Hæfisnefnd hefur metið Eirík Jónsson, prófessor við lögfræðideild Háskóla Íslands, hæfastan af þeim sem sóttu um embætti dómara við Landsrétt. Frá þessu greinir Kjarninn og hefur eftir heimildarmönnum sem ekki eru nefndir á nafn.

Til stendur að ráða í stöðu eins dómara við réttinn en Vilhjálmur H. Vilhjálmsson sagði starfi sínu lausu í vor og greindi frá að hann ætlaði að setjast í helgan stein.

Átta sóttu um stöðuna, þeirra á meðal þau Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir, sitjandi dómarar við Landsrétt, sem skipuð voru að tillögu Sigríðar Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra.

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) komst í mars að þeirri niðurstöðu að þeir fjórir dómarar sem Sigríður lagði til að yrðu skipaðir, þvert á mat hæfisnefndar, hefðu ekki verið skipaðir með lögmætum hætti. Sagði Sigríður af sér í kjölfarið.

Frá niðurstöðu MDE hafa dómararnir fjórir ekki dæmt í neinum málum. Auk Eiríks sóttu Ástráður Haraldsson og Jón Höskuldsson um en allir þrír hafa stefnt íslenska ríkinu og lagt það vegna ólögmætrar málsmeðferðar í Landsréttarmálinu.

Þá sóttu þeir Friðrik Ólafsson, Guðmundur Sigurðsson og Jónas Jóhannsson um. Samkvæmt heimildum Kjarnans drógu þau Friðrik og Ragnheiður umsóknir sínar til baka.