Einstaklingur á níræðisaldri hefur verið lagður inn á sjúkrahús með COVID-19. Hann þarf ekki á gjörgæslumeðferð að halda.

Þetta kom fram í máli Ölmu Möller, landlæknis, á upplýsingafundi í dag.

Fyrir var einn maður á fertugsaldri á gjörgæslu Landspítalans í öndunarvél og eru því tveir innlagðir á sjúkrahús með COVID-19.

Allir í sóttkví

Þrír greindust með smit innanlands í gær og voru allir í sóttkví við greiningu. Tveir þeirra eru með lögheimili í Vestmannaeyjum og einn á Vestfjörðum, að sögn Ölmu.

Raðgreining bendir til þess að þetta sé sama gerð veiru og verið hefur að greinast undanfarna daga.

Alma sagði að staðan væri sú að enn sé að greinast smit sem tengist þeim sem fyrir eru en ekki hefur enn tekist rekja ferðir allra.

Erfitt að draga ályktanir af sveiflum

Jákvætt sé að hærra hlutfall nýrra smita sé að greinast hjá fólki í sóttkí en varhugavert sé að draga ályktanir af sveiflum í fjölda smita milli daga. Þrjú innanlandssmit greindust í fyrradag en 16 á fimmtudag.

Mögulegt sé að fólk sé ólíklegra til að hringja á heilsugæsluna um helgar.