Sigríður Anna Garðarsdóttir, íbúi við Heiðargerði í Reykjavík, segist ekki skilja hvaða mannvonska liggi að baki því að eitra fyrir köttum en hún þurfti í dag að aflífa Snældu, fimm ára læðuna sína, í kjölfar þess að eitrað var fyrir henni. Líklega með frostlegi.

„Ég skil ekki að fólk sé svona illa innrætt,“ segir Sigríður Anna í samtali við Fréttablaðið.

Sigríður Anna varaði við þessu í hverfisgrúppu fyrir hverfi 108 í dag en er ekki sú fyrsta til að vara við þessu í hópnum. Fyrr í vikunni sagði Atli Sævarsson, sem einnig býr við Heiðargerði, frá því að eitrað hefði verið fyrir kettinum hans.

„Við fórum með hana til dýralæknis í gær því hún var eitthvað slöpp,“ segir Sigríður Anna sem segir að hún hafi við það haft færsluna hans Atla í huga.

„Mig grunaði þetta og svo í morgun þegar við fengum út úr blóðprufum var augljóst að það var búið að eitra fyrir henni. Dýralæknirinn sagði það alveg augljóst og að þetta hefði verið viljandi. Þetta er ekki eitthvað sem hún hefði óvart étið einhvers staðar, magnið var svo mikið,“ segir Sigríður Anna.

Sveinborg Hafliðadóttir, kona Atla, segir að það hafi verið svipað þegar kötturinn þeirra, Kíví, veiktist. Hún hafi orðið slöpp og þau farið með hana til dýralæknis. Teknar voru blóðprufur og augljóst á þeim að eitrað hafði verið fyrir henni. Hún segist vonast til þess að aðilinn sem geri þetta hætti sem fyrst, en þegar kettir innbyrða frostlög er lítill sem enginn tími til að bjarga þeim.

Að sögn Sigríður verður farið með Snældu á rannsóknarstöðina Keldur þar sem hún verður krufin og þá verður hægt að sjá nánar hvað það var sem henni var eitrað fyrir með. Eftir það verður málið tilkynnt til lögreglunnar.

„Það er gott að vekja athygli á þessu og þá vonandi hættir þessi manneskja sem er að þessu. Svo er flott að þetta fari til lögreglunnar,“ segir Sigríður Dögg að lokum.

Skjáskot/Facebook