„Markmið þessarar rannsóknar er að finna þætti sem gera okkur áhættumat auðveldara þannig að það megi meðhöndla áhættu áður en hún er orðin að sjúkdómi,“ segir Þórarinn Gíslason, prófessor við Háskóla Íslands og fyrrverandi yfirlæknir lungna- og svefndeildar Landspítala.

Þórarinn fer ásamt Bryndísi Benediktsdóttur, prófessor og heimilislækni, fyrir rannsóknarhópi fyrir hönd HÍ og Landspítala sem hefur rannsakað áhrif umhverfis, lífsstíls, svefns og heilsu á öndunarfæri þjóðarinnar í yfir þrjátíu ár.

Rannsóknin heitir Evrópurannsóknin Lungu og heilsa (ECRHS) og að henni kemur stór hópur vísindamanna víða um Evrópu og í Ástralíu. Rannsóknin hófst árið 1990 meðal fólks sem þá var á aldrinum 20-44 ára, meðal annars sem viðbragð við fjölgun astmatilfella í heiminum, en vísbendingar voru um að umhverfisþættir ættu þar hlut að máli. Þátttakendur eru tugir þúsunda karla og kvenna.

Þórarinn segir styrkinn í rannsókn eins og Lungu og heilsu felast í því að með endurteknum rannsóknum sé hægt að greina orsakasambönd og draga áreiðanlegri niðurstöður, frekar en í rannsóknum sem framkvæmdar eru á einum tímapunkti.

Þórarinn Gíslason Bryndís B.jpg

Þórarinn Gíslason prófessor

Unninn hefur verið fjöldi fræðigreina úr niðurstöðum rannsóknarinnar. Segir Þórarinn þær meðal annars sýna að ekki sé hægt að draga ályktanir um hópa eins menn freistuðust meira til að gera áður.

„Einstaklingsbreytileikinn er meiri en áður var talið,“ segir Þórarinn. „Það er ekki lengur talað um karla á þessum aldri eða konur á þessum aldri, það er meiri munur á milli hvers og eins,“ bætir hann við.

„Annað sem gerir rannsóknina áhugaverða er að afkomendur þátttakenda hafa verið rannsakaðir á sama hátt og upplýsingum um foreldra þeirra hefur verið safnað. Þannig getum við séð hvernig lífsstíll og umhverfi foreldra hefur áhrif á heilsu næstu kynslóða,“ segir Þórarinn.

Niðurstöður hafa til dæmis leitt í ljós að ef faðir reykir fyrir getnað barns, einkum ef hann byrjaði að reykja fyrir 15 ára aldur, eru afkomendur hans mun líklegri til að glíma við minnkaða lungnastarfsemi, astma og ofnæmi. Þetta gildir jafnvel þótt faðirinn hefði hætt að reykja fimm árum fyrir getnað.

Einn af þeim þáttum sem íslenski hópurinn hefur skoðað er svefn. Þegar allir þátttakendur voru skimaðir fyrir kæfisvefni í þriðja fasa rannsóknarinnar fyrir um tíu árum kom í ljós að hann reyndist mun algengari en áður var talið. Fimmtán prósent reyndust vera með með kæfisvefn á meðal- eða háu stigi.

Þórarinn segir að nú sé stórt tækifæri í því að fylgja þátttakendum eftir. Niðurstöðurnar verði verðmætar. „Þær gætu til dæmis hjálpað okkur að draga ályktun um það hvort að ástæða sé til þess að skima fyrir kæfisvefni,“ segir hann.

„Í sannleika sagt eru ekki margir aðrir staðir í heiminum sem ná að fylgja svona rannsóknum þetta vel eftir, Íslendingar eru áhugasamir að leggja þessu lið og við fáum sérstaklega góða svörun,“ segir Þórarinn.