Jón Baldursson, heimsmeistari í bridds og nýráðinn landsliðseinvaldur, hyggst tilkynna landsliðshópinn í opnum flokki í bridds í dag. Jón segir að það hafi verið nokkuð snúið að velja úr hópi spilara, meginspurningin hafi verið um þriðja parið í hópnum. Alls munu sex spilarar skipa liðið.

„Framboðið var meira en ég hélt að yrði,“ segir Jón.

Þriggja para hópur verður einnig valinn til að æfa með landsliðinu.

„Við fengum átta umsóknir í æfingahópinn sem mér fannst mjög mikið. Ég er ánægður með ásóknina. Valið var mjög erfitt,“ segir Jón.

Að gefnu tilefni vill Jón koma á framfæri að liðsagi hafi ekki verið vandamál í landsliðum Íslendinga í bridds síðastliðna áratugi. Þegar hann hafi sagt í Fréttablaðinu á dögunum að áfengisneysla yrði aldrei umborin hafi hann að mestu átt við eitt einangrað tilvik á einu tilteknu stórmóti.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var landsliðseinvaldurinn að vísa til hnökra sem komu upp hjá aðeins hluta landsliðsins í opnum flokki á Evrópumótinu í sumar. Árangur á því móti var sá versti um áratugaskeið og talinn óviðunandi.

Íslendingar urðu heimsmeistarar í bridds árið 1991. Íslenska keppnisliðið hefur margoft eftir að sá árangur náðist unnið Norðurlandamót í íþróttinni.

Stefnir Jón að því að koma landsliðinu aftur í hóp bestu liða heims, þótt við ramman reip sé að draga. Spilarar bestu landsliða eru meira og minna atvinnumenn í íþróttinni nú um stundir, ólíkt íslenskum spilurum.