Þeir gallar sem slökkviliðsmenn nota í eldsvoðum og reykköfun verða gífurlega mengaði eiturefnum sem slökkviliðsmennirnir fá inní líkamann í gegnum húðina. Eitrið situr eftir í göllunum þrátt fyrir hreinsun.

Bjarni Ingimarsson, varaformaður Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS), greindi frá þessu í liðini í viku í þættinum 21 á Hringbraut.

Bjarni sem hefur unnið við slökkvistörf í tvo áratugi fer fyrir Krabbameinsnefnd LSS.

Taka eiturefnin inn í líkamann

Um er að ræða fimmtán eiturtegundir sem slökkviliðsmenn fá í sig. Alþjóðleg flokkun sýnir að mörg þeirra eru í flokki þeirra sem staðfest eru að valda krabbameini. Þetta taka slökkviliðsmenn inn í líkamann í gegnum húðina, aðallega í reykköfun. Annar flokkur sumra efnanna sem eru í reyknum eru talinn mjög líklega að valdi krabbameini.

Þegar plastið brennur

„Þetta eru efni sem myndast þegar plast brennur og plastið hefur aukist undanfarin ár í húsbúnaði, áður voru þetta meira náttúruleg efni, tré og hálmur, bómull og ull,“ útskýrir Bjarni og gallarnir hlaðast eitri sem næst ekki úr þeim við þvott. Tilraun var gerð sem sýndi að efnin eru viðvarandi í flíkunum.

„Það er fyrirtæki í Belgíu sem hefur verið að rannsaka þetta. Gallarnir eru teknir og þrifnir í vatnsþvottavél og svo eru efnin í þeim rannsökuð. Í ljós kemur að talsvert er eftir af eiturefnum eftir þvottinn. Flest öll efnin setjast í opin við gallana, við hendur og fætur og í mittinu. En þegar búið er að þvo gallan svona tvisvar til þrisvar sinnum þá er búið að dreifa efninu um hann allan,“ lýsir Bjarni.

Bjarni bendir á eina rannsókn sem sýndi hve mikið eitur fer í líkamann þegar einhver klæðist galla sem búið er að þvo. „Það var gerð var rannsókn á þessu. Það var tekinn einn svona þveginn galli sem átti að vera átti að vera hreinn og maður látinn vera honum í tvo til þrjá tíma, bara inni á slökkviliðsstöðinni. Magn eiturefna í líkamanum jókst um 27 prósent hjá þessum manni.“

Sótt er í rannsóknir frá ólíkum löndum eins og Bandaríkjunum, Kanada, frá Skandinavía, Kóreu og víðar.

Án þess að svitna myndum við stikna

„Það er ljóst af rannsóknum að það eru öll þessi efni sem eru í bruna og við erum að taka þetta inn í gegnum húðina. Það er allt vitað Fyrir hverja gráðu sem húðin hitnar þá eykst upptaka eiturefna um 200 prósent. Við eigum erfitt með að verja okkur því við þurfum að svitna, við getum ekki bara verið í kafaragalla og farið inn, þá myndum við bara stikna,“ segir Bjarni.

Bjarni Ingimarsson, varaformaður Landssambands slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna og formaður krabbameins nefndarinnar
Mynd/Hringbraut

Tvisvar sinnum líklegri að fá krabbamein

Landssambandið hefur sent umsögn við frumvarp um breytingu á lögum um slysatryggingar og almannatrygginga. Þar vilja þeir að viðukennt verði í lögum að krabbamein sem atvinnusjúkdómur slökkviliðsmanna. Sýnt hefur verið víða erlendis að þeir eru allt að tvisvar sinnum líklegri til að fá ýmsar tegundir krabbameina, aðallega eistnakrabbamein en svo einnig heilakrabbamein, mergæxli, hvítblæði, sortuæxli, ristilkrabbamein, húðkrabbamein og blöðruhálskirtilskrabbamein. Má þá ætla að konur í slökkviliðsstarfi séu mun útsettari fyrir brjóstakrabbameini en konur í öðruvísi störfum.

NASA leiðin skoðuð

„Eina leiðin til að afmenga gallana er að nota CO2 í vökvaformi sem er kerfi þróað af NASA og notað til að þrífa geimfaraföt. Þannig þvottakerfi hefur verið búið til í Belgíu,“ segir Bjarni en það sé mjög dýrt, það kosti 50 til 60 milljónir að setja upp slíka verksmiðju en til þess séum við allt of lítil eining hér á landi. Uninð er að því í staðinn að geta sent galla út til að hreinsa almennilega fyrir íslenska slökkviliðið en enn sem komið er, er ekkert í hendi.