Norska lýðheilsustofnunin tilkynnti í dag að erlendur einstaklingur sem heimsótti Ósló dagana 6. til 10. maí hafi greinst með apabólu eftir að viðkomandi sneri aftur til heimalands síns. Norski miðillinn VG greinir frá þessu.
Borgarstjórn Ósló hefur hafið smitrakningu og vinnur með lýðheilsustofnuninni við að kortleggja hverjir gætu hafa orðið fyrir smiti. Sá sýkti er farandverkamaður frá Evrópulandi þar sem mikið hefur verið um apabólusmit.
Norska lýðheilsustofnunin mun hafa samband við þau sem urðu útsettir fyrir smiti og mun biðja þau um að fylgjast með einkennum.
„Það er ekki óvænt að fólk sem hafi smitast af apabóli hafi verið í Noregi og heilbrigðiskerfið verður að vera viðbúið því,“ segir Preben Aavitsland, yfirlæknir hjá Norsku lýðheilsustofnuninni.
Sjúkdómurinn er vægur og flestir sem sýkjast ná sér án meðferðar innan nokkurra vikna.