Eitt þeirra þriggja smita sem greint var frá í gær en greindust við landa­mæra­skimun á föstu­daginn reyndist vera nýtt smit og er sá sem greindist því smitandi og kominn í ein­angrun. Hin tvö smitin voru gömul og þeir sem með þau greindust eru því frjálsir ferða sinna.

Þetta stað­festir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið. Ekki eru komnar endan­legar niður­stöður úr þeim sýnum sem tekin voru við landa­mærin í gær en nýjar tölur munu birtast á co­vid.is klukkan 13 í dag. Því eru nú fimm í einangrun með virk smit á landinu en ekki sjö eins og stendur á síðunni.

Minna en 0,1 prósent farþega smitandi

Alls hafa nú þrír greinst með virkt smit í skimun við landa­mærin, frá því að hún hófst þann 15. júní fyrir viku síðan, af þeim tæp­lega fjögur þúsund sem sýni hafa verið tekin úr. Allt í allt hafa þó níu greinst með já­kvætt sýni úr skimuninni en sex þeirra mældust með mót­efni í blóðinu og hafa því verið með gamalt smit. Þeir hafa þannig fengið Co­vid-19 fyrir ein­hverju síðan, batnað og eru ekki smitandi í dag.

Þannig var með tvo þeirra þriggja sem greindust á föstu­dag. Þór­ólfur segist ekki geta gefið upp hvaðan sá kom sem greindist með virka smitið á föstu­dag. Hann segir að farið verði yfir þær upp­lýsingar nú í vikunni.

Verk­efnið verður svo endur­metið eftir næstu viku en fyrstu tvær vikur þess eru hugsaðar sem á­kveðið til­rauna­stig. Hlut­fall þeirra sem greinast með smitandi Co­vid-19 hefur ekki verið sér­lega hátt; þrír af þeim 3769 sem búið er að skima og fá úr niður­stöðu voru smitandi eða um 0,08 prósent allra far­þeganna.