Eiríkur Björn Björgvinsson, sviðsstjóri og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri og á Fljótsdalshéraði, leiðir lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi í komandi þingkosningum. Sigríður Ólafsdóttir, mannauðsráðgjafi og markþjálfi, skipar 2. sæti á listanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Viðreisn.
„Eiríkur, sem er menntaður íþróttafræðingur, hefur sterk tengsl við kjördæmið. Hann var íþrótta- og tómstundafulltrúi á Egilsstöðum frá 1994 til 1996 og tók þá við starfi deildarstjóra íþrótta- og tómstundadeildar Akureyrarbæjar. Árið 2002 var hann ráðinn bæjarstjóri sveitarfélagsins Austur-Héraðs. Tveimur árum síðar var hann ráðinn bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs sem varð til við sameiningu sveitarfélaga á Austurland,“ segir í tilkynningu Viðreisnar.
Aðspurður hvers vegna hann býður sig fram fyrir Viðreisn segir hann hugmyndafræði og grunnstefnu flokksins falla vel að hans gildum.
„Það er frjálslyndi og jafnrétti, réttlátt samfélag, efnahagslegt jafnvægi og alþjóðleg samvinna.“
„Sigríður, sem alltaf er kölluð Sigga, hefur búið á Akureyri í aldarfjórðung. Hún er menntuð í uppeldis- og menntunarfræði, stjórnun og með PCC-vottun sem markþjálfi. Sigga starfaði í tæp tuttugu ár sem ráðgjafi og stjórnandi hjá Gallup/Capacent en stofnaði árið 2017 eigið ráðgjafafyrirtæki á Akureyri, Mögnum. Þar sinnir hún meðal annars markþjálfun, fræðslu og mannauðsráðgjöf,“ segir í tilkynningu Viðreisnar.
Sigga kveðst hafa gengið til liðs við Viðreisn meðal annars vegna þess að flokkurinn sé lausnamiðaður og óhræddur við að hugsa hlutina upp á nýtt, líkt og hún.
„Í störfum mínum undanfarin ár hef ég unnið með fólki og skipulagsheildum sem hafa það að markmiði að læra og ná árangri. Mig langar að færa það yfir í víðara samhengi, yfir á allt samfélagið. Viðreisn vill ná árangri og að við sem samfélag eflumst og lærum hvort af öðru. Þess vegna er ég í framboði fyrir Viðreisn.“