Samkomutakmarkanir munu miðast við 300 manns frá og með þriðjudeginum 15.júní. Þá verður eins metra nándarregla í gildi á opinberum stöðum. Þetta tilkynnti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi nú í morgun.

Stefnt verður að því að allir fullorðnir verði búnir að fá boð í bólusetningu 25. júní næstkomandi.

Stefnt er að því að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt um næstu mánaðarmót.

Skemmtistaðir mega vera opnir til miðnættis, gestir þurfa að fara kl. 01:00, lengist opnunartíminn um klukkustund.

Fullbólusettir þurfa ekki að fara í skimun á landamærunum við komu til landsins. Óbólusettir, eða þeir sem eru aðeins bólusettir að hluta til, þurfa að fara í tvöfalda skimun og sóttkví.

Í næstu viku verður byrjað að bólusetja langveik börn á aldrinum 12 til 15 ára.

Veiran enn til staðar í samfélaginu

Í minnisblaði Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis segir að staðan hér á landi varðandi heimsfaraldur Covid-19 sé góð. Frá 25. maí síðastliðnum þegar gildandi reglur voru settar hafi 42 einstaklingar greinst með Covid-19 innanlands, þar af 25 í sóttkví. Síðustu daga hafi daglegum tilfellum fækkað mikið og enginn greinst utan sóttkvíar þrátt fyrir að mörg sýni hafi verið greind.

„Það er því ljóst að þakka má útbreiddum bólusetningum á Íslandi og einstaklingsbundnum sýkingavörnum þann góða árangur sem við erum nú að sjá þó að ljóst sé að veiran er enn til staðar í samfélaginu“ segir í minnisblaði Þórólfs.

Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að 200.000 manns hafa fengið minnst eina bóluefnasprautu og rúmlega 100.000 manns eru fullbólusettir. Rúmlega 90 prósent þeirra sem eru 50 ára og eldri hafa fengið a.m.k. eina bólusetningu en tæplega 50 prósentþeirra sem eru yngri en 50 ára. Sóttvarnalæknir segir enn nokkuð vanta upp á að gott hjarðnæmi náist meðal yngra fólks og því þurfi að fara rólega í afléttingar á sóttvarnaaðgerðum innanlands þar til hærra hlutfall yngra fólks hefur verið bólusett. Einnig bendir hann á að um 3 vikur tekur að fá góða vernd eftir fyrstu bólusetningu.

Hér má lesa minnisblaðið í heild sinni.