„Ég ætla að leyfa mér að segja að mér finnst bara ekkert við hæfi að gagnrýna gleði mína,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar á Facebook í kvöld. Hótelþernur fara á morgun í verkfall. Sólveig Anna hefur verið gagnrýnd fyrir að segjast vera glöð og hlakka til verkfallsins á morgun.

Hún segir þær láglaunakonur sem hún hafi rætt við að undanförnu vera mjög glaðar. Þær hafi verið glaðar yfir því að fá tækifæri til að greiða atvkæði um verkfall og leggja niður störf. Hún hafi unnið í tíu ár sem láglaunakonu og viti nákvæmlega hvernig það er að fá ömurleg laun fyrir mikla og erfiða vinnu. „og ég veit að ég hefði orðið glöð yfir því að fá tækifæri til að leggja niður störf til að sýna öllum sem notuðu vinnuaflið mitt til að láta hlutina ganga upp að hlutirnir myndu ekki ganga upp ef að ég legði niður störf. “

Sólveig Anna segist líka glöð yfir því að raddir láglaunakvenna fái loks að heyrast í íslensku samfélagi. „Þrátt fyrir að Ísland mælist hæst á listum um kynja-jafnrétti er staðreyndin sú að láglaunakonan hefur ekki fengið neitt pláss eða nein völd. Að okkur hafi tekist að troða okkur í sviðsljósið, að við skulum allt í einu vera orðnar "hættulegar" er sögulegt; eignalausar, valdalausar, peningalausar konur eru allt í einu orðnar afl í íslensku samfélagi, afl sem mögulega þarf að taka tillit til og hlusta á! Er ekki við hæfi að gleðjast yfir því?“

Hún segist skilja að „mennirnir með mörgu milljónirnar“ skilji ekki tilfinningar þeirra. „Þeir vita ekki hvernig það er að fá aldrei nóg útborgað þrátt fyrir að hafa unnið heilan mánuð, að fá aldrei nóg útborgað mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, frá unga aldri fram á gamals aldur. Þeir vita ekkert hvernig tilfinningar vakna við það.“