Fram undan er erfiður vetur á Landspítala segir Anna Guðrún Gunnarsdóttir bráðahjúkrunarfræðingur. Hjúkrunarfræðingar sendu út neyðarkall fyrr í vikunni vegna ástandsins þar og funduðu með stjórnendum spítalans í gær. Þeir bíða nú viðræðna við stjórn Landspítala um hvað skuli til bragðs taka, til að ná utan um ástandið.
Á fundinum í gær var farið yfir stöðuna á bráðamóttökunni í Fossvogi. Í viðtali við RÚV segir Anna Guðrún aðalatriðið að allir séu meðvitaðir um hve erfið staða Landspítalans sé. Hún segir að auka þurfi fjölda einangrunarrýma í vetur, spítalinn sé nú þegar að þolmörkum kominn.
Til að létta álagið á bráðamóttöku verður bætt við allt að þrjátíu legurýmum á næstu vikum. Staðan hefur verið svo þröng að sjúklingar hafa legið inni á kaffistofum starfsfólks og sjúkrahúsgöngum. Þá hefur verið rætt um að nýta húsnæði sjúkrabíla undir sjúklinga. Anna Guðrún segir ekkert liggja fyrir enn um hvernig megi leysa málið en allir þurfi að leggjast á eitt til að bæta það.

„Við vitum að við erum ekki að fara að fá nýjan spítala eða meira pláss akkúrat á morgun eða hinn og heldur ekki ný hjúkrunarheimili en þá er spurningin hvað getum við gert annað og sérstaklega til að auðvelda okkur sérstaklega þennan komandi vetur af því að fólki hrýs hugur við að fara inn í veturinn eina ferðina enn með enn verra ástand en verið hefur undanfarin ár og hefur okkur þótt nóg um,“ segir Anna Guðrún við RÚV.
Undanfarið hafa orðið nokkrar breytingar á stjórn Landspítala og hefur Páll Matthíasson látið af störfum sem forstjóri. Þetta segir hún ekki auðvelda málin en þó sé einhugur um að grípa til aðgerða til að bæta ástandið.
„Og það er svona eins og það hafi orðið smá jarðskjálfti það eru viðbrögð sem við erum að fá og vonandi tekst okkur að finna sameiginlega fleti á því að vinna þetta betur fyrir veturinn en þetta er hins vegar mjög alvarlegt og alvarlegast af öllu er að við erum að fara inn í vetur með þörf fyrir meira af einangrunarplássum, það er spáð skæðri flensu í vetur, Covid er ekki búið. Spítalinn er nú þegar að dansa krappan dans þegar kemur að einangrunarplássum þannig að það þarf virkilega að bretta upp ermar til þess að finna einhverjar leiðir fyrir veturinn og tíminn er ekki mikill sem við höfum,“ segir Anna Guðrún að lokum.