Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur hjá Eflingu, segir að allt jafnaðarfólk og allir femínistar ættu að fagna tilkomu Sólveigar Önnu Jónsdóttur í baráttuna á vettvangi þjóðmálanna.
Stefán skrifar grein sem birtist á vef Vísis í dag þar sem hann kemur Sólveigu Önnu til varnar og gagnrýnir um leið Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Stefán þekkir Sólveigu vel og bendir á að hún sé útsjónarsöm og pragmatísk. Þá hafi það sýnt sig að hún er slyng samningakona.
„Margir finna hins vegar að því að Sólveig Anna sé ófáguð í talsmáta og óvenju beinskeytt og stundum hvöss. Í karlaheimi fortíðar hefði sjálfsagt verið sagt um þá sem þannig tjáðu sig að þeir töluðu sjómannamál eða eins og Guðmundur Jaki - og naut það gjarnan virðingar. En beinskeyttur og gagnrýninn talsmáti Sólveigar Önnu er stundum notaður sem átylla til að telja hana ekki húsum hæfa. Þetta er notað gegn henni og sennilega meira en ef um karl væri að ræða. Hverjum hefði dottið í hug að fordæma talsmáta Guðmundar Jaka þegar hann las atvinnurekendum pistilinn á sinn hvassa hátt hér áður fyrr?“
Stefán segir að talsmáti Sólveigar Önnu komi til af því að hún er ákveðin og öflug umbreytingakona.
„Það kallar á gagnrýni og hispursleysi í framsetningu til að ná árangri í umbreytingum, þegar tilefni til gagnrýni og brýninga eru næg. Og það eru þau vissulega þegar um er að ræða kjör og lífsbaráttu láglaunafólks - og ekki síst láglaunakvenna.“
Í grein sinni gagnrýnir hann Halldór Benjamín nokkuð harðlega.
„Hvernig Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri samtaka atvinnurekenda (SA), leyfir sér að tala um hana sem óalandi og óferjandi er einstakt og raunar kennslubókardæmi um lítilsvirðingu - ef ekki beinlínis kvenfyrirlitningu,“ segir hann og bætir við að Halldór eigi lögum samkvæmt að virða sjálfstæðan samningsrétt Eflingar og forystu þess félags. Hann tali eins og Sólveigu Önnu gangi illt eitt til í baráttunni fyrir betri kjörum lægst launaða verkafólksins.
„Þannig er eins og frítt skotleyfi hafi verið gefið út á Sólveigu Önnu. Stjórnmálamenn sem ættu að styðja hana í nafni jafnaðar- og kvenfrelsisstefnu láta eins og hún sé ýmist ekki til eða að félagsskapur hennar sé þeim ekki sæmandi.“
Grein Stefáns í heild sinni á vef Vísis.