Fram undan er erfiður vetur á Land­spítala segir Anna Guð­rún Gunnars­dóttir bráða­hjúkrunar­fræðingur. Hjúkrunar­fræðingar sendu út neyðar­kall fyrr í vikunni vegna á­standsins þar og funduðu með stjórn­endum spítalans í gær. Þeir bíða nú við­ræðna við stjórn Land­spítala um hvað skuli til bragðs taka, til að ná utan um á­standið.

Á fundinum í gær var farið yfir stöðuna á bráða­mót­tökunni í Foss­vogi. Í við­tali við RÚV segir Anna Guð­rún aðal­at­riðið að allir séu með­vitaðir um hve erfið staða Land­spítalans sé. Hún segir að auka þurfi fjölda ein­angrunar­rýma í vetur, spítalinn sé nú þegar að þol­mörkum kominn.

Til að létta á­lagið á bráða­mót­töku verður bætt við allt að þrjá­tíu legu­rýmum á næstu vikum. Staðan hefur verið svo þröng að sjúk­lingar hafa legið inni á kaffi­stofum starfs­fólks og sjúkra­hús­göngum. Þá hefur verið rætt um að nýta hús­næði sjúkra­bíla undir sjúk­linga. Anna Guð­rún segir ekkert liggja fyrir enn um hvernig megi leysa málið en allir þurfi að leggjast á eitt til að bæta það.

Á fundinum í gær var farið yfir stöðuna á bráða­mót­tökunni sem hefur verið afar þung undan­farið.
Mynd/Landspítali

„Við vitum að við erum ekki að fara að fá nýjan spítala eða meira pláss akkúrat á morgun eða hinn og heldur ekki ný hjúkrunar­heimili en þá er spurningin hvað getum við gert annað og sér­stak­lega til að auð­velda okkur sér­stak­lega þennan komandi vetur af því að fólki hrýs hugur við að fara inn í veturinn eina ferðina enn með enn verra á­stand en verið hefur undan­farin ár og hefur okkur þótt nóg um,“ segir Anna Guð­rún við RÚV.

Undan­farið hafa orðið nokkrar breytingar á stjórn Land­spítala og hefur Páll Matthías­son látið af störfum sem for­stjóri. Þetta segir hún ekki auð­velda málin en þó sé ein­hugur um að grípa til að­gerða til að bæta á­standið.

„Og það er svona eins og það hafi orðið smá jarð­skjálfti það eru við­brögð sem við erum að fá og vonandi tekst okkur að finna sam­eigin­lega fleti á því að vinna þetta betur fyrir veturinn en þetta er hins vegar mjög al­var­legt og al­var­legast af öllu er að við erum að fara inn í vetur með þörf fyrir meira af ein­angrunar­plássum, það er spáð skæðri flensu í vetur, Co­vid er ekki búið. Spítalinn er nú þegar að dansa krappan dans þegar kemur að ein­angrunar­plássum þannig að það þarf virki­lega að bretta upp ermar til þess að finna ein­hverjar leiðir fyrir veturinn og tíminn er ekki mikill sem við höfum,“ segir Anna Guð­rún að lokum.