Endurtalning á atkvæðum í Suðurkjördæmi gæti leitt til í ljós skekkju á talningu eða staðfest að hárrétt hafi verið talið í fyrstu.

Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Akureyri, segir að ef í ljós komi smá skekkja leiði það til þess að jöfnunarmanna hringekjan fari af stað. „Hún geti þeytt einum manni inn og öðrum út ef að það reynist einhver skekkja þar.“ Þá sé ómögulegt að vita fyrir fram hvaða áhrif endurtalning geti haft.

Aðspurður segir Grétar Þór mál af þessum toga ekki hafa komið upp áður í nýja kosningakerfinu.

Núverandi kjördæmaskipan hefur verið óbreytt frá árinu 1999.

„Þetta gerðist í gamla kerfinu 1987, þá týndust tæplega 50 atkvæði í Norðvesturkjördæmi í Borgarnesi,“ segir Grétar Þór. Þegar búið var að telja atkvæðin þá, hafi uppgötvast að það vantaði atkvæði. Eftir mikla leit hafi óopnaður kjörkassi fundist í fangaklefa á lögreglustöðinni í Borgarnesi.

Málið þótti allt með ólíkindum og var óskað eftir opinberri rannsókn á málinu. Úr varð að á miðvikudegi eftir kjördag, 25. apríl, fóru menn frá Rannsóknarlögreglu ríkisins að rannsaka málið.

Menn voru yfirheyrðir, öllum steinum var velt við og ekkert útilokað. Um kvöldið fór lögreglumaður, Björn Þorbjörnsson, að leita að bókum og gögnum sem geymd voru í kjörkössum í fangageymslu lögreglunnar í Borgarnesi. Þegar hann opnaði þriðja kassann blöstu atkvæðin við honum.

„Ég ætlaði ekki að trúa mín­um eig­in aug­um, en það lyft­ist brún­in á mönn­um hér í húsi þegar þetta frétt­ist,“ sagði Björn í sam­tali við Morg­un­blaðið 30. apríl 1987.

Talning hófst að nýju um nóttina og kom í ljós að skipan í þingsæti breyttist ekkert við talningu hinna týndu atkvæða.

Yfirkjörstjórn í Suðurkjördæmi tók þá ákvörðun fyrr í dag að ráðist yrði í endurtalningu atkvæða þar. Talningin fer fram í kvöld og verður fyrir opnum tjöldum í samræmi við lög.