Dmi­try Skurik­hin á litla verslunar­mið­stöð í rúss­neska smá­bænum Rus­sko-Vy­sotskoye, um átta klukku­tíma akstur frá Mosku. Hann hefur notað húsið til að mót­mæla stríðinu í Úkraínu og koma upp­lýsingum um á­rásir á fram­færi. BBC fjallar um málið.

Á veggjum hússins hefur Skurik­hin málað í stórum stöfum orðin „Friður til Úkraínu, frelsi til Rúss­lands!“ Fyrir neðan þau skila­boð hefur hann bætt við í skær­rauðri málningu nöfn bæjanna sem hafa orðið fyrir á­rásum af hálfu rúss­neska hersins. Þakið hefur hann litað í fána­litum Úkraínu.

Meðal borgar­nafnanna eru Maríu­pol, Bútsja, Ker­son, Tsjerni­hív og Kænu­garður.

Skurik­hin segir í sam­tali við blaða­mann BBC að hann hafi byrjað á verk­efninu til að koma upp­lýsingum til íbúa bæjarins, sem töldu mörg að um sér­staka hernaðar­að­gerð væri að ræða til að fjar­lægja dópista frá úkraínsku ríkis­stjórninni.

Skilaboð Skurik­hin eru skrifuð stórum stöfum á vegginn.
Mynd/BBC

„Þau vissu ekki að Rúss­land væri að varpa sprengjum á úkraínska bæi,“ segir Skurik­hin.

Skurik­hin hefur orðið fyrir að­kasti vegna mót­mælanna. Ein­hver skrifaði „svikari“ á hurðina hans og lög­reglan hefur heim­sótt hann og gefið honum sekt fyrir að koma ó­orði á rúss­neska herinn.

Skila­boðin hafa vakið mis­munandi við­brögð meðal íbúa bæjarins sem mörg hver eru með­fylgjandi stríðinu. Sumir eru þó sam­mála honum eða finnst hann í það minnsta eiga rétt á sínum skoðunum. Skurik­hin segir að ef hann fær bæjar­búa til að setja minnsta spurningar­merki við rúss­nesku frá­sögnina þá hafi honum tekist ætlunar­verk sitt.

Viðtalið í heild sinni og fleiri myndir má finna á vefsíðu BBC.

Þakið hefur verið litað í úkraínskum fánalitum.
Mynd/BBC