Einn úr þriggja manna fjöl­skyldu sem var í bílnum sem endaði í sjónum í Skötu­firði í dag var fluttur á bráða­deild Borgar­spítalans. Hinir tveir voru fluttir á Land­spítalann á Hring­braut. Þetta stað­festir Rögn­valdur Ólafs­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn hjá al­manna­vörnum, við Frétta­blaðið.

Bíllinn fór út af veginum í Skötu­firði í Ísa­fjarðar­djúpi á ellefta tímanum í dag. Veg­far­endur komu að bílnum og náðu að koma fólkinu úr honum og á þurrt land til að veita þeim skyndi­hjálp. Í bílnum var þriggja manna fjöl­skylda; maður, kona og lítið barn.

Tvær þyrlur Land­helgis­gæslunnar voru sendar á vett­vang og fluttu þær fjöl­skylduna í bæinn. Önnur þeirra lenti við Borgar­spítalann í Foss­vogi en hin á Reykja­víkur­flug­velli um eitt­leytið.

Skýringin á því er sú að önnur þeirra flutti einn með­lim fjöl­skyldunnar á bráða­mót­töku, sem er í Foss­vogi, en hin þyrlan flutti hina tvo á Reykja­víkur­flug­völl. Þaðan var þeim ekið með sjúkra­bíl á Land­spítalann við Hring­braut.

Rögn­valdur hefur ekki upp­lýsingar um hversu al­var­legt á­stand þess er sem fór á bráða­mót­töku. Hann getur ekki greint frá því hvert þeirra þriggja var flutt þangað.

Rann­sókn á slysinu er nú hafin á slysstað. Flug­hált er á veginum og Rögn­valdur segir ekki ó­lík­legt að hálkan hafi spilað stóran þátt í slysinu.