Einstaklingar með andlitsfyllingar verða að vera meðvitaðir um hættuna á fylgikvillum í tengslum við bóluefni gegn COVID-19.

Fylliefni nýtur mikilla vinsælda hér á landi og er meðal annars sprautað í andlit til að slétta úr hrukkum, til að losna við ör og til að stækka varir.

Í Svíþjóð hafa að minnsta kosti átta konur með andlitsfyllingar fundið fyrir sterkum viðbrögðum eftir að hafa fengið bóluefni gegn COVID-19. Viðbrögðin koma fram á því svæði þar sem fylliefninu hefur verið sprautað.

Sænska blaðið Aftonbladet birti í dag viðtal við unga konu sem fékk mikil viðbrögð eftir að hafa fengið bóluefni Astra Zeneca.

Konan er með fylliefni í vörum en örfáum mínútum eftir að bóluefninu var sprautað í handlegg hennar bólgnuðu varir hennar gríðarlega.

„Ég fór að finna fyrir kláða og þrýsting í vörunum stuttu eftir að ég fékk sprautuna og þá var ljóst að ég hafði fengið ónæmisviðbrögð við bóluefninu," segir konan sem starfar sem hjúkrunarfræðingur. Deginum áður en hún var bólusett hafði önnur ung kona með fylliefni upplifað svipuð viðbrögð.

Þekkt viðbrögð

Elisabeth Bernspång, læknir og rannsakandi hjá Lyfjastofnun Svíþjóðar segir í samtali við Aftonbladet að slíkar aukaverkanir komi ekki á óvart enda sé það vel þekkt að fylliefni geti valdið ónæmisviðbrögðum.

Bandaríska lyfjaeftirlitið FDA, greindi frá því fyrir áramót að bóluefni Moderna gæti valdið aukaverkunum hjá einstaklingum með andlitsfyllingar. Í forprófun á efninu sýndu þrír einstaklingar með fylliefni ónæmisviðbrögð eftir að hafa fengið bóluefnið.

Steinar Madsen, forstjóri norsku lyfjastofnunarinnar, segir í samtali við norska blaðið,Dagbladet, að aukaverkanirnar hjá þeim sem eru með fylliefni séu þó sjaldgæfar og séu ekki talin hættulegar, þar sem hægt er að meðhöndla þær á einfaldan og fljótlegan hátt. Þó ættu einstaklingar með fylliefni að vera meðvitaðir um þær aukaverkanir sem geti fylgt bólusetningunni.