Þrír voru úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald í kvöld á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tengslum við rannsókn á morði í Rauðagerði um síðustu helgi.

Fjórir voru handteknir í aðgerðum lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í gær. Þar sem aðeins þrir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald er ljóst að einum þeirra hefur verið sleppt. Samkvæmt heimildum Fréttablaðins er um konu að ræða.

Mikill viðbúnaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur í kvöld þegar mennirnir voru leiddir fyrir dómara. Minnst þrír sérsveitarbílar umkringdu dómshúsið auk tveggja lögreglubíla. Þá stóðu fjórir lögreglumenn vörð fyrir utan húsið á meðan mennirnir voru færðir einn í einu fyrir dómara í fylgd lögreglu.

Sjö eru nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Þeir eru allir a fertugsaldri utan einn sem er á fimmtugsaldri.

Ekki hefur verið upplýst hvort allir sem sæta varðhaldi eru karlmenn.