„Það er lítil sanngirni í málflutningi sumra þeirra sem hæst tala um aðskilnað ríkis og kirkju og um að best færi á því að ríkið hætti algjörlega að hafa nokkur afskipti af fjármálum neinna trúfélaga.“ Þetta sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á kirkjuþingi um helgina.

Í ræðu sinni sagði Bjarni að ekki stæði til með neinum hætt að skerða framlög ríkisins til kirkjunnar. Hann lýstir þeirri skoðun sinni að þær greiðslur sem renna til kirkjunnar, svo sem í kristnisjóð, kirkjumálasjóð, jöfnunarsjóð sókna og til höfuðkirkna fari beint til kirkjunnar og að hún beri ábyrgð á ráðstöfun þessara peninga. Ríkið ætti að hlutast sem minnst til um skiptingu og ráðstöfun fjárframlaga. Kirkjan ætti alfarið að taka við eigin starfsmannamálum.

Bjarni sagðist ekki vilja skorast undan þeirri ábyrgð að ræða umtalið um aðskilnað ríkis og kirkju. Í þeim málflutningi væri lítil sanngirni. „Oft virðist manni sem málflutningur af þessu tagi stafi einkum frá mjög ungu fólki, sem ekki hefur lent í neinum áföllum og hefur ekki séð það starf sem kirkjan vinnur við sálusorgun og ýmis konar félagsþjónustu.“

Samkvæmt könnun Maskínu frá því í febrúar eru 55 prósent Íslendinga hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju en 22 prósent andvígir honum.

Bjarni sagði að á Alþingi væri töluverður hópur þingmanna sem virtist „ekki tilbúinn til að viðurkenna að neinu leyti að þjóðkirkjan hafi hlutverk eða eigi erindi við samtímann. Ekki heldur til að virða þá samninga sem gerðir hafa verið.“ Mikilvægt væri að ríkið og kirkjan þróuðu samband sitt áfram.