Afbragðs góð kjörsókn hefur verið núna fyrripart kjördags og í utankjörfundaatkvæðagreiðslunum seinustu daga. Stjórnmálafræðingar telja líklegt að þessi öfluga kjörsókn stafi af því hve margir flokkar eru í framboði og eigi góðan möguleika á að komast inn á þing.
„Það er góð kjörsókn, sem er kannski ein afleiðing af því að það séu svona margir flokkar í framboði,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri. „Það ýtir undir að margir séu að smala, þannig að það þarf ekkert að koma okkur á óvart.“
Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst segir augljóslega mikinn áhuga á kosningunum í ár. „Enda eru þetta eitt af mest spennandi kosningum sem við höfum fengið í langan, langan tíma,“ segir hann.
„Þetta endurspeglar kannski að mjótt er á mununum og áhrif hvers og eins kjósanda kannski áþreifanlegri núna en oft áður,“ segir Eiríkur.
Grétar og Eiríkur eru sammála um að ómögulegt sé að spá fyrir um niðurstöður á þessum tímapunkti. „Kannski má álykta út frá kjörsókninni að sú skekkja sem stundum er á milli flokka vegna þess að mismunandi þjóðfélagshópar hafa mætt misvel, hún kannski minnki aðeins,“ veltir Eiríkur upp.
Þá telja þeir mjög spennandi kosningavöku vera í vændum enda mjótt á munum hjá mörgum frambjóðendum og alls óljóst hvort ríkisstjórnarflokkarnir þrír haldi starfhæfum meirihluta.