Elon Reeve Musk er fæddur árið 1971 og fagnar fimmtugsafmæli í júní næstkomandi. Hann ólst upp í Suður-Afríku þaðan sem faðir hans er upprunninn en móðir hans er kanadísk. Hann var ekki hár í loftinu þegar hann var farinn að sýna mikla færni þegar kom að tölvum og frumkvæði en hann seldi sinn fyrsta tölvuleik aðeins tólf ára gamall. Það var tölvutímarit sem greiddi honum 500 dollara fyrir leikinn og má segja að þar hafi tónninn að framtíð hans verið sleginn.

Elon fluttist til heimalands móður sinnar sautján ára gamall til að stunda nám við Queen‘s-háskólann. Tveimur árum síðar færði hann sig í Pennsylvaníu-háskóla þaðan sem hann útskrifaðist með tvöfalda BA gráðu í hagfræði og eðlisfræði. Stefnan var svo tekin á frekara nám við Stanford-háskóla og flutti hann því til Kaliforníu. Ekkert varð þó úr frekari göngu á menntaveginum því eftir aðeins tvo daga í Stanford var ljóst að hugur Elons stefndi í viðskipti á vefnum og ákvað hann að einbeita sér að þeim.


Milljarðamæringur 28 ára


Fyrsta fyrirtækið, vefhugbúnaðarfyrirtækið Zip2 stofnaði hann með bróður sínum Kimbal og fjórum árum síðar var fyrirtækið keypt á 307 milljónir dollara. Elon var því orðinn 28 ára gamall milljarðamæringur. Einhver hefði nú slakað aðeins á og notið auðsins en ekki Elon sem stofnaði sama ár, 1999, vefbankann X.com. Hann sameinaðist svo Confinity árið eftir og úr varð fyrirtækið PayPal sem flestir þekkja í dag og eBay keypti árið 2002 á 1.5 milljarða dollara.

Elon hér ásamt Justine, fyrstu eiginkonu sinni sem hann eignaðist sex börn með. Frumburður þeirra dó vöggudauða 10 vikna gamall og síðar eignuðust þau bæði tvíbura og þríbura.

Þá fór Elon að hugsa enn stærra og stofnaði flugtækniframleiðslu- og geimferðafyrirtækið SpaceX þar sem hann er ekki aðeins framkvæmdastjóri og tæknistjóri heldur var hann einnig yfirhönnuður við hönnun þriggja geimflauga fyrirtækisins. Elon hefur alltaf litið svo á að mannkynið þurfi að koma sér fyrir á fleiri stöðum en jörðinni en til þess þyrfti að hanna ódýrari geimflaugar og einbeitir SpaceX sér að því.


Tesla og taugatækni


Hann er svo ekki síst þekktur fyrir aðkomu sína að Tesla Motors, sem framleiða rafbílana vinsælu Teslu þar sem hann hefur verið framkvæmdastjóri frá árinu 2008 og á 21 prósents hlut. Hann kom einnig að stofnun SolarCity, dótturfyrirtæki Teslu, sem framleiðir sólarrafhlöður. Undanfarin fimm ár hefur hann einnig komið að Neuralink, taugatæknifyrirtæki sem vinnur að þróun tækis sem ætlað er að koma fyrir í höfuðkúpunni til að hjálpa fólki sem orðið hefur fyrir taugaskaða með tölvutengingum við heila.


Sonarmissir

Elon býr í Austin, Texas, ásamt sambýliskonu sinni, indie-tónlistarkonunni Grimes eða Claire Boucher, en samband þeirra hófst um mitt ár 2018 og eiga þau saman eins árs soninn X Æ A-12 Musk sem þau kalla oftast X til styttingar.

Elon Musk ásamt sambýliskonu sinni og barnsmóður, tónlistarkonunni Claire Boucher eða Grimes. Myndin er tekin árið 2018 þegar parið sást fyrst saman á Met-Gala kvöldinu í New York. Fréttablaðið/Getty

Fyrir átti Elon fimm syni með fyrstu eiginkonu sinni, Justine, en þau kynntust á háskólaárunum í Kanada. Frumburður þeirra, Nevada Alexander Mush, lést árið 2002 úr ungbarnadauða 10 vikna gamall en fljótlega fór Justine í frjósemismeðferð sem gaf þeim tvíburasyni árið 2004 og þríburasyni árið 2006.

Justine sagði frá missinum í grein sem hún skrifaði fyrir tímaritið Marie Claire.

„Í sömu viku og eignir Elons fóru vel yfir 100 milljónir dollara, við söluna á PayPal, lagði Nevada sig, hann lá á bakinu eins og alltaf, og hætti að anda.“

Dramatískur skilnaður

Skilnaður þeirra hjóna varð fjölmiðlaefni, þvert á vilja Elons sem alltaf hefur lagt mikið upp úr að halda einkalífi sínu utan þeirra. Á endanum skrifuðu fyrrum hjónin hvort sína greinina sem birtust í fjölmiðlum og sögðu frá sinni upplifun.

Elon hóf grein sína í Business Insider á orðunum að frekar langaði hann að stinga sig í höndina með gaffli en ræða einkalíf sitt opinberlega. Hann hélt áfram og sagði að í ljósi þess að slíkar lygar hefðu komið fram væri hann nauðbeygður til að svara fyrir þær.

Elon hér ásamt fyrrverandi eiginkonu sinni Talulah Riley sem hann giftist tvisvar og skildi einnig í tvígang við, á góðri stundu í Playboy-höllinni í veislu hjá Hugh Hefner heitnum. Fréttablaðið/Getty

Þar má segja að hæst hafi farið sagan um að hann hafi stungið af með ungri leikkonu en eftir skilnaðinn hóf Elon samband við ensku leikkonuna Talulah Riley. Þau giftu sig árið 2010, skildu árið 2012, giftu sig aftur árið 2013 en skildu svo endanlega árið 2016. Í greininni þvertók Elon fyrir að framhjáhald hafi verið ástæða skilnaðarins, hvorki af hans hálfu né Justine.

Hann sagðist jafnframt vera umhyggjusamur faðir, synir hans séu hans sanna ást og með þeim verji hann öllum frítíma sínum. Synirnir fimm frá fyrsta hjónabandinu eru til jafns hjá foreldrum sínum og samkvæmt Elon sjálfum ferðast hann varla nema um fjölskylduferð sé að ræða.


Ríkasti maður heims


Í janúar síðastliðnum ýtti Elon Jeff Bezos, stofnanda Amazon, úr toppsætinu yfir ríkustu einstaklinga heims. Eru eignir Elons metnar á 185 milljarða dollara. Það er hækkandi hlutabréfaverð Teslu sem ýtti Elon enn ofar en fyrirtækið er nú meira virði en Toyota, Volkswagen, Hyundai, GM og Ford samanlagt.

Sjálfur birti Elon fréttina á Twitter með orðunum „Enn skrítið.“ En áður hafði hann skrifað færslu á miðilinn þar sem hann ræðir auðævi sín:

„Um það bil helmingi auðæfa minna er ætlað að aðstoða við lausnir vandamála á jörðinni, og um helmingur til að koma upp sjálfbærri borg á Mars til að tryggja framhald lífs (allra tegunda) ef jörðin skildi verða fyrir loftsteini eins og risaeðlurnar eða ef þriðja heimsstyrjöldin brýst út og við tortímum sjálfum okkur.“

Tugir milljóna fylgjenda


Elon Musk er sérvitringur og hefur reglulega orðið fyrir gagnrýni vegna afstöðu sinnar í hinum og þessum málum. Hann á í eins konar ástar-haturssambandi við samskiptamiðilinn Twitter þar sem í kringum 45 milljónir fylgjast með færslum hans sem ná oftar en ekki athygli fjölmiðla.

Hann tilkynnir reglulega að hann sé hættur að nota miðilinn en birtist svo aftur nokkrum dögum síðar. Twitt­er-færslur hans hafa oftar en ekki haft áhrif á verðbréfamarkaðinn og undir lok síðasta árs fékk hann yfir sig mikla gagnrýni fyrir að dreifa rökleysu um heimsfaraldur COVID-19.

Í janúar síðastliðnum ýtti Elon, Jeff Bezos, stofnanda Amazon úr toppsætinu yfir ríkustu einstaklinga heims.

Dæmi um hvernig áhugasamir lesa í Twitter-færslur Elons er að Bitcoin hækkaði um 15 prósentustig á verðbréfamarkaðnum eftir að Elon bætti #bitcoin í Twitter upplýsingar sínar.

Netmarkaðstorgið Etsy hækkaði svo um 3,5 prósent í janúar, nokkrum mínútum eftir að Elon birti „I kinda love Etsy,“ og sagði frá því að hann hefði þar keypt handprjónaðan „Marvin the Martian“-hjálm fyrir hundinn sinn.