Elisabeth Haslund, upplýsingafulltrúi Norðurlandanna hjá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna segir að á Íslandi sé einstakt tækifæri, vegna smæðar okkar og staðsetningu, til að vera fyrst ríkja til að útrýma ríkisfangsleysi.
Í janúar 2021 gerðist Ísland aðili að samningum Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu ríkisfangslausra frá 1954 og 1961 og þeir tóku gildi í apríl í fyrra. Ásamt alþjóðlegum flóttamanna- og mannréttindalögum mynda þeir alþjóðlegan lagaramma til að takast á við ríkisfangsleysi. Aðildin sem og þau fjölmörgu önnur skref sem Ísland hefur tekið er talin ryðja brautina fyrir útrýmingu ríkisleysis í landinu og hefur þannig sett Ísland í sérstöðu til þess að ná að uppræta ríkisfangsleysi.
Flóttamannastofnun SÞ hefur allt frá árinu 2014 staðið fyrir átaki sem ætlað er að uppræta ríkisfangsleysi á heimsvísu 2024.
„Það eru sem betur fer fáir sem koma til Íslands þannig það er ekki stór hópur hérna, minnihluti, sem er ríkisfangslaus og réttindalaus,“ segir Elisabeth en samkvæmt þeirra skrám eru alls rúmlega 50 ríkisfangslausir einstaklingar á Íslandi og í gögnum Útlendingastofnunar má sjá að fjöldinn er smár sem kemur á ári hverju, aðeins einn til tveir einstaklingar.
Hún segir að skráning Útlendingastofnunar sé þó ekki tæmandi því hér geti verið, til dæmis, börn sem hafði fæðst hérna en séu ríkisfangslaus því foreldrar þeirra eru það líka.
„Það tekur barnið þrjú ár að vera viðurkennt sem borgari. Heildarfjöldinn er þannig ekki bara fólk sem er að koma til landsins, heldur líka börn sem fæðast hérna,“ segir Elisabeth.
Hún segir að einnig sé hlutfall farandverkamanna frá Lettlandi eða öðrum baltneskum ríkjum ríkisfangslaus.
„En þegar fjöldinn er svona lítill þá er einn til viðbótar fullt,“ segir Elisabeth.

Verkefni sem fylgja margar áskoranir
Hún segir að útrýmingu ríkisfangsleysis fylgi margar áskoranir en að það geti verið margar ástæður fyrir því að fólk sé ríkisfangslaust auk þess sem að auknar líkur eru á að fólk verði fyrir ofsóknum og að réttindi þeirra séu skert þegar þau eru ríkisfangslaus. Hún tekur dæmi um Róhingja sem hafa verið ofsótt áratugum saman en það er einn stærsti hópur fólks í heiminum sem er ríkisfangslaus.
Og þetta er vandamál sem gæti orðið stærra?
„Það er það sem við erum að reyna að koma í veg fyrir og það sem við viljum gera, með öðrum samtökum, er að eyða ríkisfangsleysi í heiminum. Markmiðið eru stór og við viljum ná þessu fyrir árið 2024 og ég er oft spurð að því hvort það sé raunhæft. Ég svara því þannig að það sé enn mikið verk að vinna og að lönd þurfa að gera sitt. Vandamálið er manngert og það er hægt að leysa það með pólitík og stefnumótun. Við þurfum breytta löggjöf og það tekur auðvitað tíma,“ segir Elisabeth og að víða í heiminum sjái þau marktækar breytingar á löggjöf sem hjálpi mikið. Hún nefnir sem dæmi að börn séu skráð strax við fæðingu eða komu til lands og að leið fólks að því að öðlast ríkisfang sé skýr og greið.
„Við sjáum þróun og að það er búið að taka skref svo að hópar sem áður voru ríkisfangslausir eigi nú ríkisfang. Hópar fólks sem hafa búið í einhverju ákveðnu landi um langa hríð og aldrei verið viðurkenndir borgarar eru nú að fá ríkisfang og skjöl. Það er ástæða til að vera bjartsýnn um framfarir en á sama tíma mikilvægt að viðurkenna samt að það er mikið verk óunnið,“ segir Elisabeth.
Kynbundin mismunun endar í ríkisfangsleysi
Hún segir að fyrir Ísland sé tækifærið til að útrýma ríkisfangsleysi gott því hér sé fámennur hópur sem auðvelt er að finna og aðstoða.
„Ísland getur orðið fyrsta landið í Evrópu til að eyða ríkisfangsleysi eða að takast a við öll tilfellin sem þar eru,“ segir hún en áréttar þó að það séu ákveðin skref sem þarf að taka svo það gerist og að það sé ekki endilega ein eða sama lausnin sem henti öllum ríkjum. Það sé þó mikilvægt að byrja á því að taka lagaleg skref og fagnar því að hér á Íslandi sé sú vegferð hafin.
Hún segir að börn séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sérstaklega hjá fólki á flótta, en tekur þó sem dæmi að enn séu um 20 lönd í heiminum þar sem að barn getur aðeins fengið ríkisborgararétt sinn frá föður sínum. Ef að hann er ekki á staðnum við fæðingu, eða til staðar, þá verður barnið sjálfkrafa ríkisfangslaust í stað þess að fá sama ríkisborgararétt og mamma sín.
„Þetta er kynbundin mismunun í löggjöf landanna sem þýðir að sum börn fæðast ríkisfangslaus.“
Fyrir okkur sem eigum vegabréf er erfitt að skilja og ná utan um hvað þetta þýðir.
Þá segir hún að í sumum löndum sé þess krafist að börn séu skráð í sendiráði eða konsúlati við fæðingu en þegar langt er þangað þá fari foreldrar oft ekki með börnin til að skrá þau. Eða að þau séu ekki virk vegna átaka eða annars.
„Þetta sýnir okkur hvernig ríkisfangsleysi getur verið alvarleg afleiðing einhvers sem er alveg fyrir utan stjórn fjölskyldunnar,“ segir Elisabeth.
Eins og fyrr segir stefnir Flóttamannastofnun SÞ að því að útrýma ríkisfangsleysi fyrir 2024 en Elisabeth bendir á að eitt af því sem geti staðið í vegi fyrir því sé hreinlega vanþekking almennings á vandamálinu.
„Fyrir okkur sem eigum vegabréf er erfitt að skilja og ná utan um hvað þetta þýðir. Það eru auðvitað allskonar praktískar afleiðingar af því að vera ekki með pappíra, og það er eitt, en svo geta þessu fylgt brot á réttindum og ofbeldi. En hluti af þessu er andlegt fyrir fólk. Að tilheyra hvergi. Það er ekkert land sem viðurkennir þig eða kallar þig borgara þess. Jafnvel þótt þú hafðir fæðst þar og hafir búið þar allt þitt líf. Herferðin snýst um að heimurinn viti af þessu og vinni að því að breyta þessu og það þarf pólitískan vilja til þess að gera það.“
Hún segir að Flóttamannstofnunin fagni vilja íslenska ríkisins til breytinga og að þau hvetji þau áfram í þeim verkum.
„Hingað til er þetta ekki bara undirskrift því við höfum sé hvernig það hefur verið lögð áhersla á þetta á Íslandi. Í bæði lagabreytingum en líka í góðu samtali okkar við yfirvöld um hvernig eigi að færa góðu orðin af blaðinu þannig að þau sem eru á landinu, og eru ríkisfangslaus, njóti þess. Við vonumst í framhaldinu eftir því að fjöldanum fari fækkandi,“ segir Elisabeth.

Hvert mál sé skoðað
Vala Karen Viðarsdóttir, framkvæmdastjóri Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi segir að mikilvægt sé að halda utan um þennan hóp fólks hér á landi, að það sé tryggt að lögum sé fylgt, að hvert mál sé skoðað og að allt sé gert til að reyna að brjóta þennan vítahring.
„Með því að tryggja að börn séu ekki ríkisfangslaus og með því að stytta þann tíma sem þau bíða ríkisfangslaus. Ríkisborgararéttur og fæðingarskráning eru nátengd félagslegum og efnahagslegum réttindum, rétt til heilbrigðis og menntunar. Skortur á ríkisborgararétti leiðir þannig til frekari erfiðleika til þess að afla nauðsynlegra skjala og hafa aðgang að grunnþjónustu. En eins og Elisabeth segir, það þarf pólitískan vilja til þess að vilja takast á við þetta. Eitthvað hefur breyst í þessum efnum síðustu ár, breyting á lögum og fleira, en við getum gengið enn lengra. Til þess þarf ákveðna vitundarvakningu og fræðslu sem leiðir til hvatningar á stjórnvöld til þess að beita fyrir sér frekari aðgerðir í upprætingu ríkisfangsleysis.“
Er það raunverulegur möguleiki?
„Á alþjóðavísu hefur, til dæmis, UNICEF brýnt lengi fyrir mikilvægi fæðingarvottorða. Þetta er löng og erfið barátta, en við verðum að hefja hana einhvers staðar og Ísland er þar í algjörri sérstöðu og með raunverulega möguleika í nánustu framtíð til þess að uppræta ríkisfangsleysi, bæði með fyrirbyggjandi aðgerðum sem tengjast getu stjórnvalda en einnig að fylla upp í eyður í stefnu um ríkisborgararétt. Við trúum því að ef sá vilji sé fyrir hendi að þá sé það raunverulegur möguleiki,“ segir Vala Karen.
Mikilvægt að umræðan sé lifandi
Spurð hvert hlutverk Félags Sameinuðu þjóðanna sé í þessu máli segir hún þeirra markmið að fræða og halda málefninu lifandi með umræðu og umfjöllun.
„Við erum einmitt í gegnum UNESCO-skólaverkefnið að vinna að útgáfu fræðsluefnis fyrir skóla á öllum aldursstigum sem snýr að fræðslu um flóttafólk og ríkisfangsleysi. Með því að tala um þessi málefni og að fræða börn og almenning í landinu leggjum við grundvöll að betra samfélagi, sýnum mikilvægi samvinnu og vilja til þess að allir fái að njóta réttinda sinna, sama hver það er og sama hvar,“ segir Vala Karen.
Hún áréttar að fyrir hendi er mikilvægt tækifæri fyrir íslenska ríkið til að verða fyrsta þjóðin í Evrópu til að uppræta ríkisfangsleysi.
„Þetta er ekki auðveldlega framkvæmt, það krefst mikillar vinnu lagalega séð, vinnu sem nú þegar er hafin. Aðeins eitt ríki í heiminum hefur náð að uppræta ríkisfangsleysi, Kyrgistan. Þar leystu þau málin á þann hátt að flestir ríkisfangslausra fengu aðstoð við fæðingarskráningu, staðfestingu eða breytingu á ríkisborgararétti og urðu þeir fullgildir borgarar. Vinna við að finna og skrá fólk án sönnunar á þjóðerni eða ríkisborgararétts féll á sveitarfélög og borgarasamfélagið. Lögfræðisamtök veittu meira en 10.000 manns ókeypis lögfræðiaðstoð yfir fjögur ár,“ segir Vala Karen en bendir þó á að þessu hafi líka fylgt ýmis vandamál eins og að hópar í dreifbýli hafa aðgengi að skilvirkri þjónustu.
„Útgáfa fæðingarvottorða er og mun vera áfram það sem skiptir gríðarlegu máli til þess að fyrirbyggja og uppræta endanlega ríkisfangsleysi. Og þar er Ísland í sérstöðu, í fámennu landi þar sem vel er haldið utan um fæðingar, hvort sem um ræðir í þétt- eða dreifbýli.“
Fram kemur á vef félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi að meginhlutverk Flóttamannstofnunar SÞ er að tryggja réttindi flóttamanna og hælisleitenda. Auk þess er hlutverkið það að verja líf þeirra sem hafa neyðst til að flýja. Saman með samstarfsaðilum, ríkjum og ýmsum samfélögum vinnur stofnunin að því að allir hafi rétt til hælis, tryggja þarf rétt flóttamanna og hælisleitenda til að finna öruggt skjól í öðru ríki. Þá vinnur hún einnig að því að finna varanlegar úrlausnir á málefnum flóttamanna um allan heim.
Þar kemur einnig fram að Ísland leggur fjármuni til Flóttamannastofnunar SÞ með reglubundnum framlögum. Árið 2016 fjórfaldaði Ísland stuðning sinn en það ár var veitt hæsta framlag sem Ísland hafði veitt þangað til. Á árunum 2010 til 2019 gaf Ísland rúmlega 358.699.801 krónur til stofnunarinnar samkvæmt openaid.is, en þess að auki hafa framlög aukist eftir 2019, en utanríkisráðuneytið tilkynnti í október 2020 um 80 milljóna króna framlag til samtakanna vegna ástandsins í Níger, Malí og Búrkína Fasó.