Loftslagsbreytingar hafa sífellt meiri áhrif, bæði á umhverfi okkar og huga. Fögur loforð um umhverfisvernd og græna framtíð heyrast í heimi stjórnmála á meðal áhyggjur almennings um afleiðingar loftslagsbreytinga fara sívaxandi. Í könnun sem Gallup gerði í síðasta mánuði kom fram að meirihluti landsmanna hefur sívaxandi áhyggjur af loftslagsbreytingum. 

Margir kannast við þetta nagandi samviskubit sem bítur þegar kemur að afleiðingum loftslagsbreytinga. Orðið umhverfiskvíði nær ágætlega yfir samviskubitið, sem mætir til leiks þegar maður hugsar um sitt eigið kolefnisfótspor á móður jörð. 

Loftslagsbreytingar og aðgerðir gegn þeim eru Sólu Þorsteinsdóttur, menningarfræðing og framleiðanda hjá hljóðbókarveitunni Storytel, afar hugleiknar. Hún skrifaði til að mynda meistararitgerð sína um sinnuleysi Vesturlandabúa gagnvart loftslagsbreytingum og hefur fjallað um málið í veftímaritinu Flóru. Sóla telur að hver sem er geti upplifað þennan svokallaða umhverfiskvíða og segir mikilvægt að leyfa því ekki að taka yfir, heldur nýta það til þess að knýja fram breytingar. 

Sjá einnig: Meirihluti Íslendinga óttast afleiðingar loftslagsbreytinga

Svo geigvænlegur vandi að fólki fallast hendur 

Sóla sest niður með blaðamanni og ræðir þennan svokallaða umhverfiskvíða og afhverju það er mikilvægt að leyfa honum ekki að ná tökum á sér. 

Aðspurð segir hún alla geta fundið fyrir kvíðanum en innt eftir frekari útskýringum á fyrirbærinu lýsir hún því sem nagandi samviskubiti. „Það er þessi tilfinning að vera meðvitaður um vandann en finnast hann svo geigvænlegur að manni fallast bara hendur og lætur eins og ekkert sé að gerast,“ segir Sóla.

Meistararitgerð í menningarfræði hennar bar einmitt heitið:„Fögur orð og fyrirheit duga okkur ekki lengur.“ Íslensk loftslagsorðræða greind í ljósi kenninga um loftslagssinnuleysi.

„Kvíðinn og sorgin felst kannski helst í þessu nagandi samviskubiti og þó loftslagsbreytingar séu ekki að koma sterkast niður á okkur eru breytingarnar farnar að hafa áhrif í löndum við miðbaug jarðar. Þetta samviskubit lætur manni kannski fallast svolítið hendur.“

Fórnum framtíðinni 

Sjá einnig: Snar­minnka þarf kjöt­neyslu eða við „rústum“ jörðinni

Aðspurð hvað hinn almenni borgari, sem fallast hendur við altari loftslagsbreytinga, geti gert segir Sóla að hún sé engu að bæta við umræðuna með því að segja fólki að flokka og minnka plast, flestir séu nú þegar meðvitaðir um mikilvægi þess. 

„Það sem ég vil að fólk geri er að vera meðvitað og axla ábyrgð, ekki bara vera ábyrgir neytendur heldur líka vera aktíft að vinna í því að bæta ástandið og ekki vera alltaf að bíða eftir að næsti maður geri það,“ segir hún og bætir við:  

„Þeir sem kjósa að gera ekkert og kjósa að líta fram hjá loftslagsbreytingum eru að fórna framtíðarkynslóðum fyrir eigin lífsgæði. Við sáum þegar Íslendingar hlupu upp til handa og fóta í búsáhaldarbyltingunni því þá var verið að pota í efnahagsástandið, en nú þegar við erum í rauninni að fórna framtíðarkynslóðum þá gerum við ekkert. Ef ég fengi að ráða værum við að mótmæla við Austurvöll í hverri viku.“ 

Sjá einnig: Örplast finnst í íslensku neysluvatni

Ekki kúl lengur að vera óumhverfisvænn

Segir hún ljóst að almenningur geti ekki beðið eftir því að stjórnvöld axli ábyrgð, heldur verði að þrýsta á stjórnvöld. Á sama tíma séu stórfyrirtæki ekki heldur að fara í neinar breytingar nema þrýst sé á þau.

Segir hún hjólin þó nú þegar vera farin að snúast þó langt sé í land hjá mörgum fyrirtækjum. „Það þykir ekki kúl að vera óumhverfisvænn og það er orðið hagkvæmt fyrir fyrirtæki að vera græn,“ segir Sóla og tekur sem dæmi ferðaskrifstofur sem eru farnar að bjóða ferðalöngum upp á að kolefnisjafna ferðalög sín. 

„Hver sem er getur tekið þessa ákvörðun og snúið loftlagskvíðanum upp í aðgerðir.“ Bendir hún á að einstaklingar hafi áhrif með því hvernig við kjósum og hvernig við neytum, en almenningur ætti að taka þetta skrefinu lengra.

Bendir hún á að þegar manni fallist hendur yfir loftslagsbreytingum og aðgerðarleysi stjórnvalda og stórfyrirtækja sé fínt að horfa til hinnar sænsku Gretu Thunberg, sextán ára unglings sem vakið hefur gífurlega athygli fyrir baráttu sína fyrir loftslagsbreytingum. 

Metoo fyrir umhverfið

Tilfinningin er henni sjálfri kunnug, þá sérstaklega eftir að hún sökkti sér ofan sinnuleysi Vesturvelda og mótsagnakennda orðræðu stjórnmála og fjölmiðla í meistararitgerð sinni. Hún segir þó Ísland hafa náð langt í umhverfisvernd, en langur farvegur sé fram undan.  

„Ég held það þurfi að verða ákveðin viðhorfsbreyting í samfélaginu, rétt eins og það varð ákveðin viðhorfs breyting í kringum Metoo-byltinguna. Þá ákváðum við að hætta að líta alltaf fram hjá vandamálinu og takast á við það, sem var auðvitað ógeðslega erfitt,“ segir hún og bætir við: „ og það verður líka erfitt fyrir okkur, ef við sem samfélag ætlum virkilega að takast á við afleiðingar lífstílsvenja okkar, en við verðum að gera það fyrir framtíðina,“ segir hún ákveðin.  

Sjá einnig: Bann við plastpokum liður í stærri aðgerð

Loftlagsbreytingar staðreynd

„Maður getur tjáð sig og verið reiður án þess að hafa allar tölur á hreinu. Ég var svolítið feimin að tjá mig því ég vissi ekki allt hundrað prósent, en loftslagsbreytingar er ekki eitthvað til að rökræða, heldur staðreynd,“ segir Sóla og bendir á að þó Ísland hafi vissulega staðið sig vel fyrir hrun umhverfismál lent neðarlega á lista eftir bankahrunið. 

„Við höfðum ekki tíma til að hugsa um þetta þegar við vorum öll blönk. Nú erum við betur sett og höfum meiri tíma til að tala um umhverfismál, en það er spurning hvernig við vinnum úr því. Ef að ég flétta þetta aftur inn í Metoo umræðuna, sem var alltaf svo mikið tabú. Við þurfum bara að taka svolítið meðvitaða ákvörðun að taka þetta föstum tökum.“

Aðspurð um fólk á borð við Donald Trump, sem farið hefur mikinn gegn loftslagsbreytingum spyr hún: „Tekur einhver mark á loftlagsandstæðingum? Þetta á ekki lengur að vera einhver umræða, þegar Bandaríkin draga sig úr Parísar-sáttmálunum, þá hugsuðum við öll, við gerum þetta bara samt. Maður á ekki að leyfa sér að falla í einhvern loftlagskvíðahnút heldur verðum við að snúa þessu upp í aðgerðir,“ segir hún. 

Aðgerðir er einmitt það sem virðist vera ungmennum á meginlandi Evrópu ofarlega í huga. Hér að ofan var minnst í örstuttu máli á hina sextán ára Gretu Thunberg sem er sögð hafa haft meiri áhrif en fjöldi jakkafataklæddra ráðamanna til samans. Ungmenni hafa einnig staðið upp og mótmælt fyrir framtíðinni víðar en í Svíþjóð, en gríðarstór mótmæli áttu sér stað í Hollandi í liðinni viku. 

Teenvogue fjallaði um mótmælin, en þar kemur fram að þúsundir hollenskra nema hafi skrópað í skólanum til að mótmæla fyrir framtíðinni. 

Fyrir fimm vikum voru sambærileg mótmæli í Belgíu.

„Við erum hérna því við viljum að ríkistjórnin bregðist hraðar og betur við loftslagsbreytingum,“ er haft eftir hinni sextán ára Maarje Bood, sem mætti á mótmælin í Haag. Það virðist vera nokkuð ljóst að mælirinn er að fyllast hjá mörgum ungmennum Evrópu. 

Enginn tími til að vera kurteis eða feimin

Sóla var ólétt af sínu fyrsta barni, syninum Tryggva, þegar hún skrifaði umrædda meistararitgerð og segir hún komu væntanlegs erfingja hafa breytt miklu. Hún hafi ekki lengur haft tíma til þess að vera feimin eða kurteis þegar hún talar um loftslagsbreytingar, þegar framtíðin er í húfi. 

„Þegar ég byrjaði að pæla í að skrifa ritgerðina var ég feimin með þetta. Það var þarna tímapunktur síðasta sumar þar sem þetta helltist svolítið yfir mig. Ég er að skrifa ritgerðina, ólétt af honum og er að benda á hræsni annarra þegar ég hugsa, ég geri þetta líka. Ég sneri svolítið við blaðinu þegar að sonur minn fæðist, því eftir það hafði ég ekki tíma til að vera feimin eða kurteis. Þetta skiptir meira máli en flest annað, því þetta snýr að framtíð komandi kynslóða.“

Sóla situr í ritstjórn Flóru, sem er femínskt veftímarit. Síðasta haust skrifaði hún einmitt greinina: Móðurhlutverkið á tímum loftslagsbreytinga þar sem hún fjallar meðal annars um umhverfissamviskubitið eftir fæðingu frumburðarins, enda hafði hún setið ólétt og skrifað um sinnuleysi Vesturlandanna í umhverfismálum. 

Umhverfismál eru ekki keppni

Í ritgerðinni fjallaði Sóla einnig um hræsni fjölmiðla og stjórnvalda gagnvart loftslagsbreytingum. Aðspurð um þann vinkil segir hún fjölmiðla hafa í gegnum tíðina étið svolítið upp eftir fyrirtækjum og stjórnvöldum sem sögðust ætla vera græn án þess að leggjast í neinar rannsóknir hvort staðið væri við efnd loforð. 

Þá finnst henni ábyrgð stjórnvalda og fjölmiðla sé að fylgja eftir teknum ákvörðunum, á borð við þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að banna aðkeypta bensínbíla eftir 2030. Það þýði ekki að taka stórar ákvarðanir og fylgja þeim ekki eftir. Eins finnst henni að umhverfismál gætu fengið meira rými í fjölmiðlum, þó staðan sé betri nú en fyrir tveimur árum.

„Ég ekki að gjaldfella alla fjölmiðla og það má alls ekki setja sig á háan hest. Þetta er ekki keppni. Við erum öll að reyna að gera okkar besta og maður getur bara gert betur næst. Það þarf ekki að vera allt, eða gera allt,“ segir hún en bendir á að það sama gildi ekki um einstaklinga og fyrirtæki, sem gætu mörg hver gert mun betur. „Það er ekki hægt að skilyrða einstaklinginn að hætta að lifa lífinu á meðan fyrirtæki eru að koma öllu í bál og brand,“ segir Sóla. 

„Draumur minn væri að það væri önnur búsáhaldarbylting, nema fyrir loftslagsbreytingum og að við myndum alltaf mæta á föstudögum og leggja niður störf. Krísan er orðin það aðkallandi að við þurfum að sýna stjórnvöldum og stórfyrirtækjum að okkur sé ekki sama. Þetta helst allt í hendur og við getum ekki beðið eftir að einhver annar geri eitthvað.“

Fyrirtæki kolefnisjafna sig í síauknu mæli

Ýmislegt er hægt að gera til þess að sporna við umhverfiskvíða og minnka kolefnisfótspor sitt á móður jörð. Fjallað hefur verið í miklu mæli um flokkun og plastfótspor jarðarbúa og það verður ekki gert í löngu máli hér, enda var fjallað um plast í Fréttablaðinu á fimmtudaginn. 

Sívaxandi áhugi er fyrir því að fyrirtæki og einstaklingar kolefnisjafni fótspor sitt hér á jörð. Skógræktarfélag Íslands og Landvernd stofnuðu Kolvið árið 2007 með þá hugmyndafræði á baki sér að binda kolefni úr andrúmsloftinu með skógrækt, en tré binda kolefni en leysa súrefni út í andrúmsloftið. 

Reynir Kristinsson, stjórnarformaður Kolviðs, segir áhuga fyrirtækja fyrir því kolefnisjöfnun fara sívaxandi. Hann sakni þess þó að opinberar stofnanir geri slíkt hið sama, en á annað hundrað fyrirtækja safma gögnum mánaðarlega um losun kolefna. 

En hvað er kolefnisjöfnun? 

„Jú, það er þannig að plöntur þurfa bæði kolefni í rætur og stofn og taka til sín kolefni,“ segir Reynir í samtali við Fréttablaðið. „Það sem við erum að gera er að setja niður plöntur í mjög rýran jarðveg svo hún þurfi að taka til sín koltrvísýring. Það er þessi kolefnisbinding, á heimasíðunni getum við reiknað hvað það er að losa mikið af kolefni og við getum þá plantað tré.“

Kolviður býður fólki að binda það kolefni sem fellur til við daglega neyslu. Sjóðurinn hvetur til þess að sem mest sé dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda en gerir sér grein fyrir að erfitt er að koma í veg fyrir hana alveg.

Á heimasíðu Kolviðar geta einstaklingar reiknað út hvað bílar þeirra og flugferðir losa af koldíoxíði, þannig getur hver „tekið til eftir sig“. Kolefnisjöfnun eins og Kolviður býður er vottað ferli. Fyrir fjármuni sem einstaklingar eða fyrirtæki leggja af mörkum verður bundið tilskilið magn af koldíoxíði (CO2) sem viðkomandi aðili hefur greitt fyrir, að því sem fram kemur á heimasíðu Kolviðs. 

Reiknivélina er að finna hér og er hún nokkuð einföld í notkun. Aðspurður viðurkennir Reynir þó að heimasíðan sem nú er í notkun sé ekki mjög notendavæn hvað varðar einstaklinga, enda hafi áherslan verið á kolefnisjöfnun fyrirtækja. Hins vegar sé nú unnið að nýrri heimasíðu þar sem auðveldara verði fyrir einstaklinga að kolefnisjafna ferðalög með því að kaupa tré. Hægt er þó að leggja inn á Kolvið fyrir keyptum trjám eins og staðan er nú.

Nokkrar leiðir einstaklinga til að draga úr koldíoxíði frá samgöngum frá Kolvið

  • Kaupa sér sparneytinn bíl
  • Ganga eða hjóla styttri ferðir
  • Nota almenningssamgöngur eins og hægt er
  • Spara sér ferðir með góðu skipulagi
  • Vanda aksturslag/stunda vistakstur
  • Huga að viðhaldi bifreiðar