Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp á næstunni um að sýslumönnum verði fækkað úr níu í einn.

Jónas B. Guðmundsson, formaður Félags sýslumanna, staðfestir að fundir hafi farið fram milli ráðuneytisins og sýslumannsembættanna um málið í síðustu viku.

„Þetta er nú svo nýtilkomið að við höfum ekki náð að ræða þetta mál í okkar hópi formlega. En þeir sem ég hef rætt við eru dálítið efins,“ segir Jónas.

Meðal röksemda dómsmálaráðherra er að breyttar samfélagslegar aðstæður og tækninýjungar kalli á nýja og breytta uppbyggingu. Jafnvel megi segja að núverandi umdæmismörk hafi verið hindrun fyrir vexti í stafrænni þjónustu og skapi tvíverknað.

Jónas telur að hægt væri að standa að frekari rafrænni framþróun án svo stórra breytinga.

„Við erum á fullu fyrir í umbreytingum og umbótum þannig að ég held að núna sé ekki besti tíminn fyrir svona mál,“ segir Jónas.

Hann segist ekki geta svarað hvaða stöðu sýslumennirnir átta muni hafa ef þeir verða sviptir titli sínum með samþykkt frumvarpsins sem til stendur að verði að lögum á haustþingi. „Kannski verða bara skrifstofustjórar í hverju og einu umdæmi,“ segir Jónas.

Sýslumenn ætla að nýta andmælarétt sinn í málinu.

„Ég held að það sé ekki til farsældar fallið ef það á að keyra þetta mál svona hratt í gegn,“ segir Jónas.