Þrír einstaklingar eru nú á gjörgæslu vegna Covid-19 smits og tveir eru í öndunarvél. Þetta er fjölgun frá því í morgun þegar tveir voru á gjörgæslu og aðeins einn í öndunarvél. Alls eru nú 63 sjúklingar inniliggjandi vegna veirunnar en alls hafa 125 verið lagðir inn í þriðju bylgju faraldursins.

Þrjú andlát hafa orðið á Landspítala í þriðju bylgju, en einn einstaklingur lést í gær.

967 sjúklingar eru í eftirliti Covid-19 göngudeildar, þar af 168 börn.

Smitum tengdum Landakoti fjölgar

Vegna hópsýkingar á Landakoti hefur verið ákveðið að skima starfsmenn Landspítalans með skipulögðum hætti. Nú hafa alls 126 kórónaveirusmit verið rakin til hópsýkingarinnar sem uppgötvaðist á Landakoti fyrir helgi og hefur þeim fjölgað um fjögur frá því í morgun. Alls hafa 65 starfsmenn spítalans og 61 sjúklingur smitast. Þetta kemur fram í uppfærðum tölum frá viðbragðsstjórn og farsóttanefnd Landspítalans.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hefur lagt til að aðgerðir verði hertar hér á landi. Hann skilaði inn minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra síðdegis í dag. Að sögn Þórólfs mun hann leggja til að núverandi aðgerðir verði hertar enn frekar en vildi ekki greina frekar frá tillögum sínum á upplýsingafundi almannavarna í dag. Eins og staðan er í dag er 20 manna samkomubann á landinu öllu en útfærsla einstakra tillagna liggur ekki fyrir.