Miklar umræður hafa skapast í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustu vegna auglýsingar sem sett var þar inn. Þar óskar framkvæmdastjóri fyrirtækisins Gáru ehf. eftir starfsfólki til að vinna á frönsku skemmtiferðaskipi sem verið hefur á siglingu kringum Ísland undanfarna mánuði.

Auglýst er eftir þremur reyndum þjónum til að starfa um borð í skipinu sem ber nafnið The Champlain frá 2. til 21. september. Þeir þurfa að vera fullbólusettir gegn Covid-19 og reiðubúnir til að taka hraðpróf áður en gengið erum borð.
Sitt sýnist hverjum í athugasemdum við færsluna. Þar er meðal annars spurt hvort verið sé „að mismuna fólki eftir því hvort það gefur farið í tilraunabólusetningu eða ekki.“ Þessu svarar Tanja Teresa, framkvæmdastjóri Gáru játandi.
„Má þá líka auglýsa eftir fólki sem er í kjörþyngd eða er á ákveðnum kvíðalyfjum eða er ekki skráð í þjóðkirkjuna? Eða á rafmagnsbíl eða nagar ekki neglur.. þjóðfélagið orðið klikkað,“ er spurt í annarri athugasemd.
„Það er ólöglegt að biðja um heilsu sögu fólks þegar það er ráðið í vinnu. Má þá fólk með HIV veiruna ekki sækja um? Ætlið þið að spyrja um þannig smit? Þetta er tilraunalyf og ef þið hafið tekið eftir að þá eru þeir bólusettu að dreifa þessari pest hægri og vinstri. EN ÞETTA ER ÓLÖGLEGT sem þið eruð að gera!!“
Þessu er andmælt í annarri athugasemd. „Fyrirtæki hefur alveg rétt á þessu alveg eins og fyrirtæki hafa rétt á að fara fram á fíkniefnatest.“