Aðalheiður Ámundadóttir
aa@frettabladid.is
Þriðjudagur 1. desember 2020
11.56 GMT

Allir sautján dómarar yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu komust að þeirri niðurstöðu í dag að íslenska ríkið hafi brotið gegn ákvæði 6. gr. Mannréttindasáttmálans með því að dómarar sem ekki voru skipaðir í samræmi við lög, dæmdu mál í Landsrétti.

Til að komast að niðurstöðu í málinu beitti efri deild réttarins þriggja þátta prófi til að ákvarða hvort frávik frá reglum um skipun dómara við Landsrétt væru nægilega alvarleg til að teljast brot á því skilyrði réttar til réttlátrar málsmeðferðar að dómstóll teldist skipaður með lögum.

  1. Hvort um brot á landslögum hafi verið að ræða

Yfirdeildin slær því föstu að um brot á landslögum hafi verið að ræða enda liggi fyrir tveir dómar Hæstaréttar þess efnis, annars vegar frá 19. desember 2017 og hins vegar 24. maí 2018, með þeim niðurstöðum að þáverandi dómsmálaráðherra hafi gerst brotlegur við reglurnar sem um skipunina giltu með því að hafa tekið fjögur dómaraefni af lista hæfnisnefndarinnar og sett önnur dómaraefni inn í staðinn án þess að leggja sjálfstætt mat á eða afla frekari gagna um dómarareynslu þeirra sem fjarlægð voru af listanum, í andstöðu við 10. gr. stjórnsýslulaga.

2. Hvort brotin fælu í sér brot á grundvallarreglum um skipunarferlið

Það er mat dómsins að þær röksemdir sem Sigríður Andersen þáverandi dómsmálaráðherra gaf Alþingi fyrir breyttum lista dómaraefna stæðust ekki skoðun. Óvissan sem ríkt hafi hafi um þá raunverulegu hvata sem bjuggu að baki ákvörðun hennar hafi skapað ótta og áhyggjur af óeðlilegum afskiptum framkvæmdarvaldsins að dómsvaldinu og með því skaðað allt skipunarferlið.

Þrátt fyrir að dómstóllinn gæti ekki sannreynt að pólitískar ástæður hafi legið að baki framferði ráðherrans, eins og kærandi málsins staðhæfði, gátu embættisfærslur hennar kallað fram málefnalegar áhyggjur þar að lútandi og orðið til þess að gegnsæi alls ferilsins biði hnekki.

Dómurinn telur brot ráðherrans ekki síður alvarleg fyrir þær sakir að hún hafði ítrekað verið vöruð við því að fara gegn dómnefndarálitinu án fullnægjandi rökstuðnings, af sérfræðingum í ráðuneyti hennar, ráðuneytisstjóra og formanni hæfnisnefndarinnar.

Að mati dómsins voru brot ráðherrans ekki eingöngu tæknilegs eðlis heldur væru þau alvarleg og fara í bága við kjarna þeirrar grundvallarreglu réttarríkisins að skipan dómstóla sé ákveðin með lögum.

Brot ráðherrans höfðu að mati dómsins grundvallaráhrif á allt skipunarferlið og á valið á þeim dómurum sem skipaðir voru til setu í hinu nýja millidómstigi.

Að lokum vísaði yfirdeildin til þeirra reglna sem settar höfðu verið um aðkomu Alþingis að skipun dómara á hinu nýja millidómsstigi, var sérstaklega ætlað að takmarka aðkomu framkvæmdarvaldsins að skipun dómara við hinn nýja dóm. Löggjafinn hafði ákveðið að þegar skipað yrði í dóminn í fyrsta skipti skyldi Alþingi veitt sérstakt hlutverk. Hæstiréttur túlkaði löggjöfina þannig að Alþingi hefði átt að greiða atkvæði um hvert og eitt hinna fimmtán dómaraefna en ekki eingöngu um listann í heild. MDE taldi þá málsmeðferð sem kveðið er á um í reglunum hafa verið ætlaða til þess að lágmarka hættu á því að flokkshagsmunir hefðu ótilhlýðileg áhrif á málsmeðferð við mat á umsækjendum og að lokum staðfestingu af hálfu þingsins. Alþingi hefði brotið eigin löggjöf með því að greiða ekki atkvæði um hvert og eitt dómaraefnanna. Þetta hafi einnig falið í sér alvarlegan ágalla á málsmeðferðinni, með tilheyrandi skaða fyrir trúverðugleika alls ferilsins. Ekki væri því hægt að áfellast kæranda málsins fyrir að draga þá ályktun að málsmeðferðin í þinginu hefði grundvallast á pólitískum forsendum.

Þetta hefði haft þau áhrif að aðkoma þingsins, sem átti að styrkja ferlið, hefði gert hið gagnstæða. Alþingi hefði brugðist því hlutverki sínu að vera öryggisventill fyrir lögmæti skipunarferilsins. Með þessum rökum telur yfirdeildin að alvarleg brot hafi verið framin á reglunum sem um skipunarferlið giltu.

3. Hvort kærandinn hafi fengið réttláta málsmeðferð hjá innlendum dómstólum

Hæstiréttur Íslands vísaði frá kæru Guðmundar Andra Ástráðssonar og kröfu hans um að Arnfríður Einarsdóttir viki sæti í máli hans sem var til meðferðar í Landsrétti.

Að mati yfirdeildar MDE brást Hæstiréttur hlutverki sínu í málinu með því að hafa lagt of mikla áherslu á réttaröryggi í landinu gagnvart virðingu fyrir lögunum hins vegar. Hæstiréttur hafði þegar kveðið upp dóma þess efnis að réttum reglum hefði ekki verið fylgt við skipunarferlið og gagnrýnir MDE Hæstarétt sérstaklega fyrir að hafa, í máli Guðmundar, synjað honum um réttláta málsmeðferð, með því að líta svo á að að hendur dómsins væru bundnar þar sem dómararnir fimmtán hefðu þegar verið skipaðir við réttinn með formlegu skipunarbréfi forseta Íslands.

Alvarlegt brot gegn 6. gr. sáttmálans

Með þessu þriggja skrefa prófi komst yfirdeild réttarins að þeirri niðurstöðu að kærandanum hafi verið synjað um aðgang á dómstól skipuðum með lögum, með því að í dómsmáli hans sat dómari sem skipaður hafði verið með hætti sem gróf undan lögmæti réttar hans til réttlátrar málsmeðferðar. Þar af leiðandi hafi verið brotið á rétti hans samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmálans.

Fimm dómarar skiluðu sérálitum með forsendum frábrugðnum frá forsendum meirihlutans. Í tveimur þeirra er komist að annarri niðurstöðu að hluta til. Greint verður frá efni sérálitanna þegar þau verða aðgengileg á vef MDE. Landsréttarmálið á sér orðið rúmlega fjögurra ára sögu og hefur haft mikil áhrif á líf fjölda fólks; stjórnmálamanna sem hafa ýmist þurft að láta af embætti eða öðlast skjótari frama en þeir ætluðu vegna málsins; lögmanna og dómara sem ýmist fengu embætti eða horfðu á eftir þeim til annarra; ríkisstjórna sem riðuðu nánast til falls.

Sagan öll

Málið var flutt munnlega fyrir yfirdeildinni þann 5. febrúar síðastliðinn. Fjöldi Íslendinga fór út til Strassborgar að fylgjast með.

Landsréttarmálið hefur bæði haft mikil pólitísk áhrif og reynst dómskerfinu mjög erfitt á þeim tæpu fjórum árum sem liðin eru frá því allt fór í hund og kött á Alþingi sumarið 2017.

Fréttablaðið rifjaði söguna upp.

2017

Milar deilur urðu á Alþingi vorið 2017 þegar undirbúningur við stofnun nýs millidómsstigs var á lokametrunum. Þegar hafði verið deilt töluvert um þessar breytingar á dómskerfinu og einkum þá leið sem rétt væri að fara við skipun dómara. Lendingin varð sú að við skipun Landsréttar í fyrsta sinn kæmi í hlut Alþingis að staðfesta skipun þeirra fimmtán dómara sem setjast áttu í réttinn.

Þáverandi dómsmálaráðherra Sigríður Á Andersen ákvað að fylgja ekki að öllu leiti mati dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastöður í Landsrétti og leggja til við Alþingi að breyttur fimmtán manna listi dómaraefna yrði staðfestur af Alþingi.

Fjórir þeirra sem dómnefndin hafði metið meðal 15 hæfustu dómaraefna úr hópi 33 umsækjenda, rötuðu ekki á lista ráðherra, en í stað þeirra komu aðrir fjórir umsækjendur sem röðuðuðust neðar en þeir fimmtán sem nefndin taldi hæfasta.

Mikil átök á þingi sumarið 2017

Alþingismenn hnakkrifust um málið á Alþingi og stjórnarandstaðan reyndi að fá málinu frestað til að gefa ráðherra færi á að rökstyðja tillögu sína betur. Ekki var aðeins tekist á um hina breyttu tillögu ráðherra heldur einnig hvort Alþingi bæri að staðfesta hvern og einn dómara eða hvort dygði að þingið greiddi atkvæði um tillögu ráðherra í heild sinni.

Margir þeirra þingmanna sem hlut áttu að máli myndu eflaust gefa mikið fyrir að geta farið aftur í tíma og tekið aðrar ákvarðanir en urðu ofan á þessa tvo örlagaríku daga á Alþingi um mánaðamótin apríl – maí 2017, þegar skipað var í embætti dómara við Landsrétt í fyrsta sinn.

Hæstiréttur greiddi fyrsta höggið áður en Landsréttur tók til starfa

Tveir umsækjenda sem ekki fengu skipun við réttinn þrátt fyrir að hafa verið í hópi fimmtán hæfustu umsækjenda, stefnu ríkinu og kröfðust bóta. Í desember dæmdi Hæstiréttur þeim 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ólögmætrar málsmeðferðar sem þeir urðu fyrir við skipun dómara í Landsrétt.

Eftir að Hæsti­réttur kvað upp dóm sinn sagðist Sig­ríður á­nægð með að mála­rekstrinum væri lokið. Efnis­lega væri hún hins vegar ó­sam­mála niður­stöðunni hvað varðaði hennar að­komu að málinu. Hún hefði ekki í­hugað stöðu sína en til­kynnti að hún myndi setja nýjar reglur um með­ferð mála af þessu tagi. 

Í kjöl­farið leituðu þeir Jón Höskulds­son og Ei­ríkur Jóns­son réttar síns og var ís­lenska ríkið dæmt til að greiða þeim skaða- og miska­bætur þar sem þeir hlutu ekki skipun, þvert á mat nefndarinnar. Í októ­ber í fyrra komst Héraðs­dómur Reykja­víkur að því að Jóni skyldu greiddar fjórar milljónir í skaða­bætur og 1,1 milljón í miska­bætur vegna Lands­réttar­málsins. Þá var réttur Ei­ríks til skaðabóta viðurkenndur.

Mikil spenna var í pólitíkinni á þessum tíma en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar sprakk 15. September 2017 vegna mála tveggja kynferðisbrotamanna sem fengið höfðu uppreist æru, annar þeirra með aðstoð föður Bjarna Benediktssonar sem þá var forsætisráðherra. Kosið var til Alþingis 28. október og ný stjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks mynduð. Gríðarleg andstaða var við stjórnarmyndunina, ekki síst í baklandi Vinstri grænna. Tveir þingmenn flokksins, voru mótfallin samstarfinu og gerðu það meðal annars að ágreiningsefni að dómsmálaráðherraefni Sjálfstæðismanna væri rúin trausti eftir skipun Landsréttar.

2018

Lands­réttur tók til starfa í byrjun árs 2018 og leið ekki að löngu fyrr en búið var að láta reyna á dómara­skipan Sig­ríðar. Þannig lagði lög­maðurinn Vil­hjálmur Hans Vil­hjálms­son fram þá kröfu í Lands­rétti, fyrir hönd skjól­stæðings síns, Guðmundar Andra Ástráðssonar, að Arn­fríður Einars­dóttir, sem Sig­ríður skipaði þvert á mat nefndarinnar, væri van­hæf í máli við dóminn. 

Landsrétti var fundið tímabundið heimili í Kópavogi og henda lögmenn gjarnan gaman að því og kalla hann Héraðsdóm Kópavogs.

Kröfuna lagði Vil­hjálmur fram 2. febrúar en henni var hafnað. Lands­réttur sagði að skipun Arn­fríðar yrði ekki haggað. Vil­hjálmur kærði niður­stöðuna til Hæsta­réttar sem stað­festi niður­stöðu Lands­réttar í lok maí. Ákvað Vilhjálmur því að taka málið enn lengra og kærði það til MDE. 

Umboðsmaður Alþingis blandar sér í leikinn

Í marsmánuði 2018, skilaði Umboðsmaður Alþingis erindi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins þar sem hann sagðist ekki myndi hefja frumkvæðisathugun á embættisfærslum ráðherra vegna málsins, með vísan til þess að málið væri til meðferðar hjá dómstólum.

Hann gerði hins vegar alvarlegar athuga­­­semdir við máls­­­með­­­­­ferð­ina, meðal ann­­­ars varðandi meintan tveggja vikna frest sem ráðherra hafi borið fyrir sig sem hindrun á að frekari rannsókn gæti farið fram um réttmæti ákvörðunar sinnar um dómaraefnin.

Þrátt fyrir að þáverandi dómsmálaráðherra hafi ítrekað vísað til menntunar sinnar í ferlinu, benti umboðsmaður á í erindi sínu að sérfræðingum ráðuneytisins hafi borið skylda til að veita ráð­herra ráð­­­gjöf, til að tryggja lögmæti ákvarðana hans.

Ráð­herra hafi í þessu til­­­viki verið veitt sú ráð­­­gjöf, en þrátt fyrir ítrekaðar ráðlegginga sérfræðinga ráðuneytisins og viðvaranir um að frávik frá dómnefndaráliti hæfisnefndarinnar og ófullnægjandi rök­­­stuðn­­­ingur fyrir þeim frávikum stæðist ekki stjórnsýslulög.

Vantraust lagt fram gegn ráðherra

Þingmenn Samfylkingarinnar og Pírata lögðu fram vantrauststillögu á Alþingi daginn sem álit umboðsmanns var birt. Greidd voru atkvæði um hana daginn eftir, 6. mars. Atkvæði féllu þannig að 29 þingmenn vildu lýsa vantrausti á ráðherra, þar á meðal voru bæði Rósa Björk og Andrés Ingi, þingmenn VG, en 33 þingmenn vörðu hana vantrausti. Bergþór Óla­­son Mið­­flokki, sat einn hjá.

2019

Dómur MDE í máli Guðmundar Andra Ástráðssonar var kveðinn upp rúmu ári síðar, 12 mars 2019. Dómurinn reyndist gríðarlegt reiðarslag fyrir dómsmálaráðherrann en að mati réttarins fól málsmeðferð ráðherrans í sér svívirðilegt brot á landslögum og þar með á rétti til réttlátrar málsmeðferðar samkvæmt 6. gr. Mannréttindasáttmálans.

Dómur MDE reiðarslag fyrir ráðherra

Í dómi MDE segir að með því einu að skipa ekki dómara við dómstól í samræmi við landslög, sé brotið í bága við ákvæði sáttmálans um réttláta málsmeðferð. Það sé niðurstöðu málsins óviðkomandi hvort brotin höfðu raunverulega áhrif á málsmeðferðina sem kærandi fékk fyrir Landsrétti.

Uppfyllti ekki rannsóknarreglu

Með því að hafa tekið fjögur dómaraefni af lista hæfnisnefndarinnar og sett önnur dómaraefni inn í staðinn án þess að leggja sjálfstætt mat á eða afla frekari gagna um dómarareynslu þeirra sem fjarlægð voru, varð ráðherra brotlegur við þær reglur sem um skipunina áttu að gilda. Brot ráðherrans höfðu að mati dómsins grundvallaráhrif á allt skipunarferlið og á valið á þeim dómurum sem skipaðir voru til setu í hinu nýja millidómstigi.

Með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar í máli þeirra umsækjenda sem ekki fengu dómaraembætti þrátt fyrir að vera í hópi fimmtán hæfustu umsækjenda, dró MDE þá ályktun að brot ráðherra leiði ekki eingöngu til þess að málsmeðferðin sé gölluð í heild, heldur hafi ráðherra einnig sýnt reglunum sem virða bar algert skeytingarleysi. Tilvitnuð niðurstaða Hæstaréttar byggðist á því að ráðherra hafði ekki uppfyllt rannsóknarreglu stjórnsýslulaga um reynslu þeirra fjögurra umsækjenda sem færðust neðar á listann til samanburðar við þá fimmtán efstu sem voru á lista ráðherra, þrátt fyrir að hafa fengið ráðgjöf sérfræðinga um nauðsyn slíkrar rannsóknar.

Trúverðugleiki ferlisins skaddaður

Að lokum vísaði MDE til þeirra reglna sem settar höfðu verið um aðkomu Alþingis að skipun dómara á hinu nýja millidómsstigi, var sérstaklega ætlað að takmarka aðkomu framkvæmdarvaldsins að skipun dómara við hinn nýja dóm.

Löggjafinn hafði ákveðið að þegar skipað yrði í dóminn í fyrsta skipti skyldi Alþingi veitt sérstakt hlutverk. Hæstiréttur túlkaði löggjöfina þannig að Alþingi hefði átt að greiða atkvæði um hvert og eitt hinna fimmtán dómaraefna en ekki eingöngu um listann í heild. MDE taldi þá málsmeðferð sem kveðið er á um í reglunum hafa verið ætlaða til þess að lágmarka hættu á því að flokkshagsmunir hefðu ótilhlýðileg áhrif á málsmeðferð við mat á umsækjendum og að lokum staðfestingu af hálfu þingsins. Alþingi hefði brotið eigin löggjöf með því að greiða ekki atkvæði um hvert og eitt dómaraefnanna. Þetta hafi einnig falið í sér alvarlegan ágalla á málsmeðferðinni, með tilheyrandi skaða fyrir trúverðugleika alls ferilsins.

Önnur niðurstaða myndi jafngilda innihaldslausri vernd

Niðurstaða dómsins var sú að ferlið við skipunina hafi í heild sinni brotið í bága við kjarna þeirrar grundvallarreglu réttarríkisins að skipan dómstóla sé ákveðin með lögum, og hafi auk þess verið til þess fallið að skaða það traust sem dómstólar í lýðræðislegu samfélagi þurfa að njóta meðal borgaranna. Að mati dómsins myndi önnur niðurstaða jafngilda því að ákvæði sáttmálans um réttláta málsmeðferð veitti enga eða innihaldslausa vernd.

Það væri íslenska ríkisins að finna leiðir til að binda enda á brot þess gegn MSE. Er meðal annars vísað til heimilda í sakamálalögunum til endurupptöku í þeim tilfellum þar sem brot átti sér stað.

Stóru orðin ekki spöruð í séráliti

Tveir dómarar skiluðu séráliti og þar voru stóru orðin heldur ekki spöruð. „Flugstjórinn í málinu (dómsmálaráðherra og síðar þingið) gerði mistök við stjórn flugvélarinnar en það sé ekki næg ástæða til að skjóta hana (Landsrétt) niður,“ segir í sératkvæði dómarana sem sögðu að með niðurstöðu meirihlutans væri verið að opna öskju Pandóru. Þeir töldu meirihlutann fara á svig við nálægðarreglu Evrópuréttarins með því að hundsa mat Hæstaréttar á innlendum lögum. Þó annmarkar hafi verið á dómaravalinu hafi landslögum verið fylgt.

Flugstjórinn í málinu gerði mistök við stjórn flugvélarinnar en það sé ekki næg ástæða til að skjóta hana niður.

„Dómurinn nú mun einnig hafa áhrif á aðildarríki önnur en [Ísland]. Sú spurning mun óumflýjanlega vakna hvort og að hve miklu leyti dómsúrlausnir ríkja geti verið véfengdar á grunni þess að dómurinn hafi ekki verið skipaður með lögmætum hætti, jafn vel þó langt sé liðið frá skipuninni og þar til málið barst dómnum,“ segir í niðurlagi sérálitsins.

Ráðherra taldi sig njóta trausts eftir dóminn

Dómurinn olli gríðarlegum pólitískum titringi á Íslandi um leið og niðurstaðan var kunngerð. Í hádegisfréttum sama dag sagðist dómsmálaráðherra ekki sjá ástæðu til annars en að sitja áfram, hún nyti trausts í ríkisstjórninni. Hún dvaldi við minnihlutaálitið og ítrekaði að fundið hefði verið að allri málsmeðferðinni, ekki aðeins sínum þætti heldur einnig málsmeðferðinni á Alþingi.

Ljóst varð þó að þegar líða tók á daginn traust til Sigríðar í stjórnarflokkunum var ekki eins óbrigðult og hún hafði sjálf talið. Stjórnarandstaðan var farin að dusta rykið af vantrauststillögunni eftir hádegið og þingheimur taldi atkvæði á fingrum sér.

Upp úr hádegi næsta dags boðaði Sigríður Á Andersen til blaðamannafunda þar sem hún tilkynnti að hún myndi stíga tímabundið til hliðar.

Sigríður Á Andersen tilkynnti á blaðamannafundi, daginn eftir að dómur MDE var kveðinn upp, að hún myndi stíga tímabundið til hliðar sem ráðherra.

Engin réttaróvissa að mati ráðherra

Sigríður sagðist hafa skynjað að per­sóna hennar kynni að trufla þær á­kvarðanir sem þarf að taka þyrfti um næstu skref þótt hún væri reyndar ekki sammála því að hér á landi ríkti réttar­ó­vissa vegna stöðunnar í Lands­rétti. Hún hygðist því stíga til hliðar „til að skapa vinnu­frið næstu vikurnar“ en á­kvörðunina segir hún al­gjör­lega sína eigin. Hún hafi ekki fundið fyrir neinum þrýstingi frá full­trúum ríkis­stjórnarinnar eða úr eigin flokki.

Ekki fór fram hjá neinum að Sigríði var ekki sérlega hlýtt til Mannréttindadómstólsins í kjölfar dómsins en hún kallaði dómstólinn pólitískt at í aðsendri grein í Morgunblaðinu og vísaði ítrekað til hans sem 'nefndar úti í Evrópu.

Tveim dögum eftir að dómur MDE féll var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir búin að bæta dómsmálaráðuneytinu við sig, auk ferða-, nýsköpunar- og iðnðarmálana.

Það var Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins sem tilkynnti fjölmiðlum hver tæki við af Sigríði. Ráðstöfunin væri þó tímabundin. Bjarni sagði þó að hann teldi ó­­lík­­legt að Sig­ríður sneri aftur á næstu vikum líkt og hún hafði sjálf gefið til kynna deginum áður. Hann sagðist ekki geta svarað því hvort Sig­ríður myndi taka við sem ráð­herra aftur á yfir­­standandi kjör­­tíma­bili en slíkt væri opið.

Legið undir felldi

Næstu dagar og vikur fóru í skoðanaskipti og umræður um hvað landi og þjóð væri nú fyrir bestu. Væri skynsamlegt að láta staðar numið, una dómi og byggja dómskerfið upp að nýju eða ætti að freista þess að fá dóminum snúið hjá yfirdeild réttarins.

Var málið meðal annars skeggrætt í pallborði á lagadeginum rúmum tveimur vikum eftir að dómur MDE var kveðinn upp. Þar sagði Benedikt Bogason, þáverandi stjórnarformaður dómstólasýslunnar að til tals hefði komið að landsréttardómararnir fjórir sem dómurinn laut að, færu í launað leyfi. En til að dómari fari í launað leyfi þurfi viðkomandi að biðja um það sjálfur.

„Þess vegna lagði Dómstólasýslan til að það væri farið í að breyta lögum og fjölga dómurum við réttinn,“ sagði Benedikt. Hann lagði áherslu á það í erindi sínu að stjórnvöld bregðist fljótt við áður en fyrirsjáanlegur málahali myndist í Landsrétti með tilheyrandi drætti á meðferð mála.

Sama dag um umrætt málþing fór fram beindi Fréttablaðið fyrirspurn til Landsréttar um verkefni dómaranna fjögurra, Í svari Björns Bergssonar, skrifstofustjóra réttarins, kom fram að vegna þeirrar óvissu sem ríkir um hvernig brugiðist verður við af hálfu stjórnvalda hafi þeim ekki verið falin einhver tiltekin varanleg verkefni til að annast. „Til þessa hafa þau eftir atvikum sinnt tilfallandi verkum. Fyrr en línur skýrast eru ekki forsendur af hálfu dómsins til að taka frekar af skarið í þessum efnum.“ Sagði meðal annars í svari Björns.

Óskað eftir endurskoðun yfirdeildar

Tæpum mánuði eftir að dómur var kveðinn upp í Strassborg tilkynnti nýr dómsmálaráðherra að óskað yrði eftir endurskoðun hjá yfirdeild réttarins.

„Við höfum síðustu vikur skoðað mis­munandi fleti þessa mikil­væga máls. Eftir þá skoðun tel ég rétt að óska endur­skoðunar hjá yfir­deild Mann­réttinda­dóm­stólsins. Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikil­væga hags­muni málið snertir hér á landi,” sagði Þór­dís Kol­brún Reykfjörð Gylfa­dóttir, dóms­mála­ráð­herra um ákvörðunina.


Ég tel brýnt að fara þessa leið í ljósi þess hve mikil­væga hags­muni málið snertir hér á landi.


Í tilkynningunni sagði einnig að dómur MDE hefði ekki að­eins á­hrif hér á landi heldur einnig um alla Evrópu. Það sé mat sér­fræðinga dóms­mála­ráðu­neytisins, að höfðu sam­ráði við ríkis­lög­mann og dr. Thomas Horn, sér­fræðing í mann­réttindum og réttar­fari, að leita eigi endur­skoðunar á dómi MDE enda veki málið upp veiga­miklar spurningar um túlkun og fram­kvæmd mann­réttinda­sátt­mála Evrópu.

Álag á dómskerfið fór að segja til sín

Í kjölfar ákvörðunarinnar fóru að heyrast áhyggjuraddir um langan óvissutíma fyrir íslenskt dómskerfi. Fjórir af fimmtán dómurum í Landsrétti gátu ekki setið í dómum og fyrirséð að dráttur gæti orðið á málum og málahali gæti farið að myndast. Þrýsti dómstólasýslan á stjórnvöld að bregðast við og skipa fleiri dómara við réttinn. Mánuðir liðu án þess að brugðist yrði við því. Strax daginn eftir að ákvörðun um að leitað yrði til yfirdeildar, sagði stjórnarformaður dómstólasýslunnar í samtali við Fréttablaðið að afar brýnt væri að brugðist yrði án tafa við vanda Landsréttar. Dráttur fari að verða á meðferð mála við dóminn og vandinn gæti orðið erfiður viðureignar fái hann að vinda upp á sig. Hálfu ári síðar var Benedikt farið að leiðast þófið. „Ég undrast hversu langan tíma það tekur ráðuneytið að taka afstöðu til tillagna sem við lögðum fram fyrst í mars og svo í september,“ sagði Benedikt í samtali við Fréttablaðið í október, þegar rúmt hálft ár var liðið.

Í september óskuðu tveir dómarar eftir launuðu til áramóta og voru þá settir þrír dómarar við réttinn tímabundið.

Það var svo um sex vikum síðar eða í lok nóvember sama ár, að dómararnir fjórir óskuðu eftir hálfs árs leyfi. Þá var unnt að setja fjóra dómara við réttinn þann tíma, án auglýsingar.

Fyrr um þetta haust hafði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir verið skipuð ráðherra dómsmála og MDE ákveðið að verða við beiðni íslenskra stjórnvalda um endurskoðun hjá yfirdeild réttarins. Málið fengi flýtimeðferð. Kunnugir sögðu þó að flýtimeðferð gæti þýtt eitt til tvö ár í bið til viðbótar.

2020

Uppúr áramótum fór undirbúningur fyrir málflutning fyrir yfirdeild á fullt.

Munnlegur málflutningur í Strassborg var settur á dagskrá réttarins 5. febrúar og breski lögmaðurinn Timothy Otty var ráðinn til að flytja mál íslenska ríkisins með Ríkislögmanni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var ekki eining í ríkisstjórninni um þá ráðstöfun að ráða Otty til að flytja Landsréttarmálið. Frumkvæðið hafi komið frá dómsmálaráðuneytinu en efasemdum hafi verið lýst um ákvörðunina bæði af hálfu embættis ríkislögmanns og forsætisráðuneytisins. Tæpum tveimur vikum fyrir málflutninginn í Strassborg óskaði Einar Karl Hallvarðsson, ríkislögmaður, eftir ótímabundnu veikindaleyfi og var hann frá í þrjá mánuði og tók ekki þátt í málflutningnum ytra.

Sigríður Andersen fyrrverandi dómsmálaráðherra óskaði hins vegar eftir því að fá svokallaða aðild þriðja aðila að málinu, en yfirlýsing frá henni fygldi málsgögnum ríkisins sem lögð voru fram í málinu. Meðal málsgagna fylgdi einnig yfirlýsing frá Brynjari Níelssyni, þingmanni og eiginmanni Arnfríðar.

Málið sprottið af pólitískum hrossakaupum

Brynjar taldi að sér vegið í málatilbúnaði Vilhjálms H Vilhjálmssonar, en hann hélt því meðal annars fram í grein sem hann birti í Fréttablaðinu að málið væri sprottið af pólitískum hrossakaupum milli Sigríðar Á Andersen og Brynjars Níelssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og eiginmanns dómarans Arnfríðar. Brynjar hafi hleypt Sigríði fram fyrir sig á framboðslista og komið henni þannig í mögulega ráðherrastöðu. Hún hafi í staðinn skipað eiginkonu hans í Landsrétt.

Fjöldi Íslendinga voru viðstaddir málflutninginn í Strassborg, þar á meðal embættismenn, dómarar og alþingismenn. Sautján dómarar Mannréttindadómstólsins sitja í yfirdeildinni og beindu dómararnir mörgum spurningum að báðum málsaðilum, meðal annars um hin meintu pólitísku hrossakaup.

Ástráður sótt sex sinnum um án árangurs

Meðan á þessum langa málarekstri hefur gengið hafa töluverð mannaskipti orðið í Landsrétti, þannig hafa þrír af dómurunum fjórum ítrekað sótt um þær stöður sem losnað hafa í Landsrétti og þá gjarnan keppt um þær við dómaraefnin sem upphaflega voru metin meðal þeirra hæfustu til að hljóta skipun í réttinn þegar hann var settur á fót. Hafa þrír af dómurunum fjórum nú fengið skipun við réttinn að nýju og einnig tveir hinna fjögurra sem ekki hlutu skipun upphaflega þrátt fyrir að vera í hópi fimmtán hæfustu. Eiríkur Jónsson prófessor var skipaður við réttinn í september í fyrra og Jón Höskuldsson, dómstjóri við Héraðsdóm Reykjaness var skipaður við réttinn nú í haust.

Ástráður Haraldsson, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, hefur hins vegar ekki enn verið skipaður við Landsrétt, þátt fyrir að hafa sótt um í öll sex skiptin sem dómaraembætti hefur verið auglýst, oftar en allir aðrir. Hann hefur tvívegis verið metinn í hópi hæfustu umsækjenda. Hann var í hópi fimmtán efstu þegar dómurinn var settur á laggirnar og í nýjasta áliti dómnefndar sem birt var 2. september síðastliðinn, var hann metinn hæfastur ásamt þeim Ragnheiði Bragadóttur og Jóni Höskuldssyni, sem fengu lausu stöðurnar tvær.

Á þriðja hundrað dómar verið dæmdir af dómurunum fjórum

Þótt Landsréttarmálið verði til lykta leitt í Strassborg innan stundar, liggur ekki enn fyrir með hvaða hætti farið verður með á þriðja hundrað dóma Landsréttar sem dæmdir voru af þeim fjórum dómurum sem Landsréttarmálið tekur til, fari svo að yfirdeild Mannréttindadómstólsins staðfesti staðfesti dóm réttarins frá mars 2019. Dómur verður kveðinn upp í yfirdeild dómsins klukkan tíu í dag, að íslenskum tíma.

Þótt málaferli vegna skipunar dómaranna hafi farið strax af stað í kjölfar skipunarinnar tóku dómararnir fjórir fullan þátt í störfum dómsins frá skipun þeirra 1. janúar 2018 og þar til dómur MDE féll 13. mars 2019. Á umræddu tímabili kváðu dómararnir fjórir upp yfir 500 dóma og úrskurði.

Í flestum tilvikum er um úrskurði að ræða en einkamálin sem þeir tóku þátt í að dæma voru 120 og sakamálin 85 en það er rúmlega helmingur allra sakamála sem dæmd voru í Landsrétti árin 2018 og 2019 en þau voru 159 á umræddu tímabili.

Búast má við að einhverjum þessara mála verði beint til nýs endurupptökudóms sem lögum samkvæmt er tekinn til starfa, þótt dómarar við dómstólinn hafi reyndar ekki verið skipaðir. 

Athugasemdir