Rannveig Einarsdóttir hefur verið ráðin nýr sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar og Eiríkur Björn Björgvinsson hefur verið ráðinn í stöðu sviðsstjóra nýs sameinaðs sviðs menningar, íþrótta- og tómstunda.

Borgarráð samþykkti ráðningarnar á fundi sínum í morgun. Reykjavíkurborg auglýsti lausar stöður tveggja sviðsstjóra í ágúst síðastliðnum og bárust 18 umsóknir um stöðu sviðsstjóra velferðarsviðs, og 56 umsóknir um stöðu sviðsstjóra menningar, íþrótta- og tómstundasviðs. Níu drógu umsóknir til baka. Hæfnisnefndir sem skipaðar voru um hvora stöðu skiluðu af sér tillögur um ráðningar sem lagðar voru fyrir borgarráð.

Fram kemur í tilkynningu að það hafi verið samdóma álit hæfnisnefndar sem fór yfir umsóknir og tók viðtöl við umsækjendur að Rannveig Einarsdóttir uppfyllti best umsækjenda þær kröfur sem gerðar eru til starfs sviðsstjóra og fram komu í auglýsingu um starfið. Það sama gildir um Eirík Björn er kemur fram í tilkynningunni.

Menningar-, íþrótta- og tómstundasvið er nýtt sameiginlegt svið innan stjórnkerfis Reykjavíkurborgar sem er í undirbúningi en borgarráð hefur samþykkt að sameina menningar- og ferðamálasvið og íþrótta- og tómstundasvið í eitt svið. Fyrirhugað er að nýtt sameiginlegt svið beri ábyrgð á skipulagi, rekstri og þjónustu menningarstofnana, íþróttamannvirkja, hátíða og margvíslegum stuðningi og samstarfi við menningar-, íþrótta- og tómstundalífið.

Á nýju sameinuðu sviði verða starfsmenn tæplega 850 talsins.

Hlutverk sviðsstjóra menningar-, íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar er dagleg yfirstjórn á auk þess sem hann ber ábyrgð á rekstri, þjónustu og stjórnsýslu sviðsins.