Grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir hundi í Hveragerði og þurfti að lóga honum í vikunni. Dýralæknar sem skoðuðu hundinn þóttu einkennin grunsamleg og ákváðu að senda nýrun til rannsóknar. Kom þá í ljós að um væri að ræða frostlögs eitrun.

Börnin fengu einn dag til að kveðja

Rakel Ósk Magnúsdóttir, íbúi í Hveragerði, segir að hundurinn hennar Kózý hafi veikst í síðustu viku og hafi fljótlega komið í ljós að ekki væri allt með felldu. Hún fór með Kózý til dýralæknis og var niðurstaða skoðunarinnar að það væri vandamál með nýrun. Kózý fór í kjölfarið í meðferð hjá dýraspítalanum.

„Við bíðum og vonum að við þurfum ekki að segja börnum okkar, sem eru 4 og 6 ára, að þau séu að missa hundinn sem hefur alist upp með þeim,“ segir Rakel Ósk.

Á þriðja degi meðferðarinnar var ákveðið að lóga henni til að koma í veg fyrir frekari þjáningar. Börnin hennar fengu að eiga einn dag til að kveðja hana.

„Ég get ekki lýst sorginni hjá börnunum og þá sérstaklega dóttur okkar þegar við sögðum henni að þau þyrftu að kveðja vinkonu sína í síðasta sinn.“

Einnig eitrað fyrir köttum

Rakel segir að þetta sé fjórða árið í röð þar sem eitrað er fyrir gæludýrum með frostlegi í umræddu hverfi í Hveragerði. Einnig hafi verið eitrað fyrir kettinum þeirra í fyrra.

„Við erum eiginlega bara orðin dofin vegna þessara mála í gegnum árin og við fórum í árangurslausa baráttu í fyrra vegna kisunnar okkar sem lenti í því sama,“ segir Rakel í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta er greinilega af mannavöldum því það hafa fundist ummerki um það,“ bætir hún við. Tveir aðrir kettir í næsta húsi af einnig orðið veikir. Þá hafi fundist eitraður túnfiskur í smjörva dollu á lóðinni á milli húsanna.

Hún segir bæjarstjórn Hveragerðisbæjar og lögregluna á Suðurlandi hafa takmarkaðan áhuga á því að taka á vandamálinu. Lögreglan hafi tekist skýrslu en ekki hlustað á áhyggjur þeirra út af þessu.

„Við eigum 2 lítil börn sem leika sér daglega í garðinum einungis nokkrum metrum frá staðnum sem þetta fannst,“ segir Rakel.

Rakel vakti athygli á málinu á Facebook grúppunni Hundasamfélagið. Starfsmaður á bæjarskrifstofunni setti sig í samband við Rakel í kjölfarið og sagði henni að hún hefði áframsent færsluna á bæjarstjóra og umhverfisfulltrúa.