Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hyggst ekki fara fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni sem handtekinn var í gær í tengslum við morðið í Rauðagerði og verður honum því sleppt í dag. Frá þessu var greint íhádegisfréttum Bylgjunnar.
Tveir voru handteknir í gær vegna málsins. Hinn maðurinn hefur hinsvegar verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Báðir mennirnir eru frá Albaníu og eru á þrítugs og fertugsaldri.
Haft er eftir Margeiri Sveinssyni, yfirlögregluþjóni hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, að lögum samkvæmt megi lögreglan aðeins halda manninum í 24 klukkustundir þar sem ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald. Honum verður því sleppt úr haldi í dag.
Níu manns eru í haldi vegna málsins, af sjö þjóðernum. Segir Margeir að yfirheyrslur hafi farið fram í gær og að þær standi enn yfir.