskilegt að setja mig í stuðningssokka upp á bjúgsöfnun og hreyfa fætur en ekkert slíkt var gert þessa átta daga sem ég lá á bakinu og fékk aðeins að rísa örlítið upp þegar ég var mötuð og drakk kaffi með röri.“

Tungumálaörðugleikar hafi gert henni erfitt fyrir en túlkur kom aðeins hálftíma á dag, eins hafi ekkert verið við að vera á gjörgæslunni þar sem hún hafi aðeins getað starað á veggina og hlustað á pípið í tækjunum í átta daga.

„Ég fékk þó síma þegar Bjössi kom til að stytta mér stundir og gat verið í sambandi við fólkið mitt, það var ómetanlegt.

Sif var færð við hlið mér eftir aðgerðirnar og við móktum bara þarna í einhverju lyfjamóki og langaði að fara heim. Við lifðum fyrir þennan hálftíma á dag sem við fengum með mönnunum okkar.“


„Við lifðum fyrir þennan hálftíma á dag sem við fengum með mönnunum okkar.“


Sjúkraflugið heim til Íslands


Slysið varð þann 12. september 2021 og átta dögum síðar, eða þann 20. september, voru vinkonurnar fluttar til Íslands með sjúkraflugi, hvor á sinn spítalann.

„Pínulítil vélin kom frá Þýskalandi með tveimur læknum og ég man að ég hugsaði hvernig í veröldinni þeir myndu koma okkur þarna inn á börum. Flugið var eins gott og það gat orðið og ég fékk verkjastillandi lyf um leið og vart varð við ókyrrð,“ segir Svava en lýsir skítaveðri þegar lent var á Íslandi.

„Ég skalf eins og hrísla, bæði af kulda og spennufalli yfir að vera komin heim.“

Svava var færð á Landspítala í Fossvogi og enn og aftur settu Covid-reglur strik í reikninginn því við tók fimm daga einangrun.

„Fjölskyldan fékk reyndar undanþágu til að koma daginn eftir að ég kom, en íklædd hlífðarklæðnaði.“
Sambýlismaður Svövu var enn úti á Tenerife og komst ekki heim fyrr en tveimur dögum síðar en foreldrar hennar og synir höfðu þá heimsótt hana.

„Það var best í heimi að fá þau en líka ógeðslega erfitt. Það var einnig erfitt fyrir þau að sjá mig svona slasaða,“ segir Svava og flettir upp mynd af sér frá spítalanum þar sem áverkar í andliti eru áberandi.


„Það var best í heimi að fá þau en líka ógeðslega erfitt. Það var einnig erfitt fyrir þau að sjá mig svona slasaða."


Svava lýsir því að það hafi verið mikið öryggi að komast á Landspítala þangað sem hún var flutt með sjúkraflugi.
Mynd/Aðsend

Öryggi að koma á Landspítalann


Hún segir mikinn feginleika hafa fylgt því að komast á spítala hér á landi, þar sem hún skildi starfsfólk þó að skýringar lækna á stöðunni hafi stundið vafist fyrir henni, jafnvel á móðurmálinu.

„Mér fannst ég örugg. Það þurfti að vinda ofan af ýmsu og eftir að hafa legið í átta daga án þess að fætur mínir væru hreyfðir var mér tilkynnt að þau ætluðu að láta mig í stuðningssokka, hreyfa fætur og hjálpa mér að setjast upp.

Það var mjög skrítin tilfinning og mér leið eins og ég væri í lausu lofti, var völt og svimaði.“

Svava fékk tveggja kílóa lóð sem nota átti í styrktaræfingar og eftir að vera vakin klukkan sex á morgnana fyrir blóðprufur og aðrar mælingar nýtti hún tímann fram að morgunmat klukkan níu alla daga í að lyfta lóðum.

Á spítalanum á Tenerife var Svövu sagt að það gæti tekið átta til tólf vikur fyrir taugasjokkið að jafna sig og lítið væri hægt að segja til um framvinduna fyrr.

„Ég fékk svipaðar skýringar hér heima. Vitað var að mænan væri illa sködduð og brot í hryggjarlið en í aðgerðinni úti var ég spengd á hrygg.

Það var alltaf talað um átta til tólf vikur en ég var þó farin að átta mig á því að þetta væri líklega verra en þeir þyrðu að segja við mig. Þeir voru eflaust að passa að taka ekki frá mér vonina. Ég hugsaði því með mér: Ég ætla að undirbúa mig fyrir hið versta og vona það besta.“


„Það var alltaf talað um átta til tólf vikur en ég var þó farin að átta mig á því að þetta væri líklega verra en þeir þyrðu að segja við mig.


Á Landspítalanum nýtti Svava alla morgna til að lyfta lóðum og styrkja þannig handleggsvöðva.
Mynd/Aðsend

Þú ert ekki fædd í gær


Þann 8. október var Svava flutt í endurhæfingu á Grensás þar sem hún var næstu fjóra mánuði og svo í kjölfarið á dagdeild í aðra fjóra mánuði.

„Það var eiginlega ekki fyrr en eftir nokkrar vikur í endurhæfingu á Grensás að Páll E. Ingvarsson læknir sagði við mig: „Þú ert ekki fædd í gær og ert líklega búin að átta þig á stöðunni.“

Hann sagði jafnframt að ef eitthvað gengi til baka væri það plús en við myndum vinna út frá alskaða.

Í lok október komu til mín tveir fulltrúar SEM samtakanna, Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra, þau Arnar Helgi Lárusson, formaður samtakanna, og Aðalbjörg Guðgeirsdóttir.

Það var rosalega gott að hitta þau enda svakalega jákvæð og peppandi. Hann Arnar Helgi er auðvitað ótrúlegur og sagði við mig: „Þú skalt bara aldrei gleyma því að þú getur gert allt! Þú getur kannski ekki labbað – en það þarf ekkert að stoppa þig!“

Ég hugsaði með mér: Þetta er bara svolítið rétt hjá honum,“ segir Svava sem viðurkennir að hafa sveiflast upp og niður tilfinningaskalann og í raun farið í gegnum ákveðið sorgarferli.


„Það var eiginlega ekki fyrr en eftir nokkrar vikur í endurhæfingu á Grensás að Páll E. Ingvarsson læknir sagði við mig: „Þú ert ekki fædd í gær og ert líklega búin að átta þig á stöðunni.“


Syrgði að geta ekki gengið á fjöll


„Ef ég skoðaði myndir úr fjallgöngum syrgði ég það að geta til dæmis aldrei skottast upp á fjöll aftur. Ég hef alltaf verið virk og er ekkert alltaf að bíða eftir að einhver nenni að koma með mér. Ég fer þá bara ein. Ég er svolítið með strax-veikina, ef mig langaði að fara út að leika fór ég bara út að leika en nú er ég allt í einu ekki með þau tæki og tól sem þarf til þess.


„Ef ég skoðaði myndir úr fjallgöngum syrgði ég það að geta til dæmis aldrei skottast upp á fjöll aftur."


Ég ætla að finna mér eitthvað annað að gera. Ég er til að mynda búin að fara tvisvar með Arnari að hjóla á þar til gerðum hjólum og það var algjörlega geggjað,“ segir Svava og bætir við að mikil frelsistilfinning hafi gagntekið hana.

„Ég fór með honum og Örnu Sigríði í fyrra skiptið og ég hugsaði með mér þvílíkar fyrirmyndir og frábær félagsskapur þau væru!“ Þess má geta að téð Arna Sigríður og Arnar Helgi eru bæði öflugt handahjólreiðafólk eftir mænuskaða.

Svava hefur prófað handahjólreiðar og segir það hafa verið algjörlega geggjað.
Mynd/Aðsend

„Það eru margir í verri stöðu en ég. Það var einhver sem vakti yfir mér og vil ég trúa því að það hafi verið amma mín og alnafna og geri enn. Ég var ekki feig. Ég er með hausinn og hann er alveg enn þá í lagi og ég er með hendurnar mínar.

Skaðinn minn er frá mitti og niður úr. Þetta hefði alveg getað verið verra. Ég hefði alveg getað komið heim í duftkeri – þessi lína er svo ofboðslega fín.


„Skaðinn minn er frá mitti og niður úr. Þetta hefði alveg getað verið verra. Ég hefði alveg getað komið heim í duftkeri – þessi lína er svo ofboðslega fín.


Fékk annað tækifæri


Við verðum að þakka fyrir það sem við höfum. Ég fékk annað tækifæri – ég virkilega horfi á það þannig.

Það var ómetanlegt að fá skilaboð frá fjölskyldu, vinum og ótrúlegasta fólki sem ég hafði ekki heyrt frá í mörg ár og það stytti mér sannarlega stundirnar á spítalanum. Bara það að fólk væri að hugsa til mín, það hjálpaði ótrúlega mikið. Þegar ég svo mátti loks fara að hitta fólk sagði það oft: „Ég veit ekki hvað ég á að segja.“ Og ég svaraði: „Gefðu mér bara knús.““

Svava segir einangrunina vegna Covid ekki hafa reynt minna á.

„Ég er mikil félagsvera og finnst gott að vera í kringum fólkið mitt. Ég vil geta knúsað það og hafa einhvern hjá mér.“

Svava lætur vel af langri endurhæfingunni og dvölinni á Grensásdeild.

„Starfsfólk Grensás er englar í mannsmynd og það var svo vel hugsað um mig að mér fannst svolítið erfitt að útskrifast endanlega og fara úr þeim þægindaramma sem var þar,“ segir hún og hlær.

Brúðkaup í næsta mánuði


Svava fór aldrei aftur inn á heimili sitt, heimilið sem hafði hýst fjölskylduna í tæplega 19 ár og þar sem þeim hafði alltaf liðið vel.

„Læknirinn á Grensás hvatti okkur til að gera ráðstafanir enda liði tíminn hratt. Við settum íbúðina okkar sem var á þriðju hæð á sölu og hún seldist strax.“

Svava og Bjössi skoðuðu svo framtíðarheimili á netinu enda var hún ekki fær um að fara í skoðunarferðir vegna Covid-takmarkana. Þegar heimilið sem þau nú búa á kom upp fékk hún þó leyfi til að skoða.

„Við fengum sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa til að koma með okkur til að taka íbúðina út og skoða hvað þurfti að gera.“

Svava og Bjössi eru alls ekki hætt að ferðast og hafa farið í þrjár utanlandsferðir á þessu ári sem liðið er frá slysinu.
Mynd/Aðsend

Þau þurftu að ráðast í einhverjar framkvæmdir, aðallega á baðherbergi, svo Svava gæti athafnað sig þar.

Á meðan Svava safnaði kröftum og lærði á nýtt líf þurfti Bjössi ekki aðeins að sjá um heimilið heldur selja það, pakka búslóð og flytja.

„Hann er búinn að standa sig eins og hetja, þessi elska,“ segir Svava um sambýlismann sinn til tæpra þrjátíu ára sem í október verður eiginmaður hennar.

„Ég bað hans á aðfangadagskvöld heima hjá foreldrum mínum fyrir framan þau og synina. Slysið ýtti við manni og maður hugsar: Hvað ef? og enginn veit hvað átt hefur fyrr en næstum því misst hefur,“ segir Svava sem pakkað hafði inn hringum í gjöf til Bjössa.

„Þetta kom honum algjörlega á óvart,“ segir Svava en ætlunin er að fagna með vinum og nánustu fjölskyldu í næsta mánuði um leið og sambandið verður innsiglað.

„Við ætluðum alltaf að gifta okkur en svo leið tíminn. Nú er ég bara hætt að bíða eftir rétta tímanum og einhverju svoleiðis bla. Rétti tíminn er núna! Það á ekki alltaf að bíða eftir að passa í rétta andskotans kjólinn. Keyptu þér bara kjól sem passar!

Við erum í því að lifa og njóta lífsins og búin að fara í þrjár utanlandsferðir á árinu og tvær eftir,“ segir Svava sem viðurkennir að hafa kviðið fyrir fyrstu ferðinni, hvernig myndi ganga að ferðast í hjólastól og með öllu sem því fylgir, en hún hafi þó gengið vel.


„Við ætluðum alltaf að gifta okkur en svo leið tíminn. Nú er ég bara hætt að bíða eftir rétta tímanum og einhverju svoleiðis bla. Rétti tíminn er núna!"


Málsókn gegn sýslunni


„Ég held að þetta hafi jafnvel styrkt okkar samband. Ég vissi að hann væri frábær – en ekki að hann væri svona frábær. Hann hefur algjörlega séð um öll tryggingamál og allt það,“ segir Svava en þau vinna nú í málsókn gegn sýslunni Arona vegna slyssins enda tréð á ábyrgð hennar.

„Það er bara í ferli og á eftir að taka einhvern tíma.“

Svava fór aftur til vinnu 1. apríl í 20 prósent starfshlutfall.

„Samstarfsfólk mitt hjá Icelandair hefur verið algjörlega frábært. Yfirmaður minn var búinn að segja að ég kæmi bara þegar ég vildi og ef ég vildi. Það var engin pressa. Hún kom til mín upp á Grensás með fulla tösku af gjöfum og baráttukveðjum frá fyrirtækinu,“ segir Svava en gerðar voru viðeigandi ráðstafanir á skrifstofuhúsnæðinu svo Svövu liði vel og hún kæmist auðveldlega um.


Svava keypti annan bíl í haust sem var útbúinn í vor með handstýribúnaði og er alsæl með að komast sjálf leiðar sinnar.

„Mér hefur aldrei liðið eins fatlaðri og þegar ferðaþjónusta fatlaðra sótti mig á tilskildum tíma, mér var rúllað inn í lyftu, lyft inn í bíl og fest niður fann ég að slíkur ferðamáti hentaði mér ekki,“ segir Svava.

„Ég er náttúrlega í sjálfstæðisbaráttu eins og tveggja ára krakki,“ bætir hún við og hlær.


„Ég er náttúrlega í sjálfstæðisbaráttu eins og tveggja ára krakki."


Svava segist ekki ætla að láta hjólastólinn skilgreina sig, hún sé enn sama Svava.
Mynd/Aðsend

Ég er enn þá sama Svava


Það dylst ekki í spjalli við Svövu að það er karakter hennar sem hefur fleytt henni svona langt á svo stuttum tíma og segist hún gera allt sjálf.

„Ég fékk fyrst heimahjúkrun en setti mér fljótt markmið um að geta séð um mig sjálf og þurfa þannig ekki að fá hjúkkur annan hvern dag á tilteknum tíma. Ég ætla ekkert að láta þennan hjólastól skilgreina mig. Ég er enn þá sama Svava og þeir sem þekkja mig vita það.“

Svava nýtti sér sálfræðing á Grens­ás við að vinna úr áfallinu og líka höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð hjá kærum vini, sem stendur enn yfir. Hún segist ekki finna fyrir biturð yfir slysinu eða afleiðingum þess.

„Þetta voru fáránlegar aðstæður sem við hefðum engan veginn getað ráðið við. Það er ekki eins og ég hafi verið í paragliding,“ segir hún með áherslu.

„Það var smá vindur en það var fólk úti um allt og okkur var vísað til borðs þarna. Ef ég hefði verið lengur á klósettinu hefði ég kannski komið upp og komið að stelpunum undir tré. Hefði það verið eitthvað betra? Ég er ekkert viss um það.“


„Þetta voru fáránlegar aðstæður sem við hefðum engan veginn getað ráðið við. Það er ekki eins og ég hafi verið í paragliding."


Skilar engu að hugsa „hvað ef?“


Hún viðurkennir að vinkvennahópurinn hafi í heild sinni ekki talað mikið um atburðinn sem breytti lífi þeirra fyrir ári síðan.

„Það er erfitt fyrir okkur að tala um þetta og núna 12. september er ár frá slysinu og ég er búin að bjóða þeim að koma til mín þennan dag í knús og kósí. Upplifun okkar allra er einstök. Þær sem ekki slösuðust alvarlega eru líka lemstraðar á sálinni, enda held ég að það sé mjög erfitt að horfa upp á vinkonur sínar svona mikið slasaðar. Ég hefði ekkert endilega viljað vera í þeirra sporum heldur.


„Þær sem ekki slösuðust alvarlega eru líka lemstraðar á sálinni, enda held ég að það sé mjög erfitt að horfa upp á vinkonur sínar svona mikið slasaðar. Ég hefði ekkert endilega viljað vera í þeirra sporum heldur."


Svava lætur engan bilbug á sér finna og minnti vinkonurnar á það á dögunum að leggja yrði drög að næstu utanlandsferð.
Mynd/Aðsend

Við vorum allar saman. Af hverju raðaðist þetta svona niður en ekki öðruvísi? Það má ekkert hugsa svona. Það er svo erfitt að hugsa „hvað ef?“ og það skilar mér engu nema depurð þannig að við verðum bara að líta á að þetta muni styrkja okkar vináttu og við förum í gegnum þetta saman. Það er bara þannig.“

Eins og fyrr segir er komið ár frá slysinu og ár frá síðustu ferð hópsins. Það hlýtur að þýða að tími sé kominn á næsta ferðalag.

„Já, við Guðbjörg vorum að ræða það um daginn að það þyrfti að fara að leggja drög að næstu ferð. Ég sagði að það væri ekki ráð nema í tíma væri tekið með svona vesenispésa eins og mig enda krefjast ferðalög núna meiri skipulagningar. Það verður bara dásamleg ferð,“ segir Svava sem lætur engan bilbug á sér finna – enda skilgreinir hjólastóllinn hana ekki – hún er enn sama Svava, bara með nýjar áskoranir.

Athugasemdir