Dmitry Skurikhin á litla verslunarmiðstöð í rússneska smábænum Russko-Vysotskoye, um átta klukkutíma akstur frá Mosku. Hann hefur notað húsið til að mótmæla stríðinu í Úkraínu og koma upplýsingum um árásir á framfæri. BBC fjallar um málið.
Á veggjum hússins hefur Skurikhin málað í stórum stöfum orðin „Friður til Úkraínu, frelsi til Rússlands!“ Fyrir neðan þau skilaboð hefur hann bætt við í skærrauðri málningu nöfn bæjanna sem hafa orðið fyrir árásum af hálfu rússneska hersins. Þakið hefur hann litað í fánalitum Úkraínu.
Meðal borgarnafnanna eru Maríupol, Bútsja, Kerson, Tsjernihív og Kænugarður.
Skurikhin segir í samtali við blaðamann BBC að hann hafi byrjað á verkefninu til að koma upplýsingum til íbúa bæjarins, sem töldu mörg að um sérstaka hernaðaraðgerð væri að ræða til að fjarlægja dópista frá úkraínsku ríkisstjórninni.

„Þau vissu ekki að Rússland væri að varpa sprengjum á úkraínska bæi,“ segir Skurikhin.
Skurikhin hefur orðið fyrir aðkasti vegna mótmælanna. Einhver skrifaði „svikari“ á hurðina hans og lögreglan hefur heimsótt hann og gefið honum sekt fyrir að koma óorði á rússneska herinn.
Skilaboðin hafa vakið mismunandi viðbrögð meðal íbúa bæjarins sem mörg hver eru meðfylgjandi stríðinu. Sumir eru þó sammála honum eða finnst hann í það minnsta eiga rétt á sínum skoðunum. Skurikhin segir að ef hann fær bæjarbúa til að setja minnsta spurningarmerki við rússnesku frásögnina þá hafi honum tekist ætlunarverk sitt.
Viðtalið í heild sinni og fleiri myndir má finna á vefsíðu BBC.
