Í gær óskaði Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, eftir því við embætti ríkissaksóknara að segja sig frá rannsókn málsins er varðar ætlaðan undirbúning til hryðjuverka. Ríkissaksóknari hefur fallist á beiðnina og flutt rannsókn málsins frá ríkislögreglustjóra til embættis héraðssaksónara. Ástæðan er, einstaklingur sem tengdur er ríkislögreglustjóra fjölskylduböndum, og hefur verið nefndur í tengslum við málið.

Ríkislögreglustjóri sagði sig frá málinu um leið og upplýsingarnar lágu fyrir. Starfsmenn ríkislögreglustjóra munu koma áfram að rannsókn málsins undir stjórn héraðssaksóknara eins og heimilt er samkvæmt lögreglulögum. Þetta er meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi lögreglu sem fer nú fram.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og Sveinn Ingiberg Magnússon, yfirlögregluþjónn, fara yfir rannsókn málsins á upplýsingafundinum. Málið kom upp í síðustu viku og er talið tengjast ætluðum undirbúningi að hryðjuverkum hér á landi.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, hefur sagt sig frá málinu.
Fréttablaðið/Ernir
Hluti af þeim vopnum sem lögreglan hefur lagt hald á vegna málsins.
Fréttablaðið/Valli

Fleiri handteknir

Fjórir menn voru handteknir í tengslum við málið þann 21. september síðastliðinn í aðgerðum sérsveitar ríkislögreglustjóra. Lögreglan hélt í kjölfarið upplýsingafund vegna málsins en þar kom fram að tveir af fjórum hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins, báðir Íslendingar á þrítugsaldri.

Annar mannanna var útskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald og hinn í eina. Fyrr í dag féllst héraðsdómur á kröfu lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum til 6. október næstkomandi.

Grímur segir aðspurður að fleiri aðilar hafi verið handteknir vegna málsins undanfarna daga en ekki verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Átta teymi vinna að málinu

Rannsókn málsins miðar vel áfram að sögn Gríms og er umfang málsins þannig að það mun taka lögreglu nokkurn tíma að fara í gegnum gögn sem hafa verið haldlögð. Hann segir lögreglu vera með átta teymi sem vinna að málinu. Skoða þurfi þrívíddarprentarana, rafræn gögn og vopnin sem hafa verið haldlögð.

Rannsóknin snúi meðal annars að því að finna magnið af íhlutum sem hafa verið prentaðir í þessum þrívíddaprenturum. „Þarf enginn að efast um það að hægt er að framleiða hættuleg vopn með þessum hætti.“

Þrívíddarprentari sem lögreglan hefur lagt hald á.
Fréttablaðið/Valli
Einn mannanna sem er í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fá aðstoð erlendis frá

Lögreglan segir rétt að geta þess að töluvert magn gagna hefur meðal annars verið sent lögreglu á Norðurlöndum og til Europol sem aðstoða við úrvinnslu gagna, meðal annars úr símum, tölvum og úr samskiptaforritum.

Aðspurð segist lögreglan ekki geta tjáð sig um það hvort játningar liggi fyrir í málinu. Játningar geti verið á nokkrum stigum.

Grímur segir ekki hægt að uppvísa um það hvort þrívíddarprentuðu vopnin séu að hluta virk en þau hafi þó rökstuddan grun um að svo sé. Hann segir ekki margar byssur þrívíddarprentaðar, aðeins örfáar. Stór hluti vopnanna sé framleiddur í verksmiðjum.

Sveinn hvatti almenning til að veita lögreglu upplýsingar vegna málsins og ef grunur væri um vopn af þessu tagi í samfélaginu. Jafnframt ef fólk vissi af heimatilbúnum þrívíddarprentuðum vopnum er það beðið um að setja sig í samband við lögreglu. Hann sagði fréttir af málum sem þessu virka stuðandi í samfélaginu og ættu ekki að venjast. Þá bað Sveinn fólk um að huga að því hvernig það ræðir um málið og gæta varkárni í því.

Stofnanir og borgarar skotmark

Á síðsta upplýsingafundi kom jafnframt fram að mennirnir væru grunaðir um ætlaðar árásir gegn borgurum og stofnunum ríkisins og undirbúning hryðjuverka.

„Það er óhætt að segja að samfélag okkar sé öruggara en það var,“ sagði lögreglan á síðasta fundi. Ætlað var að Alþingi og lögreglan væru meðal skotmarka mannanna.

Fréttin hefur verið uppfærð.