Viðtalsþátturinn Mannamál með John Snorra Sigurjónssyni frá vordögum 2017 verður sýndur á ný á Hringbraut að kveldi þjóðhátíðardagsins 17. júní. Endursýningin er í samráði við aðstandendur Johns Snorra sem saknað var á fjallinu K2 ásamt klifurfélögum sínum, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr, þann 5. febrúar á þessu ári. Fjölskylda Johns Snorra hefur boðað kveðjuathöfn í Vídalínskirkju í Garðabæ næstkomandi þriðjudag.

Mynd/Hringbraut

Í samtali sínu við Sigmund Erni segir John Snorri frá fjallaástríðu sinni, meðal annars því einstæða afreki að toppa K2 að sumarlagi í fyrstu tilraun, eitt illkleifasta fjall á jörðinni, en hann léttist um hartnær tuttugu kíló í ferðinni: „Ég held ég hafi ekki verið svona léttur á fæti frá því ég var strákur heima í sveitinni í Ölfusi," segir John Snorri í viðtalinu, en líklegt má telja að þetta afrek hans hafi kveikt hugmyndina að því að reyna við þetta annað hæsta fjall heims að vetrarlagi. Það var svo reynt í byrjun þessa árs, en málalokin syrgir íslensk þjóð, svo og fjölskyldur og vinir allra göngufélaganna þriggja.

Klifurfélagarnir þrír: Ali Sadpara, John Snorri og Juan Pablo Mohr
Mynd/Samsett

Viðtalið er á köflum afar tilfinningaríkt, en John Snorri segir þar að hann hafi klifið K2 með pabba sínum heitnum, Sigurjóni Bláfeld, sem þá var nýlega fallinn frá - og hann hafi fundið fyrir honum í hverju skrefi. Gangan hafi verið farin til að heiðra minningu pabba.

Tíð snjóflóð

Aðeins 240 manns hafa komist á K2 um dagana, sem er ekki aðeins þverhnípt og illkleift heldur slútir það víða fram á uppleiðinni - og snjóflóð eru þar svo tíð og veðurlag slæmt að oft og tíðum líða nokkur ár á milli þess sem menn geta klifið fjallið. „Ég varð að útiloka dauðahugsanirnar allan tímann," segir John Snorri í viðtalinu frá 2017, „sjötíu prósent af svona fjallgöngu er í hausnum á manni, mikill minni hluti hennar er líkamlegt erfiði. Líkaminn er þó allan tímann á meðan á uppleiðinni stendur að telja huganum trú um að hann geti ekki meira, en þá gildir einmitt einbeitingin; að útiloka þetta nöldur skrokksins," segir fjallagarpurinn í þættinum.

Ali Sadpara og John Snorri
Facebook/John Snorri

Þátturinn er sem fyrr segir endursýndur í samráði við fjölskyldu Johns Snorra og hefst sýning hans klukkan 19:00 að kveldi 17. júní og hann er svo sýndur aftur klukkan 21:00 sama kvöld.