Einn var í dag í Héraðs­dómi Reykja­víkur úr­skurðaður í á­fram­haldandi viku­langt gæslu­varð­hald vegna rann­sóknar lög­reglu á mann­drápinu að Rauða­gerði.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá lög­reglunni. Gæslu­varð­haldið gildir því til föstu­dagsins 5. mars, á grund­velli rann­sóknar­hags­muna að kröfu Lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu.

Segir í til­kynningu að það sé í þágu rann­sóknar hennar á mann­drápi í austur­borginni um þar síðustu helgi. Þá segir lög­regla enn­fremur að ekki sé hægt að veita frekari upp­lýsingar um málið að svo stöddu.

Maðurinn sem var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði aðfaranótt Valentínusardags hét Armando Beqirai. Hann var fæddur árið 1988. Hann var frá Albaníu en búsettur á Íslandi og lætur eftir sig íslenska eiginkonu og eitt barn. Armando starfaði við öryggisgæslu og kom að rekstri fyrirtækisins Top Guard í félagi við nokkra aðra menn. Þeir önnuðust, meðal annars, dyravörslu á skemmtistöðum í Reykjavík.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er albanskur karl­­maður, bú­­settur er hér á landi, grunaður um að hafa orðið Armando að bana í Rauða­­gerði um þar síðustu helgi. Um­­­merki hafa fundist um að hleypt hafi verið af skot­vopni á heimili hans.

Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, vildi hvorki staðfesta né veita beinar upplýsingar um efnisatriði rannsóknarinnar í samtali við Fréttablaðið í vikunni. Tólf hafa stöðu sakbornings vegna rannsóknar á morðinu að sögn Margeirs. Sjö hinna grunuðu sitja í gæsluvarðhaldi, ein kona og sex karlmenn. Tveir eru í farbanni.