Einn virtasti leikstjóri heims, Simon McBurney, vinnur nú að undirbúningi leiksýningar í Þjóðleikhúsinu, sem skipuð verður alþjóðlegum leikhópi.
Sýningin byggir á skáldsögu Nóbelsverðlaunahafans Olgu Tokarczuk, Drag plóg þinn yfir bein hinna dauðu og mun starfsfólk Þjóðleikhússins vinna hana í samstarfi við hinn virta leikhóp Complicité í Odéon-leikhúsinu í París, en sýningin mun ferðast um heiminn á næsta ári og verður sýnd á fjölum Þjóðleikhússins á árinu.
Sýningin markar upphaf samstarfs Þjóðleikhússins við Complicité, en hópurinn hefur verið meðal fremstu leikhópa heims um árabil.
„Það eru stórtíðindi að hinn einstaki leikhópur Complicité, með einn fremsta leikstjóra heims í fararbroddi, sé kominn í samstarf við íslenskt leikhús,“ segir Magnús Geir Þórðarson Þjóðleikhússtjóri. „Við erum í skýjunum og hlökkum mikið til samstarfsins,“ bætir hann við. Magnús hefur sjálfur lengi verið mikill aðdáandi McBurney. „Það má því segja að hér sé draumur minn og fleira íslensks leikhúsfólks að rætast,“ segir Magnús Geir.